Fuglarnir í Hrísey

hrisey

Fuglarnir í Hrísey
Hrísey er þekkt fyrir mikið og fjölbreytt fuglalíf. Þar er stórt kríuvarp, æðarvarp og auk þess verpa þar margar endur og mófuglar. Um 40 tegundir fugla verpa í einni. Hrísey er þó kunnust fyrir rjúpuna.
Hrisey 2012 118

BogArt-4214
Rjúpan í Hrísey
Rjúpan er sannkallaður einkennisfugl Hríseyjar og prýðir hún skjaldarmerki eyjarinnar. Rjúpan er spök, einkum á haustin er hún vappar í flokkum um götur og garða í eynni. Rannsóknir á rjúpum hafa verið stundaðar í Hrísey í 50 ár. Rjúpustofninn sveiflast og er hámark og lámark um það bil á 10 ára fresti. Stærð varpstofnsins er metin snemma á vorin, þá eru karlfuglarnir (karrarnir) taldir þar sem þeir hreykja sér á mishæðir í óðali sínu og verja gegn öðrum körrum. Slær þá oft í brýnu milli karranna með tilheyrandi fjaðrafoki og rophljóðum. Karrarnir eru hvítir mun lengur en kerlurnar, skipta yfir í felubúning sumarsins allt að mánuði seinna en þær.
Munurinn getur verið allt að tífaldur milli hámarks og lágmarksára rjúpunnar, karrarnir hafa fæstir verið 30 en flestir 270. Hríseyingurinn Þorsteinn Þorsteinsson (Steini rjúpa) hefur tekið þátt í rannsóknunum frá upphafi.
BogArt-rjupaRjúpurnar verpa um alla ey, meira að segja í húsagörðum Hríseyinga. Þær halda til allt árið í eynni og er stofninn stærstur síðsumars og á haustin, þegar ungarnir eru orðnir fleygir. Þá heldur rjúpan sig í hópum. Eini náttúrulegi óvinur rjúpunnar í Hrísey er fálkinn, enda nægtaborð fyrir hann í eynni. Á varptíma sækja nálægir varpfuglar frá meginlandinu í eyna eftir rjúpum, en á veturna halda oft fáeinir fálkar til í Hrísey.

Fjölbreytt fuglalíf
Fánan í Hrísey er fjölbreytt og þar verpa nærri 40 fuglategundir. Kríuvarpið í Hrísey er talið eitt hið stærsta á landinu og telur það þúsundir fugla. Stórt æðarvarp er í Ystabæjarlandi, norðan til í Hrísey. Landið er í einkaeign. Jaðrakan og stormmáfur eru meðal athyglisverðra varpfugla í eynni.
Helstu ástæður fyrir þessu óvenjulega mikla fuglalífi eru að allt fugladráp og eggjataka er bönnuð í eynni og þar finnast ekki refir, minkar, mýs eða rottur. Kjöraðstæður eru fyrir fjölmargar fuglategundir vegna lágvaxinna lyngmóa sem klæða eyna og mikils ætis fyrir sjófugla eins og kríu, fýl, hettumáf, stormmáf og fleiri máfategundir, svo og teistu, allt varpfugla í Hrísey.
Votlendi er aðeins um 4% af Hrísey en er engu að síður fjölskrúðugt og er mikilvægt fyrir fugla í einni eins og buslendur, stokkönd, urtönd og rauðhöfða og vaðfugla líkt og jaðrakan, stelk og hrossagauk. Grágæs sækir meira í þurrlendið til beitar. Heiðagæs hefur orpið á norðurhluta eyjarinnar, en óvanalegt er að þessi hálendisfugl verpi svo nærri sjó.