Kjallarinn

mynd2

Leika sér með hráefnið

Kjallarinn er hlýlegur veitingastaður í miðbæ Reykjavíkur þar sem leikgleðin í eldhúsinu skilar sér á diskana. „Við sækjum hráefni og hugmyndir hringinn í kringum hnöttinn og erum opin fyrir því að prófa allt, þó ekki endi það allt á seðlinum. Það þarf að velja og hafna. Markmiðið er að þróa, fikta, prófa og uppgötva og á það bæði við um matinn og svo pörun kokteila sem er eitthvað sem við leggjum mikið upp úr,“ segir Eyjólfur Gestur Ingólfsson sem stjórnar eldhúsi Kjallarans. Í Kjallaranum má sjá margt kunnuglegt sem framsett er á framandi máta.

pic5

„Við erum stöðugt leitandi, ekki hvað síst að nýjum leiðum til að poppa upp það hefðbundna, ekki bara með því að leita uppi framandi krydd og samsetningar heldur einnig með eldunartækjum. Aðalréttum er skipt í tvennt á matseðli eftir eldunaraðferðum, annars vegar er viðarkolaofn sem gefur visst bragð sem ekki næst með öðrum hætti, en sama má segja um hina aðferðina, frönsku plötuna sem kallar fram áferð og eldun sem er einstaklega skemmtileg fyrir auga jafnt sem bragðlauka.“

Á matseðlinum er fimm rétta rússíbanareið fyrir bragðlaukana sem m.a. inniheldur rækjunjóla með sítrónukremi, gratineraðan skötusel, sushi pizza, léttreyktan svartfugl, misomarineraða bleikju, blálöngu, grillaða nautalund og eggaldinböku.

pic6

„Börnum er bannað að leika sér með matinn en ég tek engu tali og held áfram að gera tilraunir, ekki hvað síst þegar þeim er þetta vel tekið, til dæmis vinnunni sem við lögðum í að para saman rétti og kokteila. Það hefur gefið góða raun og kallar fram alveg sérstaka stemmingu. Sumir eru hræddir við að prófa en það er óhætt að sötra hanastél með matnum, ekki hvað síst þegar skyldleiki er milli drykks og réttar. Kryddjurtir eins og engifer og chili í kokteilum kallast á við matinn.“

Umgjörðin utan um tilraunir Eyjólfs og félaga er hlýlegur kjallari hvar hlaðnir steinveggir, auk upprunalegs steingólfs, kallast á við nýstárlega lýsingu og innréttingar. Andstæður, sem líkt og í matargerð, kalla fram samstæða heild. Rýmið skiptist í tvennt, fremri og innri sal, og þrátt fyrir góða yfirsýn sjá skilrúm til þess að gestir geti verið út af fyrir sig og laus við klið.

pic10

pi7pic8pic4

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0