Fimmtudaginn 20. nóvember kl. 20 mun Þorvaldur Jónsson myndlistamaður vera með leiðsögn um verk sín á sýningunni Vara-litir sem nú stendur yfir í Hafnarborg.
Þorvaldur Jónsson stundaði nám í myndlist við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan vorið 2009. Hann vinnur verk sín á viðarplötur og teiknar og málar ótal smáatriði á myndflötinn í björtum litum. Verkin búa yfir ákveðinni æskuþrá og hafa að geyma útópíska ævintýraheima þar sem ægir saman teiknimyndasögulegum persónum, dýrum og hlutum á nosturslegan hátt. Þorvaldur hefur haldið sex einkasýningar auk fjölda samsýninga hér heima og erlendis.
Sýningin Vara-litir einkennist af litaflaumi og frásagnargleði. Bjartir og fjörmiklir litir eru áberandi á sýningunni og undirstrika óttaleysi og hispurslausa tjáningu listamannanna. Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera hlaðin litum og formum sem endurspegla tíðaranda 21. aldarinnar, þar sem ofgnótt upplýsinga hleður hvert augnablik. Í verkunum kallast á margslungnir heimar ólíkra listamanna þar sem hlutir og verur leika lausum hala. Á sýningunni eru ný verk eftir Gabríelu Friðriksdóttur, Guðmund Thoroddsen, Helga Þórsson, Huldu Vilhjálmsdóttur, Ragnar Þórisson, Þorvald Jónsson og Þórdísi Aðalsteinsdóttur. Sýningarstjóri er Birta Fróðadóttir. Nánar um sýninguna: Frá sýningarstjóra:
Vara-litir, farði sem skreytir, fegrar eða felur, dulbýr, skrumskælir, ýkir og skáldar. Fléttar raunveruleika saman við uppspuna í óteljandi litum, tónum og áferðum.
Sýningin Vara-litir einkennist af litaflaumi og frásagnargleði. Í verkunum kallast á margslungnir heimar sprottnir úr hugum ólíkra einstaklinga þar sem hlutir og verur leika lausum hala. Sköpunargleðin á sér engin takmörk og við kynnumst ólíkum myndheimum þar sem hver listamaður býður okkur hlutdeild í eigin raunveruleika. Sum verkanna einkennast af barnslegri gleði í taumlausum ævintýraheimi á meðan önnur draga áhorfandann inn í dulúðuga undraveröld. Í verkunum má greina undirliggjandi kaldhæðni og kímni en einnig einsemd, drunga og óhugnað. Skrumskæling á hversdagsleikanum, slóttugar kynjaverur, sálarfjötrar, nýaldarspeki og bernska eru á meðal þess sem hleður sýninguna ákafa og einlægni.
Á sýningunni flæða málverkin hvert innan um annað og kallast á ýmist í samhljómi eða ögrun. Sýningin flæðir inn í rými safnsins en veggir þess hafa, hver um sig, fengið farða sem tengir verkin saman í gegnum óáþreifanlegar taugar tilfinninga, spuna, leiks og lita og bindur þau hvert um sig við rýmið sjálft. Hugur áhorfandans tekur á sprett og rýkur á vit óbeislandi ímyndunarafls – út í hið óendanlega.
Kveikja sýningarinnar voru verk þessara ólíku listamanna og löngunin til að skoða hvernig lesa megi úr þeim tíðaranda samtímans. Valið á listamönnum byggir á tjáningarformi þeirra og vinnuaðferðum. Hlutbundið myndefnið er túlkað á þann einlæga og frjálsa hátt sem einkennir þessa fyrstu kynslóð 21. aldar málara. Allir listamennirnir á þessari sýningu notast við fremur hefðbundna útfærslu málverks – málningu á ferhyrndan flöt og litanotkun er ýmist úthugsuð eða tilviljanakennd. Bjartir og hreinir litir eru áberandi á sýningunni og undirstrika þeir óttaleysi og hispurslausa tjáningu. Innri barátta, sálarflækjur og æpandi einsemd eru undirliggjandi í verkum Huldu Vilhjálmsdóttur og Ragnars Þórissonar. Dýrslegar kynjaverur úr furðuveröld undirmeðvitundarinnar kallast á í verkum Gabríelu Friðriksdóttur og Þórdísar Aðalsteinsdóttur og minna á ofsafengnar draumfarir. Í verkum Helga Þórssonar, Þorvaldar Jónssonar og Guðmundar Thoroddsen má glögglega finna skírskotun í ævintýralega kímnigáfu, leik og gáska bernskunnar.
Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera hlaðin litum og formum sem endurspegla tíðaranda 21. aldarinnar, þar sem ofgnótt upplýsinga hleður hvert augnablik. Sýningin streymir um rýmið og verk ólíkra listamanna standa saman þannig að einstaklingur og hópur verða eitt. Persónuleg sköpun rennur saman við heildarflæði sýningarinnar og undirstrikar tjáningarfrelsi og stjórnlaust upplýsingaflæði samtímans. Áhorfandanum er jafnframt gefið algert frelsi, hann sér með eigin augum og túlkar með sínu hjarta. Taumlaus tjáning og litagleði Vara-lita er kærkomin hressing í rökkvuðu skammdeginu – og aðdráttarafl verkanna í heild óhjákvæmilegt.
SÝNINGARSTJÓRI
Birta Fróðadóttir er arkitekt að mennt en hefur komið víða við í starfi. Hún hlaut meistaragráðu í arkitektúr við listakademíuna í Kaupmannahöfn og starfaði þar við byggingar- og landslagsarkitektúr í 4 ár. Þaðan hélt hún til Berlínar þar sem hún starfaði sjálfstætt fyrir myndlistarmenn auk þess að vera sýningarstjóri heimagallerísins 13m á Turmstrasse í Moabit. Hún hefur auk þess fengist við uppsetningar og hönnun sýninga, heimildamyndagerð og leikmyndagerð. Vara-litir er fyrsta sýningarstjóraverkefni hennar á Íslandi.
LISTAMENN
Gabríela Friðriksdóttir (f. 1971) útskrifaðist af skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1997. Hún hóf feril sinn af krafti rétt fyrir þúsaldamótin og má segja að hún hafi verið stór áhrifavaldur á þá einlægu kynslóð myndlistarmanna sem þá var að stíga sín fyrstu skref hér á landi. Gabríela vinnur á mörgum sviðum listarinnar í einu og flakkar óhindrað á milli miðla þar sem málverkin eru oft hluti af stærra verki/innsetningu. Verkin sem hér koma við sögu eru þó sjálfstæð verk ein og sér. Þetta frelsi í sköpuninni er einmitt eitt af einkennum þessarar kynslóðar listamanna sem taka þátt í sýningunni. Verk Gabríelu eru frumleg og ögrandi og búa yfir leyndardómum og afar forvitnilegum myndheimi. Hún er þekkt fyrir flókin og fjölþætt verk og hefur haldið fjölda sýninga um allan heim, bæði ein og með öðrum.
Guðmundur Thoroddsen (f. 1980) nam myndlist við Listaháskóla Íslands og School of Visual Arts þar sem hann útskrifaðist árið 2011. Hann vinnur málverk sín ýmist á striga eða pappír og blandar saman klippimyndum, vatnslitum, teikningum og málningu. Í verkunum fléttast leikur og íþróttir saman við frummennsk athæfi og fornar fígúrur á sérstæðan og húmorískan hátt. Hann hefur einnig unnið með innsetningar þar sem fígúratífir skúlptúrar kallast á við málverkin. Á síðustu árum hefur Guðmundur haldið fjölda einkasýninga hér heima og erlendis auk þess að taka þátt í samsýningum.
Helgi Þórsson (f. 1975) lauk námi í myndlist og hljóðlist í Hollandi árið 2004. Hann vinnur með fundið efni og tilfallandi málningu í verkum sínum sem hafa vakið athygli fyrir litagleði og barnslegt yfirbragð. Í verkunum ríkir óheft sköpunargleði og léttur andi og vottar fyrir áhrifum frá alþýðulist. Fjölþjóðlegir munir, mynstur, dýr og dulspekileg tákn rata gjarnan á myndflötinn í sterkum litum og einföldum teikningum. Glys og glaumur eru allsráðandi í innsetningum Helga, en þá blandar hann gjarnan saman málverkum, skúlptúrum og tónlist. Helgi er einn af aðstandendum sýningarýmisins Kunstschlager í Reykjavík og hefur haldið þar fjölda sýninga sem og annars staðar auk þess að hafa tekið þátt í sýningum víða erlendis.
Hulda Vilhjálmsdóttir (f. 1971) útskrifaðist af málaradeild Listaháskóla Íslands árið 2000 og hefur sinnt málverkinu af dyggð síðan. Manneskjan, hvatir hennar og kenndir eru meginviðfangsefni í verkum Huldu sem hún málar á tilfinninga- og tjáningarríkan hátt. Verkin eru áköf, hröð og einlæg og eru sprottin af brennandi tjáningarþörf. Hulda notast við mismunandi aðferðir í málaralist sinni og fæst einnig við skrif og gjörninga. Hún hefur tekið þátt í fjölda einka- og samsýninga á Íslandi og í Danmörku.
Ragnar Þórisson (f. 1977) hefur helgað sig málverkinu alfarið í listsköpun sinni. Hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 hefur þróað aðferðir og myndefni sitt jafnt og þétt síðan. Nálgun Ragnars við málaralistina er nokkuð hefðbundin en hann málar með olíumálningu á stóra fleti. Verkin sýna skrumskældar mannverur í dulúðlegu umhverfi, máluð í dempuðum og þokukenndum litum. Hann hefur haldið þrjár einkasýningar í Reykjavík á liðnum árum sem og verið þátttakandi í samsýningum. Á síðastliðnu ári hlaut Ragnar styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur.
Þorvaldur Jónsson (f. 1984) nam myndlist í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist vorið 2009. Hann vinnur verk sín á viðarplötur og teiknar og málar ótal smáatriði á myndflötinn í björtum litum. Verkin búa yfir ákveðinni æskuþrá og hafa að geyma útópíska ævintýraheima þar sem ægir saman teiknimyndasögulegum persónum, dýrum og hlutum á nosturslegan hátt. Þorvaldur hefur haldið sex einkasýningar auk fjölda samsýninga hér heima og erlendis.
Þórdís Aðalsteinsdóttir (f. 1975) býr og starfar í New York þar sem hún lauk myndlistarnámi við School of Visual Arts árið 2003. Þórdís hefur mest einbeitt sér að málaralist og haldið fjölda sýninga erlendis sem og hér heima m.a. var einkasýning á verkum hennar á Kjarvalssöðum árið 2006. Verk Þórdísar einkennast af tvívíðri teikningu af hlutum og verum á einlitum eða mynstruðum bakgrunni. Manneskjur og persónugerð dýr í einkennilegum hlutföllum koma við sögu og búa verkin yfir undirliggjandi dulúð og kaldhæðni.