Breiðin er vestasti hluti Akraness og þar er að finna einn elsta steinsteypta vita landsins sem var reistur 1918. Á fjöru er hægt að ganga út í og upp í minni vitann og njóta fagurs útsýnis. Í sumar verður stærri vitinn einnigopin almenningi.
Á Breiðinni er fagurt útsýni yfir allan Faxaflóann, fuglalíf mikið og brimbarðar klapparfjörur. Nokkuð sem lætur engan ósnortin hvort sem er í blíðviðri eða sjórinn ýfir sig. Útsýni úr vitanum er einstakt og hafa ljósmyndarar nýtt sér aðstöðuna útí æsar.
Fuglalífið við Breiðina er fjölbreytt árið um kring. Æðurin er langmest áberandi fuglinn. Stærstu hóparnir sjást á útmánuðum þegar loðnan gengur á svæðið og geta fuglarnir þá skipt þúsundum. Venjulega eru einn eða fleiri æðarkóngar í hópnum og sjást þeir jafnvel inní Akraneshöfn. Þessi skrautlegi ættingi æðarfuglsins kemur hingað frá Grænlandi þar sem hann verpur og eiga blikarnir til að krækja sér í íslenska kollu og setjast að í æðarvörpum.
En fleiri endur eru á sveimi kringum Breiðina og Akranes. Litlir hópar hinnar skrautlegu straumandar sjást þar allan veturinn. Hinn háværa og fjöruga hávella er líka sjófugl á veturna og oft að þvælast kringum æðarhópana. Toppendur sjást árið um kring, en stokkendur mest á veturna.
Sendlingur er algengasti vaðfuglinn á klöppunum kringum Breiðina og er þar oft í hópum. Nokkrir tjaldar sjást allan veturinn, en honum fjölgar á vorin og hann verpur jafnvel ofarlega í fjörunni og það gerir sandlóa einnig. Nokkrar tildrur eru oft í slagtogi með sendlingunum.
Fýlar eru algengir sjófuglar kringum Akranes, þeir sækja í ýmislegt æti eins og loðnu, fiskúrgang og fleira. Þeir sjást stundum í stórum hópum við ræsi og í höfninni. Máfar sækja í svipaða fæðu, helstu máfategundir sem sjá má við Breiðina eru silfurmáfur, svartbakur, hvítmáfur, bjartmáfur, hettumáfur og rita. Bjartmáfurinn er vetrargestur frá Grænlandi, hinir eru íslenskri varpfuglar. Stundum sjást músarrindlar í grjótinu og starar og hrafnar leita í fjöruna eftir æti. Ýmsa fleiri fugla má reikna með að sjá, en of langt mál er að telja þá alla upp hér. Þegar fiskitorfur eru nærri landi eða jafnvel á öðrum tímum er ekki óalgengt að sjá hvali velta sér í sjávarborðinu. Helst eru það hnýðingar og háhyrningar sem sjást frá landi, en hrefnum bregður einnig fyrir. Landselir liggja stundum á skerjunum útaf Breiðinni.
Ef við færum okkur aðeins útfyrir Breiðina og sérstaklega norður og austur með ströndinni er fjöldi víkna og voga með fjölbreyttu fuglalífi. Nefna má Kalmansvík, Höfðavík og Mjóavog. Blautós er löng og mjó vík sem er afmarkast af tanga, Innstavogsnesi. Ósinn og nesið eru friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum. Á fjöru þornar ósinn og þar myndast miklar leirur sem laða að fugla í þúsundatali eins og rauðbrysting og margæs. Það eru fuglar sem koma hér við á leið sinni milli vetrarstöðva í Evrópu og varpstöðva á Íshafseyjum Kanada. Margæsin stoppar hér í tvo mánuði á hverju vori til að safna fituforða fyrir langt og erfitt farflug yfir Grænlandsjökul og síðan til að geta hafið varp meðan gróður er enn skammt á veg kominn á varpstöðvunum.
Enn innar tekur síðan Grunnafjörðurinn við. Hann er stór og grunnur og þar eru gríðarmiklar sandmaðksleirur sem koma í ljós á fjöru. Grunnafjörður er eitt sex svonefndra Ramsar-svæða á Íslandi, sem táknar að það hafi verið viðurkennt af hinum alþjóðlega Ramsar-samningi um vernd votlendis með mikla þýðingu fyrir fuglalíf. Grunnafjörður er mikilvægur fyrir margar tegundir fugla. Svæðið er alþjóðlega mikilvægt fyrir margæs, rauðbrysting og sanderlu.Um 25% margæsarstofnsins hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna bæði vor og haust og um 1% rauðbrystingsstofnsins. Þar er stærsti vetradvalarstaður tjalda á Íslandi og mikið kemur þar við af sandlóu, lóuþræl sendlingi og fjölda annarra fugla. Meðal sjaldgæfra varpfugla er brandönd og stundum sjást hafernir á sveimi. Fjölda annarra fugla má vænta í Grunnafirði, en aðgengi er þar fremur erfitt.
Akranes er aðeins steinsnar frá Reykjavík. Ef ekið er um hin 5 km löngu og 165 m djúpu Hvalfjarðargöng er þetta aðeins rúmlega hálftíma akstur.
Fyrir frekari upplýsingar sjá: www.visitakranes.com (fyrir erlend tungumál en www.visitakranes.is fyrir íslenska útgáfu)