Finnur Jónsson

Sýningin Halló, geimur opnar í Listasafni Íslands á Safnanótt 5. febrúar 2021.

Halló, geimur
Fjarlægar víðáttur í óendanlegum alheiminum hafa frá upphafi verið manninum hugleiknar og í aldanna rás hafa listamenn túlkað og tekist á við hugmyndir sínar um geiminn og miðlað þeim með fjölbreyttum hætti.
Á sýningunni Halló, geimur er skyggnst inn í undraveröld himingeimsins með hjálp listaverka í safneign Listasafns Íslands.

Framúrstefnuleg verk Finns Jónssonar, sem fyrstur Íslendinga tókst á við geiminn í verkum sínum á fyrri hluta 20. aldar, miðla óheftri tjáningu listamannsins á töfrum himintunglanna sem eru leiðarstef sýningarinnar. Leyndardómar Vetrarbrautarinnar sem aldnir spámenn afhjúpa með forsögnum sínum um veðurfar og forlög manna eru Hildigunni Birgisdóttur og Svavari Guðnasyni innblástur. Norðurljósabar Halldórs Ásgeirssonar leiftrar með litadýrð og innsetning Steinu Vasulka, Of the North, hrífur áhorfandann með sér í áhrifamikilli upplifun.
Í verkum Ásgríms Jónssonar og Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) frá fyrri hluta 20. aldar sjáum við hvernig himintunglin tengjast þjóðtrú og ævintýrum þar sem vættir birtast mannfólki í tunglsljósi og blessuð sólin breytir tröllum í stein þegar dagur rís. Á sýningunni eru einnig mörg verk frá 7. og 8. áratug 20. aldar þegar framfarir í geimvísindum voru stórstígar og maðurinn fór í fyrsta sinn út fyrir gufuhvolf jarðar.

Geimurinn og listin eiga það sameiginlegt að vera forvitnileg og kvik, þar er stöðug hreyfing og alltaf er maður að uppgötva eitthvað nýtt þegar maður skoðar listaverk. Með hjálp Tuma, aðalpersónu bókarinnar Rauði hatturinn og krummi eftir Ásgerði Búadóttur myndlistarmann, geta yngstu gestir safnsins skoðað sýninguna á aðgengilegan hátt, sett upp gleraugu vísindamannsins og numið nýjan fróðleik!

Sýningarstjórar: Guðrún Jóna Halldórsdóttir og Ragnheiður Vignisdóttir

Vísindalegar staðreyndir: Sævar Helgi Bragason

Finnur Jónsson (1892-1993)
Halló geimur, 1962

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0