22. ágúst 1933, flugvél, flugbátur Lindbergh hjónanna siglir út úr mynni Reykjavíkurhafnar. Innsiglingarvitinn við hafnarmynnið sést vel. Ef grant er skoðað sést að þau veifa bæði höndunum í kveðjuskyni. (Ljósmyndari: Karl Christian Nielsen)

Flugkappinn Lindbergh heimsækir Ísland

Þann 15. ágúst 1933 lenti flugkappinn Charles Lindbergh ásamt konu sinni Ann Morrow, sjóflugvél sinni á Viðeyjarsundi. Árið áður höfðu þau hjónin lent í miklum harmleik þegar syni þeirra var rænt og fannst hann síðar látinn. Mikill mannfjöldi hafði safnast saman við Reykjavíkurhöfn því fólk hélt að hann myndi lenda þar. Lindbergh hjónin stigu reyndar á land í Vatnagörðum og færði mannfjöldinn sig þangað. Þau gistu tvær fyrstu næturnar í Viðey. Þau hjónin komu hingað til lands frá Grænlandi þar sem Lindbergh var að kanna flugleiðir fyrir bandaríska flugfélagið Pan American Airways með ferðir milli Bandaríkjanna og Norður- Evrópu í huga. Ein leiðin sem var rannsökuð, var hin svokallaða Norðurleið um Grænland, Ísland og Færeyjar, þannig að þessi rannsókn gat því skipt ísland miklu máli. Í framhaldinu gistu þau fimm nætur á Hótel Borg. Þann 22. ágúst héldu þau svo á brott í flugvél sinni eftir að hafa skoðað sig um í Reykjavík. Heimsókn Lindbergh var því örlagavaldur í auknum áhuga á flugi á Íslandi.

16.-22. ágúst 1933, þrír menn á gangi á Tryggvagötu í Reykjavík. Maðurinn í miðjunni er flugkappinn Charles Lindbergh frá Bandaríkjunum. (Ljósmyndari: Karl Christian Nielsen)

Heimildir: Faxaflóahafnir SF og Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0