Hafnarfjarðarbær stækkar jafnt og þétt með glæsilegum hverfum og þjónustu í takt við nútímann. Þar má meðal annars nefna mikla uppbyggingu á gamla Dvergsreitnum þar sem markmiðið var að tengja með fallegum hætti nýja byggð við eldri og samhliða er að eiga sér stað uppbygging nýrra íbúðahverfa í Hamranesi, Skarðshlíð og Áslandi 4. Lífsgæðasetrið í St. Jó hafa margir nýtt sér en hlutverk þess er að halda utan um hóp fagfólks og samtaka sem vinna að því að auka lífsgæði fólks. Tæplega 30 fyrirtæki og félagasamtök eru í dag með starfsemi í setrinu. Miklar endurbætur hafa einnig átt sér stað í Hellisgerði, skrúðgarði Hafnfirðinga, þar sem hver árstíð hefur sinn sjarma og á aðventunni er Hellisgerði sannkallaður ævintýraheimur.

Dvergsreitur

Þétting byggðar í hjarta Hafnafjarðarbæjar
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Hafnarfirði á undanförnum árum sem nær meðal annars til gamla Dvergsreitsins þar sem risin er ný og blönduð byggð íbúða, verslunar og þjónustu. Við mótun nýju byggðarinnar var áhersla lögð á að fella nýju húsin að byggðinni sem fyrir er við Suðurgötu, Lækjargötu og Brekkugötu. Það er TRÍPÓLÍ og KRADS í samstarfi við Landmótun fyrir GG verk sem eiga heiðurinn að hönnun og uppbyggingu svæðisins en haldin var á sínum tíma samkeppni um deiliskipulag og uppbyggingu. Reiturinn var tilnefndur sem staður ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 og þá sérstaklega tiltekið nútímalegt efnisval, falleg vinna með umfang og form, haganlega sköpuð rými og vel heppnuð þétting byggðar. Íbúar eru þegar fluttir inn í íbúðir á efri hæðum og hafa barnavöruverslun og hárgreiðslustofa meðal annarra opnað á fyrstu hæð.

Lífsgæðasetur í St. Jó

Lífsgæðasetur í St. Jó
St. Jósefsspítala var lokað árið 2011 eftir 85 ára starfsemi og stóð byggingin auð næstu árin. Árið 2017 eignaðist Hafnarfjarðarbær allt húsið með kaupsamningi við ríkissjóð og skuldbatt sig til að reka þar almannaþjónustu að lágmarki í 15 ár frá undirritun samnings. Í dag er rekið lífsgæðasetur í St. Jósefsspítala sem hefur það hlutverk að skapa vettvang og aðstöðu fyrir hóp fagfólks og samtaka sem vinna að því að auka lífsgæði og heilsu fólks á öllum aldri. Um 30 fyrirtæki og félagasamtök eru með starfsemi í setrinu. Þjónustan er fjölbreytt og er meðal annars boðið upp á ráðgjöf og samtalsmeðferðir, ADHD-markþjálfun, tengslamat, heilsunudd, jóga, heilsuvernd, sjúkraþjálfun og námskeið með fræðslu svo fátt eitt sé nefnt. Þá má geta þess að í byggingunni hafa aðsetur Alzheimersamtökin, Parkinsonsamtökin og Sorgarmiðstöð með mikilvæga þjónustu fyrir aðstandendur og syrgjendur.

Hamranes

Ný hverfi í Hafnarfirði
Hamranes er 25 hektara nýbyggingasvæði sem rís hratt og er staðsett í hraunbolla sunnan Skarðshlíðar og Valla í Hafnarfirði. Þar mun rísa um 1900 íbúða hverfi og er áætlaður íbúafjöldi um 4.750. Þar er hafin vinna við hönnun og uppbyggingu á grunnskóla og leikskóla auk þess sem hjúkrunarheimili verður byggt og hefur uppbyggingu og rekstur á samfélagsþjónustu í Hamranesi þegar verið boðin út. Allar lóðir í Skarðshlíðarhverfi og Hamranesi eru seldar. Grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli eru þegar í rekstri í Skarðshlíð.
Í suðurhlíðum Ásfjalls, Áslandi 4, stendur yfir vinna við mótun á nýjasta uppbyggingarsvæðinu með lagnavinnu og gerð gatna. Gert er ráð fyrir að íbúar geti hafist handa við framkvæmdir og uppbyggingu á draumaheimili sínu á þessum fallega stað við uppland Hafnarfjarðar um leið og veður leyfir á nýju ári. Fullbyggt mun hverfið hýsa rúmlega 850 íbúðir með blandaðri byggð einbýlishúsa, rað- og parhúsa og fjölbýlishúsa auk þess sem gert er ráð fyrir þriggja til fjögurra deilda leikskóla. Áætlaður íbúafjöldi nýs hverfis verður um 2.500. Græn svæði og trjábelti munu einkenna svæðið og mynda skjól og náttúrutengsl auk einstaks útsýnis til suðurs í átt að Helgafelli og Lönguhlíðum.

Hellisgerði

Hellisgerði í 100 ár
Hellisgerði er 100 ára gamall skrúðgarður Hafnfirðinga þar sem hver árstíð hefur sinn sjarma og möguleika til skemmtunar og afþreyingar. Miklar og gagngerar endurbætur og viðbætur hafa átt sér stað þar síðustu mánuði og ár og er óhætt að segja að garðurinn sé orðinn hinn glæsilegasti og nú aðgengilegur fyrir alla. Undanfarin ár hefur sérstaklega verið lagt í að skreyta garðinn í takt við árstíðir. Hellisgerði laðar fólk víða að, ekki síst á aðventunni þegar hann umbreytist í ævintýraveröld ljóss og lystisemda. Þau eru mörg ævintýrin í Hellisgerði en þar ku búa álfar og huldufólk. Sagan segir meira að segja að í Hellisgerði sé eitt mesta þéttbýli huldufólks á Íslandi.

Rósa Guðbjartsdóttir, Bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar

Skarðshlíð

Ásland

Hamranes

Hellisgerði

Skarðshlíð