2016-05-30 15.59.42

„Metnaður þessara stráka er rosalegur. Það er engin hindrun það há að þeir vilji ekki stíga yfir hana.“

 Formaður KSÍ hefur helgað líf sitt fótbolta. Geir Þorsteinsson er Vesturbæingur, fæddur 9. september 1964, og segja má að með fyrstu skrefum sínum á KR-vellinum hafi starfsvettvangurinn verið valinn. Um þessar mundir tekst  Geir á við stærsta verkefni sem nokkur forystumaður í íslenskri knattspyrnuhreyfingu hefur tekist á hendur, þ.e. að fylgja íslenska A-landsliði karla eftir í úrslitakeppni Evrópumótsins í Frakklandi.

 

  

Geir er áttundi formaður KSÍ og var endurkjörinn í fjórða sinn á 70. þingi sambandsins snemma á árinu. Hann var fyrst kjörinn 2007 eftir að hafa verið framkvæmdastjóri í 10 ár. Aðkoma hans að KSÍ og félagsstörfum fyrir hreyfinguna nær mun lengra aftur í tímann.

 

Um skeið var Geir framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KR og í stjórn félagsins og þá byrjaði einnig aðkoma hans að KSÍ, í formannstíð Ellerts B. Schram. Þar hóf hann síðan fyrst störf samfleytt sem skrifstofustjóri 1992/´93, auk þess að sinna mótamálum, uns hann tók við starfi framkvæmdastjóra. Geir hafði verið kominn áleiðis í námi í stærðfræði við Háskólann og hafði sinnt kennslu í framhaldsskólum í tvo vetur. En fótboltinn togaði hann að endingu fullkomlega til sín.

 

„Mótamálin voru fyrst á mínum snærum upp úr 1980 fyrir Knattspyrnuráð Reykjavíkur. Þá var ég að annast skipulag og niðurröðun móta fyrir KRR. Þannig komst ég inn í mótamálin og hef eiginlega verið tengdur þeim síðan. Formlega var ég að störfum fyrir KSÍ í eitt ár 1987 og síðan sem starfsmaður allar götur frá því byrjaði sem skrifstofustjóri.“

 

Gífurleg áskorun

 

Þátttaka landsliðsins í úrslitum EM er verkefni sem margir í forystunni hafa látið sig dreyma um en fáum hefur dottið í huga að yrði að veruleika. „Við getum sagt að þetta sé allt annar stærðarflokkur en við höfum glímt við hingað til. Áskorunin er gífurleg fyrir lítið knattspyrnusamband. Kröfurnar frá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) eru mjög miklar á öllum sviðum. Við þurfum að annast svo margt í kringum þátttökuna, m.a. vegna fjölda áhorfenda héðan frá Íslandi. Þátttaka kvennalandsliðsins tvisvar sinnum og U-21 árs liðsins einu sinni í lokakeppni hjálpar að sumu leyti. Þá kemur sér einnig vel að ég hef starfað sem eftirlitsmaður. Í síðustu lokakeppni EM sá ég sem eftirlitsmaður um alla leikina í Varsjá fyrir UEFA.“

 

Hvað liðið sjálft varðar er Geir ekki í nokkrum vafa um að þar komi gríðarleg reynsla að gagni. „Hvað tæknilegan undirbúning liðsins varðar er okkur mjög dýrmætt að Lars landsliðsþjálfari hefur gert þetta oft áður. Við erum því ekki algjörir nýgræðingar.“

 

Ertu í bland kvíðinn?

 

„Nei, ég get ekki sagt það. Þetta er mikill áfangi en þetta eru auðvitað bara knattspyrnuleikir. Ég geri mér samt grein fyrir að lið sem er að taka þátt í fyrsta sinn þarf að glíma við ýmislegt fleira en það sem gerist beinlínis inni á vellinum. Sálfræðiþátturinn getur vegið þungt og við verðum að höndla pressuna. Það hjálpar okkur að strákarnir eru alvanir að spila á stórum leikvöngum, á stóra sviðinu fyrir framan mikinn fjölda áhorfenda.“

 

 

Alheimsvæðing fótboltans

 

 

KSÍ er í raun stórt fyrirtæki. Heildartekjur á síðasta ári námu tæpum einum og hálfum milljarði. „Þegar ég sat í varastjórn sambandsins 1987, þá var sambandið illa statt og það voru t.d. þung skref fyrir Ellert formann að þurfa að bera það upp við stjórn að draga kvennalið og 21 árs lið úr keppni í Evrópu. En það var óhjákvæmilegt.“

 

Hvað hefur breyst?

 

„Við höfum notið góðs af alheimsvæðingu knattspyrnunnar. Stórauknar vinsældir og maður veltir því fyrir sér hvenær hápunktinum verður náð. Þetta virðist vera sagan endalausa. Við sjáum gríðarlega vaxandi áhuga í Bandaríkjunum, Kína, Indlandi og víðar. Um 1990 gátum við farið að selja sjónvarpsréttinn á okkar eigin landsleikjum. Það var heilmikil breyting sem hefur tryggt okkur miklar tekjur, svo og styrkirnir frá UEFA og líka Alþjóða-knattspyrnusambandinu (FIFA). Styrkir og stuðningur í fræðslustarfi og fleiru hafa hjálpað okkur í litlu samböndunum að ná framförum á ýmsum sviðum.

 

Sumir sjá bara spillingu þegar kemur að þessum stóru samtökum en það verður að viðurkennast að þau hafa skilað miklu til knattspyrnusambandanna víðsvegar í heiminum. Auðvitað viljum við losna við þrjóta út, sem koma óorði á hreyfinguna, en þrátt fyrir allt hefur verið unnið gott starf.“

 

Íslendingar eru um 330 þúsund og markaðurinn endurspeglar það gagnvart KSÍ. Því fær ekkert breytt, bendir Geir á. „Það eru takmörk fyrir því hvað við getum fengið miklar tekjur á heimamarkaði og það er líklega hvað viðkvæmast í okkar rekstri.“

 

Einmitt, þú tókst við formennsku í góðærinu 2007. Árið eftir varð hrunið. Hvernig snerti það starfsemi KSÍ?

 

„Þetta var mjög krefjandi ár og við þurftum að taka nokkrar erfiðar ákvarðanir sem hjálpuðu okkur að vinna okkur út úr vandanum. Við fengum m .a. fyrirframgreiðslur erlendis frá til þess að geta staðið í skilum vegna byggingaframkvæmda. Erlend lán höfðu tvöfaldast. Eins og hjá þjóðinni allri voru þetta erfiðir tímar.“

 

Þið eigið í málaferlum við Landsbankann út af gengislánunum. Sér fyrir endann á þeim?

 

„Við unnum í héraði en var vísað út í Hæstarétti. Núna munum við gera beina fjárhagskröfu. Þetta mál snýst um háar fjárhæðir vegna framkvæmdalánsins. Við borguðum upp lánið – en allt of mikið.“

 

Gullkynslóð og traustur grunnur

 

2016-05-30 15.58.57Fulltrúar erlendra fjölmiðla hafa streymt til landsins í aðdraganda EM til þess að fá svar við spurningunni: Hvernig fór þessi fámenna þjóð að því að eignast landslið meðal þeirra bestu í Evrópu? Hvert er hið klassíska svar formanns KSÍ?

 

„ Við eigum ákveðna gullkynslóð leikmanna. Þarna kemur saman hópur mjög góðra leikmanna á sama aldursbili, kjarninn í liðinu. Mikil efni sem fóru ung frá Íslandi. Strákar sem fengu snemma góða þjálfun. Þeir léku saman í okkar yngri landsliðum. Það var mikilvægt skref, svo og að þeir tóku mjög ungir við A-landsliðinu. Okkur hefur síðan tekist að mynda nýtt lið um þennan kjarna. Jafnvel þótt við hefðum átt okkar besta leikmann, nokkru sinni, um talsvert skeið, Eið Smári, vantaði meiri gæði í kringum hann. Það hefur breyst,“ segir formaðurinn bjartsýni og heldur áfram að tíunda ástæður breyttra tíma í íslenskri knattspyrnu.

 

„Fyrst og fremst byggjum við á góðum hópi leikmanna. En fleira kemur til. Þeir spretta úr betra umhverfi sem kemur m.a. til út af stefnumótun. Upp úr 1990 fór sendisveit frá mannvirkjanefnd til Noregs að kynna sér uppbyggingu fótboltahúsa þar. Í framhaldinu héldum við ráðstefnu og settum okkur það mark að byggð yrðu knattspyrnuhús í hverjum landsfjórðungi. Starfsemi hófst í fyrsta húsinu í Reykjanesbæ árið 2000.  Þróunin varð síðan mun hraðari en við þorðum að vona. Kom þar auðvitað til mikill áhugi sveitarfélaganna og efnhagsástandið.“

 

Geir undirstrikar að allt hafi þetta hjálpast að, svo sem bygging knattspyrnuhúsa, gervigrasvellir og sparkvellir. Þá hafi verið tekin stór stökk varðandi þjálfaramenntun, m.a. í gegnum UEFA, til dæmis varðandi leyfismál þegar kemur að menntun. „Við stöndum þess vegna vel þegar kemur að fyrstu árum iðkenda knattspyrnu. Erlendar akademíur sem taka síðan við ungum knattspyrnumönnum héðan eru þess vegna að fá efnilega leikmenn með góðan grunn.“

 

 

16 liða úrslit væri frábært

 

 

Hverjar eru væntingar formannsins í úrslitakeppninni?

 

„Við eigum Portúgal í fyrsta leik. Frábær fótboltaþjóð sem á einn besta leikmann í heimi, sem getur hreinlega unnið leiki upp á sínar eigin spýtur. Síðan er það Austurríki sem spilaði afar góðan fótbolta í undankeppninni og loks Ungverjar, sem eru vissulega góðir en standa að mínu mati okkur ekki framar í dag. Einn sigur gæti fleytt okkur í sextán liða úrslit. Það er minn draumur og væri frábær árangur.“

 

Enn og aftur víkur Geir að strákunum sem skipa landsliðið: „Ég vil ekki skapa of miklar væntingar. Metnaður þessara stráka er rosalegur. Það er engin hindrun það há að þeir vilji ekki stíga yfir hana. Þeir gefast aldrei upp.“

 

Lars Lagerbäck hættir að lokinni keppni og Heimir heldur einn áfram. Er hægt að fylla skarð Lars?

 

„Í einlægni sagt, nei, hans skarð verður ekki fyllt en hann skilur sannarlega mikið eftir sig. Ég hreifst af Lars með sænska landsliðið. Aftur og aftur kom hann því í lokakeppni. Hvernig hann hélt skipulagi og aga og náði frábærum árangri var aðdáunarvert. Hann er ákveðinn snillingur þegar kemur að taktík. Það eru ekki margir með jafn mikla hæfileika í heimsfótboltanum og koma hugmyndum sínum jafn vel til skila til liðsins. Lars hefur kennt okkar hóp mikið. Leikmennirnir búa að þeirri þekkingu sem hann hefur skilað til þeirra og Heimir situr alskapaður eftir, tilbúinn í slaginn.“


 

Betri leikvangur stórmál

 

2016-05-30 15.59.16

„Lars hefur kennt okkar hóp mikið. Leikmennirnir búa að þeirri þekkingu sem hann hefur skilað til þeirra og Heimir situr alskapaður eftir, tilbúinn í slaginn.“

Þú hefur komið nánast að öllum hliðum knattspyrnunnar hvað félagsstarfseminni líður. Áttu þér frekari persónuleg markmið, t.d. í alþjóðahreyfingunni?

 

„Ég reyndi fyrir mér í Evrópu en það var óeining innan Norðurlandanna, þannig að við fórum tveir fram. Ef bara annar okkar hefði gefið kost á sér, þá hefði hann komist í stjórn UEFA. Nei, ég á mér ekki neina sérstaka drauma í þessum efnum. Þarna var ákveðið tækifæri en þetta gekk ekki upp. Sennilega hef ég lengst átt mér þann draum að við kæmumst með karlaliðið í lokakeppni, þannig að Ísland kæmist fyrir alvöru á kortið. Okkur hefur tekist það. Persónulegur frami erlendis hefur alls ekki verið að trufla mig.“

 

Annað hugðarefni Geirs, sem hann vék m.a. sérstaklega að í ræðu sinni á síðasta þingi KSÍ, er uppbygging þjóðarleikvangs. „Það er stórt mál. Við þurfum betri leikvang. Þannig getum við t.d. litið til Færeyinga sem hafa byggt betri knattspyrnuleikvang en við. Staðsetning í Laugardal er frábær og það þarf nauðsynlega að byggja við enda vallarins til þess að gera hann að góðum knattspyrnuleikvangi. Það er augljóslega hægt að gera það. Þessar framkvæmdir í Laugardal ættu að falla vel að þeim hugmyndum sem menn hafa um þéttingu byggðar og eflingu þjónustu innan svæða. Það er ekki skynsamlegt að einblína bara á það að fjölga sætum um 10 þúsund. Ávinningurinn af byggingunum þarf að vera meiri, og þær gætu skapað aukna þjónustu í dalnum og meira líf.“

 

Fær formaður KSÍ aldrei leiða á fótbolta?

 

„Nei, merkilegt nokk. Ég get horft á fótbolta linnulaust og það hefur fylgt mér lengi. Áhuginn er alltaf til staðar, en auðvitað væri skemmtilegast að vera inni á vellinum. En það eru bara 22 sem fá að vera þar. Þótt það sé draumurinn, þá er hann ekki raunhæfur,“ segir Geir brosandi, sem þrátt fyrir ástríðuna þekkir vel sín takmörk í fótboltanum.