Nú stendur yfir í Listasafni ASÍ sýningin Frenjur og fórnarlömb þar sem konur fjalla um konur, draga fram ýmsar birtingarmyndir kveneðlisins og fjalla um stöðu kvenna í fortíð og samtíma. Sýningin er haldin í tilefni af að árið 2015 verða hundrað ár liðin frá því að konur fengu kosningarétt og hér leiða saman hesta sína ellefu fulltrúar íslenskra listakvenna sem hver um sig hefur skapað sér sérstöðu og í listsköpun sinni tekist á við erfiðar spurningar sem varða konur og kyn. Þessar konur tilheyra þremur kynslóðum listakvenna og tjá sig með ólíkum miðlum og aðferðum, en auk þess skrifa þær Anna Hallin, Eirún Jónsdóttir, Eva Ísleifsdóttir, Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá, Lóa Hjálmtýs, Magdalena Margrét Kjartansdóttir, Rakel MacMahon og Valgerður Guðlaugsdóttir stutta texta í sýningarskrá þar sem þær velta fyrir sér þema sýningarinnar. Leitað er í eldri viðtöl við Elínu Pjet. Bjarnason, Rósku og Sigrid Valtingojer sem eru látnar en þar má finna má ummæli sem tengjast sýningarefninu.
Viðfangsefnin geta stundum verið dapurleg en húmorinn er aldrei langt undan og þó reynsla, efnistök og efniviður listamannanna sé mismunandi er umfjöllunarefnið það sama; frenjan og fórnarlambið sem iðulega búa báðar í sömu konunni. Svalar konur, konur í uppreisn, yfirgefnar konur, brjálaðar konur, heilagar konur og mæður hafa yfirtekið safnið.
Það er stutt síðan konur urðu áberandi gerendur í vestrænni í myndlist þó þær hafi alltaf verið þarna, ónafngreindar á hliðarlínunni. Lengst af var konan var fyrst og fremst módel, efniviður í aðra konu eða hugmynd um konu, sköpunarverk karlmanns og það er ekki laust við að enn glytti í þessa slagsíðu þegar flett er upp í öftustu síðum listasögunnar þrátt fyrir þá staðreynd að í gegn um tíðina hafa konur hafa ekki lagt minna til myndlistarinnar en karlar.
Um svipað leiti og konur fengu kosningarrétt hér á landi var það helst í vefnaði og textíl sem kona gat látið ljós sitt skína á þessum vettvangi og verk hennar þá gjarnan afgreidd sem handverk fremur en myndlist af þeim sem til þóttust þekkja. Konurnar á þessari sýningu, höfundar jafnt sem höfundarverk, beina athyglinni að tómarúminu sem blasir við í karllægri listasögu um leið og þær senda henni langt nef.
Þó færri orðum hafi verið eytt í konur en karla þegar fjallað er um myndlist er enginn hörgull á nöfnum og lýsingarorðum yfir þennan helming Íslendinga. Tungumálið er spegill þjóðarsálarinnar og orð íslenskrar tungu sem lýsa konum eru mýmörg. Sum hafa gleymst og ný orðið til í tímans rás og ef til vill er það einmitt þegar þessi þróun er skoðuð sem staða íslenskra kvenna verður sýnilegust.
Í Gryfju safnsins hefur hluta þessara orða verið safnað saman, orðum sem spegla fordóma og kvenfyrirlitningu en einnig ást, upphafningu og mikilleika íslenskra kvenna.
Kristín G. Guðnadóttir og Steinunn G. Helgadóttir eru sýningarstjórar.
Sýningin stendur til 28. júní og er hluti af dagskrá 29. Listahátíðar í Reykjavík 2015.
Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17. Aðgangur er ókeypis.
Listasafn ASÍ Freyjugötu 41, 101 Reykjavík, s. 511 5353, www.listasafnasi.is, [email protected]