Aurum
Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi á Grænlandi, hafði á sínum tíma samband við Guðbjörgu Ingvarsdóttur gullsmið, sem rekur verslunina Aurum, og spurði hvort grundvöllur væri fyrir samstarfi varðandi það að nýta hreindýraklaufir frá honum í skartgripagerð. Úr varð skartgripalínan Tuttu sem er grænlenska orðið yfir hreindýr en innblásturinn af Tuttu-línunni kemur frá hreindýraklaufunum. Guðbjörg fékk nokkrar klaufir á meðan hún var að þróa línuna sem er þó mest úr silfri en von er á fleiri klaufum og segir Guðbjörg að hún vonist til að gera hluti sem verða eingöngu úr hreindýraklaufum.
„Mér fannst þetta vera spennandi. Þetta verkefni heillaði mig og mér fannst vera frábært ef hægt væri að nýta klaufirnar,“ segir Guðbjörg og bætir við að svipað sé að vinna við hreindýraklaufir og silfur – þær eru harðar og sterkar en jafnframt léttar þannig að hægt er að smíða stóra hluti úr þeim.
„Ég hafði aldrei áður séð þetta efni og áferðin er falleg. Það eru fallegar, hvítar línur í klaufunum sem mér finnst vera áhugaverðar en þær segja kannski sögu hreindýrsins þegar það er búið að vera á fjöllum á Grænlandi. Þær segja kannski ævintýri þeirra.“
Þess má geta að línur svipaðar þeim sem eru á klaufunum eru líka í silfrinu í Tuttu-línunni.
Áhrif náttúrunnar má sjá í skartgripunum. „Ég fór að skoða myndir frá Grænlandi í sambandi við þetta verkefni og þetta form endurtók sig í náttúrunni svo ég fór að vinna með það.“ Formið sem Guðbjörg talar um er beitt. Ákveðið. Hart. Andstæðurnar í grænlenskri náttúru eru miklar – þær eru stundum eins og svart og hvítt eða eins og svört klaufin og bjart silfrið. „Þessar andstæður – klaufirnar og silfrið – eru ofboðslega fallegar og tengjast mjög vel. Ég geri klaufirnar mattar sem passar vel við silfrið.“
Mynd af gamalli höfðingjagröf á Grænlandi með stóru hvalbeini ofan á varð innblástur annars forms í Tuttu-línunni.
Nanook
Fleiri hugmyndir kviknuðu í tengslum við Grænland og fór Guðbjörg síðar að þróa aðra skartgripalínu með ísbjörninn í huga. Það er skartgripalínan Nanook sem þýðir ísbjörn á grænlensku.
„Ég fór að skoða klærnar á ísbirninum og út frá því komu hugmyndir að áferðinni á skartgripunum en ég fór að hugsa um þetta stóra dýr á ísnum – hvað ísinn er sterkur en samt koma í hann rákir og rifur út af þessum þyngslum. Áferðin á silfrinu vísar til þess hvernig ísbjörninn setur spor sín í ísinn.“ Áhrif af rákum og sprungum í ísnum eftir ísbjörninn má sjá í Nanook-skartgripalínunni hvort sem það eru hálsmen, armbönd eða eyrnalokkar.
„Svo fór ég að hanna hálsmen með auga ísbjarnarins í huga og í því er steinninn tourmaline quartz,“ segir Guðbjörg en steinninn er í hlutverki augasteins. „Þetta er náttúrusteinn og áferðin á honum heillaði mig – hann er glær með svörtum rákum sem kallast líka á við landslagið á Grænlandi. Mér fannst þetta passa fullkomlega inn í Grænlandsdæmið.“
Báðar línurnar eru enn í þróun og má búast við fleiri skargripum undir áhrifum frá Grænlandi.