Hafnarfjarðarbær

Bærinn í hrauninu

Ferðamaðurinn getur haft nóg að gera í Hafnarfirði þar sem sagan segir að álfar eigi margir hverjir bústaði. Bárujárnshúsin í gamla bænum heilla margan manninn og leggur bærinn áherslu á að varðveita þessar gömlu götumyndir. Austurgatan er ein af þeim götum sem eru svolítið ævintýralegar – þar eiga húsin sér marga söguna. Oft hefur verið talað um þá sérstöku bæjarsál sem einkennir sjávarþorp á Íslandi og þótt Hafnarfjörður sé þriðja stærsta sveitarfélag landsins hefur tekist að varðveita, að hluta, þessa bæjarsál. Hafnfirðingar eru stoltir af bænum sínum og vilja að sjálfsögðu fá til sín sem flesta gesti til að njóta alls þess sem bærinn hefur upp á að bjóða.

hansi-3Frítt í söfnin
Bærinn státar af söfnum sem eru í eigu bæjarins og er frítt inn á þau. Fyrst skal nefna Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, þar sem settar eru reglulega upp listsýningar. Þar eru einnig haldin myndlistarnámskeið og tónleikar og þar er ávallt mikið um að vera enda einn aðalsamkomustaður Hafnarfjarðar. Þar er nú veitingastaðurinn Gló. Tilvalið er að leggja leið sína í Hafnarborg, skoða sýningarnar og fá sér svo í svanginn.
Byggðasafnið er í nokkrum húsum í bænum og þar er sögunni gerð góð skil en fimm ár eru síðan Hafnarfjarðarbær fagnaði 100 ára afmæli sínu.  
Þrjár sýningar eru í Pakkhúsinu; í fyrsta lagi er það fastasýning um sögu bæjarins, leikfangasýning og þemasýning. Saga bæjarins og nágrennis frá landnámi til dagsins í dag er rakin á sýninguni „Þannig var…“ og eru sagnfræðilegir textar, ljósmyndir, teikningar, kvikmyndir og ýmsir munir notaðir til að gera sýninguna ítarlega. Hvað leikfangasýninguna varðar þá má nefna að hið margverðlaunaða enska sýningarfyrirtæki Janvs Ltd. hannaði hana. Þemasýningarnar, sem eru í forsal Pakkhússins, er ætlað að varpa ljósi á ákveðin tímabil eða atburði í sögu Hafnarfjarðarbæjar.
Næst má nefna Bungalowið þar sem er sýning tengd tímabili erlendu útgerðanna í bænum á fyrri hluta 20. aldar auk þess sem þar má skoða stássstofu bræðranna Harry og Douglas Bookles sem bjuggu í húsinu. Gestir geta svo skoðað Góðtemplarahúsið sem er kallað Gúttó sem var fyrsta eiginlega samkomuhús Hafnfirðinga og lengi vel menningarmiðstöð í bænum. Svo er það Beggubúð sem er verslunarminjasafn byggðasafnsins.
SivertsenSívertsenhús varpar ljósi á hvernig yfirstéttarfjölskylda bjó í byrjun 19. aldar auk þess sem gestir geta fræðst um sögu Bjarna Sívertsen og fjölskyldu hans en Bjarni rak útgerð, verslun og skipasmíðastöð í bænum. Húsið er elsta húsið í bænum en það var byggt á árunum 1803-1805.
Siggubær er sýnishorn af heimili verkamanns og sjómanns í bænum frá fyrri hluta 20. aldar en það var Erlendur Marteinsson sjómaður sem byggði húsið árið 1902. Dóttir hans hét Sigríður en hún flutti í húsið þegar hún var 10 ára og bjó þar þar til hún flutti á elli- og hjúkrunarheimili.
Ríkið rekur síðan í bænum Kvikmyndasafn Íslands sem sýnir kvikmyndir í Bæjarbíói.

IMG_0294Álfarnir í bænum
Hellisgerði er skrúðgarður í Hafnarfirði þar sem bæði bæjarbúar og aðrir njóta fallegra blóma og trjáa. Það er aldrei að vita nema þar leynist einhverjir álfar sem myndu heilsa upp á þá gesti sem skynja meira en almennt gengur og gerist. Álfagarður nefnist einmitt fyrirtæki sem er staðsett í Hellisgerði og er tilvalið að koma þar við og gægjast inn í litla, álfalega kaffihúsið. Reyndar eru tvö ferðaþjónustufyrirtæki í Hafnarfirði tengd álfum. Það er annars vegar Álfagarðurinn og hins vegar Horft í hamarinn. Fyrirtækin bjóða upp á gönguferðir þar sem farið er á álfaslóðir og m.a. sagt frá álfunum.
salty_krisuv2
Háhitasvæði í nágrenninu
Náttúran er við bæjardyrnar og hefur bærinn séð um að skipuleggja göngu- og hjólreiðastíga á fallegum stöðum. Bærinn gefur árlega út ratleik sem byggist á því að viðkomandi þarf að finna spjöld úti í náttúrunni og stuðlar því að hollri og góðri hreyfingu. Sumir taka þetta í nokkrum hollum – nota kannski nokkra daga til að klára leikinn. Það þarf að ganga töluvert og hafa svolítið fyrir þessu.
Krísuvík er í eigu Hafnarfjarðarbæjar og þangað kemur fjöldi ferðamanna ár hvert. Upplýsingaskilti hafa verið sett upp sem og salernisaðstaða og þar er landvörður á vegum Reykjanesfólksvangs. Breytingar verða reglulega á háhitasvæðinu í Seltúni og því verður að huga vel að göngustígum á hverju ári.
Tvö hótel eru í Hafnarfirði, Fjörukráin og Hótel Hafnarfjörður, auk smærri gististaða og fallegs tjaldstæðis á Víðistaðatúni. Þá laða Íshestar fjöldann allan af gestum til sín enda segja margir að best sé að njóta landsins og náttúrunnar á hestbaki.