Það er óneitanlega flestra viturra manna skoðun, að dýrlingar þjóðanna séu eins konar messíasar í minni stíl,sem komi fram á vissum tímum eins og eftir æðri fyrirhugun. Svo er og varið framkomu þess dýrlings vorrar þjóðar, sem vér íslendingar eftir ráði biskups þessa lands eigum í dag að minnast, hvar sem guðsþjónusta er flutt á landi voru. Skal ég, sem þetta erindi flyt, geta þess, að það er ekki samið sem stólræða, heldur bjóst eg við að flytja það utan kirkju; fyrir þá sök kann ýmsum að þykja þessi þáttur fremur vera listafræðilegur en uppbyggilegur. En þá menn bið eg að athuga, að allur röklegur fróðleikur, alvarlega framsettur, er í eðli sínu uppbyggilegur eða siðbætandi. Ef vér viljum skilja rétt dýrlinga vora, er tími til kominn, að vér lærum að skilja þá frá fleiri hlið en einni — ekki eingöngu gegnum skuggsjá skáldlegrar ímyndunar, tilbeiðslu og sögusagna, heldur í sambandi við sögu og tíð, svo og líkasta því, sem þeir hafa verið í virkileikanum, menn eins og aðrir og eins og þeir að líkindum hafa skoðað sig sjálfir. Og að Hallgrímur Pétursson hafi ekki ætíð skoðað sig fráskilinn öðrum breyskum mönnum, sýna mörg játningarorð i kvæðum hans, t. d. versið: »Gef mér Jesú að gá að því, glaskeri ber ég minn fésjóð í«, og versið: »Játning mín er sú, Jesús minn, jeg er sem þessi spillvirkinn«, o.s.frv. Með þeirri skoðun minkar ekki dýrð guðs, heldur skilst og skýrist því betur hversu drottinn er í breyskum máttugur.
það er sjálfsagt að viðhafa helgiblæ á orðfæri þegar það á við, en til er of sem van. Á tímum H. P. skyldi hver athöfn, svo sem kaupbréf, sáttafundir og úttektir staða byrja með bæn og ákalli heil. þrenningar, og var fagur siður meðan hugur fylgdi máli, en ísjárverður þegar hann varð vaninn tómur og hugsunarleysi. Nú aftur þykir nægja að halda helgisvipnum í kirkjunni og við kirkjulegar athafnir á heimilum. En skyldi ekki allt  lífið þurfa helgunar við? Skyldi ekki fara vel á því, að kristilegri blær fylgdi sem flestum alvörustörfum í breytni vorri,samlífi, ritum og ræðum? En hins vegar mætti vel hugsa sér, að kenningar í kirkjum fengi meiri virkileikablæ en tíðkast, fengi meiri einurðarblæ, yrðu hispurslausari, hreinskilnari, meira sannfærandi og sannfræðandi? Ef vér viljum
vera vel kristnir menn, á alt vort líferni að stefna og starfa samkvæmt vilja þess æðri anda, er vér hugsum oss sem guð-í-oss, þann Immanúel, sem birtast á eins og neisti guðs og hans ríkis í voru kyni. Það er kjarni kristinnar trúar á vorum dögum. 
Hallgrím Pétursson viljum vér fyrst og fremst skoða sem barn síns tíma, því svo er um öll mikilmenni; það er áreiðanlega rétt, sem hinn franski rithöfundur H. Taine fyrst lagði áherzlu á, að öll mikilmenni fæðist »í fyllingu tímans«, eða verði vöxtur og framleiðsla aldar sinnar og umhverfis.
Svo hygg eg og rétt sé að skoða dýrling vorn H. P.; hann var barn eða sonur síns tíma. En var hann ekki meira,og eru ekki mestu skörungar þjóðanna meira? Eru þeir ekki eða verða lika feður síns tíma jafnframt, eða að m.k. þess tíma, sem fylgir á eftir? Hið sanna er efalaust, að með flestum mönnum, og einkum hinum mestu og gáfuðustu, fæðast sérgáfur, sem bæði benda fram í timann og aftur.Í þeim sérgáfum felst eitthvað nýtt,oft framúrskarandi, einkum þar, sem gáfan nýtur fullrar leiðbeinandi fræðslu. Þennan sannleika tók Cicero merkilega vel fram löngu fyrir Krists daga, í varnarræðu sinni fyrir Archias poeta. Hitt er annað, og sannar einmitt sérgáfuna, að það er oft að mestu og frumlegustu menn eru misskildir eða þekkjast ekki fyr en framliða stundir.
En svo vér komum að aðalefni ræðunnar, vil eg fyrst benda á ástand þjóðar vorrar á 17. öldinni, því næst bera saman H. P. og helztu samtíðarmenn hans, í þriðja lagi skulum vér íhuga skáldskap Hallgríms, einkum hans ódauðlegu piningarsálma.
I.
Á síðustu árum Guðbrandar biskups Þorlákssonar, en á öndverði hinni stórfeldu og mótsetningaríku 17. öld var það að Hallgrímur flutti með föður sínum að Hólum, og var hann þá barn að aldri. Hafði þá hinn merkilegi skörungur biskupinn stýrt Hólastól fulla hálfa öld. Þótt nú hinn ungi piltur frændi hans hafl lítils notið af honum beinlínis, þar sem biskup var örvasa orðinn, og hin gamla stjórnsemi hans væri komin í aðrar hendur, og mörgu hafi farið verið að hnigna á stólnum, mun hin námgjarni
sveinn hafa snemma heyrt og skynjað, hve margar og stórfeldar breytingar höfðu gerst á Hólum ekki síður en á öllu Íslandi þá rúmu hálfu öld, er liðið hafði frá falli Jóns Arasonar fyrir að verja hinn kaþólska sið; hann hefir margt heyrt um siðaskiftin, um hið nýja konungsvald, um »stóra dóminn« og yflrréttinn, um aftöku vopnaburðarins,nýju skólana, prentverkið mikla o. fl. Alt þetta hefur grafið um sig í sál og ímyndun sveinsins, og vakið í honum  ýmist stórhug og þrá, eða óró og ærslur, því það hefir  verið barnsál hans meir en ófæra að melta eða ríma saman svo marga og sundurleita hluti. En hvernig var þá hagur landsmauna yfirleitt? Í mörgu lagi lakari og erfiðari en verið hafði, eða svo er víst að almenningur hugsaði í þá daga. Menning alþýðunnar hafði að vísu ávalt lítil verið, en siðaskiftin höfðu vakið nýja óró og óánægju, enda voru hin hræðilegu aldamótaharðindi þá nýlega yfir staðin. Við siðaskiftin má óhætt álykta, að hjátrú og hleypidómar alþýðu hafi aukist að mun í staðþess að minka; þjóðin var enn í sárum, nýlega hrakin,óvör og með harðri hendi, úr skjóli hins gamla siðar og svift þeirri huggun, sem kirkjan hafði nært hana á frá þvi kristnin kom í landið; fæstir skildu þá enn þau gæði til hlítar eða frelsi, sem kallað var að hin nýja kenning um hreina trú og réttlætingu af henni færði í stað hins gamla; þvert á móti litu margir svo á, að alt hið gamla og góða væri komið í kaldakol með hinu útlenda valdi,að sjálfir biskupsstólarnir væru orðnir svipur hjá sjón og klaustrin svívirt og brotin; tók þó út yfir, að myndir Maríu drotningar og þjóðarinnar eigin dýrlingar — alt var brotið eða brent og þverbannað á að heita. Bera ýmsir raunakviðlingar frá þeim bágu tímum óminn af örvinglan manna, sbr. vísuna:

Frost og kuldi kvelja þjóð,
koma nú sjaldan árin góð;
ekki er nærri öld svo fróð
í guðs orði kláru
sem var hún á villuárum.

Beztu skáld og kennimenn landsins voru margir hvorki kaþólskir né Lútherstrúar til fulls; svo var bezta andlegt skáld á dögum Guðbrandar biskups, síra Einar í Heydölum, sýna það Maríuljóð hans og söngvísan af »Stallinum Jesú Kristi« (með viðlaginu: »viður söng eg vögguna þína hræri«). Sjálfur hinn hálærði Brynjólfur biskup, er dóári síðar en síra H. P., hafði hvorki gleymt guðsmóður dýrkuninni né krossinum helga; má því nærri geta hve siðabótinni hafi gengið fljótt að gagntaka hjörtu alþýðunnar.
Má vera, að margir hafi gert helzti mikið úr volæði þeirrar aldar, en nóg rök má færa fyrir því, að mjög víða stríddi á alþýðu manna hugsýki og sturlun innan frá, undir eins og alls konar andstreymi kom utan frá. Auk harðindanna og alls sem áður er talið, bættist við hin alræmda verzlunareinokun,
er þjáði og fláði þjóð vora nær því í tvær aldir. Og loks bættist við galdrafárið, sem hér eins og í öðrum löndum hins nýja siðar fylgdi eins og forynja allri þeirri öld. Hinn strangi rétttrúnaður aldarinnar var þar öldungis ekki án sakar, hvorki hvað grimdarhörku stóradómsins snertir, né ofsóknir galdramanna,því hvar þvi varð við komið skyldu allir, sem sekir þóttu,einkum í sifjamálum, dæmast eftir lögmáli Mósesar. Kom það af hinni föstu trú, að hvert orð og stafur hinna helgu rita væri innblásinn af guði — kenning, sem flestu illu hefur valdið ,frá dögum miðaldanna, en magnaðist með siðabót Lúthers, og er enn barin inn í fólk af hinum fáfróðari trúarflokkum. Að galdratrúin yrði svo römm, var hins vegar eðlilegt, þar sem óttinn við djöfulinn og hans vélabrögð var innrættur þjóðinni án allrar hjálpar og hlifðar helgra manna, kirkjugriða eða trúar á hinn kaþólska hreinsunareld. Í hinum ægilega strangleika laganna átti stórmennið Guðbrandur biskup helzti mikinn þátt, og líklega jafnan hinu danska valdi; dugðu því hans mörgu rit og bækur miður en skyldi, þótt góðar væri, enda voru flestar þýddar og misjafnlega skildar og keyptar. Vildi biskup um fram alt þóknast stjórninni og embættisbræðrum sínum í Danmörku, og þó einkum í því, að efla hið unga og nýja helgivald biskupa og kirkju hins nýja siðar, svo og »lærdómsins«, sem áður hét clerus eða klerkastétt, en nú studdist við háskólana, og fyrst og síðast við yfirbiskupinn, landsherrann sjálfan. öll þessi maktarvöld mynduðu páfadóm siðbótarinnar. Með rétttrúaninni fylgdi að vísu í orði kveðnu hið svo nefnda »evangeliska« frelsi,sem Lúther hafði prédikað, bygt á sjálfu guðsorði ritningarinnar, og framfylgt var af honum ungum með svo miklum guðmóði og skörungsskap, að það vakti undrun og lifandi vonir meðal allra norðlægari þjóða. En óðara en líða tók á æfi hins mikla reformators, og ný maktarvöld tóku að sér að stýra og stjórna siðabót hans, yfirgaf í langa tíma hinn rétti andi frelsis og friðar hið mikla umbótastarf, og svo fór, að vandi er að segja, hvort, eins og þá stóð á, hin endurbætta trú hrepti meiri gæði en hún slepti. Því meðal þess, sem hún slepti, má, einkum telja hið rökfasta, arfgenga skipulag kristninnar, eða samanhengi sögu hennar, og þar á ofan týndust listir móðurkirkjunnar, líknarstofnanir hennar, svo og helgiáhrif hinna  ótölulegu mikilmenna og dýrlinga. Með öðrum orðum, líf og sál hinnar kaþólsku kirkju var eftir skilið.
En Lúther og hans félagar voru guðsmenn og bygðu betur en þeir vissu fyrir framtíðina. Þrátt fyrir alt rangt og ófullkomið, færði siðabótin þó ljós, mikið nýtt ljós. Hún, þessi stórkostlega andans hreyfing, gaf þjóðunum, bæði lútherskum og kaþólskum, nýtt og rýmra andrúmsloft, kveykti nýjar vonir, nyja trú, nýjan guðmóð; menn vöknuðu sem á vormorgni og sáu nýja sumarsól leiftra yfir fjöll og skóga; andans hetjur og skörungar urðu skyndiiega hrifnir, fundu brennandi köllun til að syngja guði og frelsaranum nýjan söng. Jörðin var orðin dómkirkja.

„Og þá var drottins dagur,
þá dundu kirkjugöng
og himinhringur fagur
af helgum organsöng.
Um tákn ei trúin beiddi
og tákn ei þurfti sjá,
því andinn andann leiddi
i allan skilning þá“.

En þótt margt mætti telja, sem kveykti og olli siðabót Lúthers, verður því hér. að sleppa, enda er oss meiri þörf að sjá galla þá, sem fylgdu hinni marglofuðu siðabót og fylgja enn, heldur en að elta venjuna og lasta hina gömlu kirkju, sem vér ekki framar þekkjum. Hitt er víst, að það sem sterkast vakti hina fyrstu siðabótarskörunga, var hið eilífa fagnaðarerindi Jesú Krists. Hvað annað vakti þá Odd Gottskálksson, sem þýddi Nýja testamentið, Gissur Einarsson, Gísla biskup Jónsson og Guðbrand Þorláksson? Og hvað vakti Hallgrím Pétursson sjálfan? En rétttrúan hans aldar var fremur ranghverfan en rétthverfan Krists sanna fagnaðarerindis — eins og sú trúarfræði kom frá hinum þýzku háskólum.
Og vilji svo nokkur lýsa H. P. verður hann eins að skilja skuggahliðar hans aldar eins og hinar björtu. En til þess að sjá hinar björtu og birta þær þjóð sinní, þurfti mikinn gáfu- og guðsmann. Og þegar vér könnumst við það,skiljum vér fyrst Hallgrím Pétursson rétt.
Öll blindni þeirrar aldar og öll trúarblindni fram á þennan dag kemur af að menn ímynda sér að öll biblían,hversu háleita hluti sem hún annars geymir, sé bókstaflega guðsorð spjaldanna milli, svo allar fjarstæður hennar margvíslegu rita eigi að ráða meiru en vit og reynsla. Hver varð afleiðing háskólaguðfræðinnar? Hún var sú, að rétttrúunarfræðin hnepti þjóðina undir ok þrenns konar ótta: ótta fyrir sjálf um guði, alföðurnum, þvi að hans reiði sögðu menn að brynni til neðsta helvítis.
Svo kvað H. P. sjálfur:

„gegnum hold, æðar, blóð og bein
blossi guðlegrar heiftar skein“.

Annar óttinn var hræðslan fyrir árásum og valdi djöfulsins. Menn hugsuðu sér hann persónu og þó nálega alstaðar nálægan, en við þá trú nærðist aftur og magnaðist hið ógurlega aldarfár, galdratrúin. Og svo leiddi þriðji óttinn af hvortveggja hinum: óttinn fyrir dauðanum, óttinn fyrir útskúfuninni í þann eilífa eld, sem vall í ímyndun manna af biki og brennisteini!
Ef vér ihugum þetta nú, verður oss ósjálfrátt að spyrja: Hvernig gat þjóðin þolað þetta og deyja ekki af örvinglun — þolað þessar ógnir ofan á allar aðrar þjáningar? Mannkynið þolir mikið. En á ógnir og öfgar þessarar grimmu rétttrúunar hefir fátt mint mig betur en andlátssálmur Hallgríms Péturssonar. Meðan hann hafði heilsu og fulla krafta, gat hann hafið anda sinn yfir þessa martröð og haldið jafnvægi sálar sinnar, en í andlátssálmum skáldsins berst von og ótti svo áþreifanlega, að litla sálarfræðislega þekkingu þarf til að skilja, hvernig óttinn og skelfingin pínir í dauðanum sál og hjarta guðsmannsins. Vér spyrjum undrandi meðan vér lesum sálmana:
»Enn ber eg andar kvein*, »Herra Jesú eg hrópa á þig« og hinn síðasta, dauðastríðssálminn: »Guð komi sjálfur nú með náð« — vér spyrjum undrandi: hvenær kemur vissan,hvenær  fær  hinn   deyjandi guðsmaður frið og fró? Vér verðum þess lítt varir, en vér skiljum hin djúpu áhrif aldarinnar á hina sjúku, guðivígðu sál. Meiri blóðhitastunur líkamlegs og andlegs dauðastríðs finst, að eg hygg, í engra þjóða bókmentum en vorum. Og hvað var þá orðið af hinum fagnandi sigurljóðum hinna fyrstu Jesú Krists blóðvotta? En þetta píslarvætti H. P. var ávöxtur rétttrúunar hans öfugu aldar.
II.
Vér spyrjum aftur: hvernig gátu þjóðirnar þolað þessa trúarfræði? Mannkynið þolir mikið. Segðu móðurinni,sem horfir á guðs kærleika og lífsins dásemd skína í fyrsta brosi barnsins síns, segðu henni, að afkvæmi hennar sé undir valdi djöfulsins, og hún trúir þér ekki fremur en að sólin á himninum sé svört. Segðu sakamanninum, sem á að líflátast ásamt unnustu sinni eftir blindum dómi fyrir sifjaspell, sem enginn kallar saknæm nú, seg honum, að ekkert nema blóð Jesú Krists geti frelsað þau frá guðs réttlátu reiði og eilífri útskúfun. Hann trúir þér ekki. Lífið hefir föst tök á mönnum svo lengi sem sólin brosir á himninum og einhver vonarskíma lifir í hjartanu.
Eftir verstu áföllin í byrjun 17. aldarinnar hélt líf þjóðar vorrar nokkurn veginn gömlu lagi, og hvenær sem afbráði,létu menn gamm lífsgleðinnar geisa, eða tóku sér skeiðsprett með skáldi glaðværðanna í Vallanesi. Hinn gamli Adam vill líka lifa. A dögum H. P. var og lengst af allgott árferði, ríkismenn voru ekki fáir og fróðleikur við skólana var óðum að glæðast, svo betri latínumenn hefir land vort aldrei átt en þá. Og þá tóku aftur að rísa af dái vorar fornu bókmentir, og þeirra endurvöknun að kveykja fjör og metnað vorra vitrustu og beztu manna; vaknaði svo smásaman þekking næstu landa á frægð og ágæti vorrar fornu tungu og bókfræði. Í þeirri miklu vöknun áttu þeir mestan þátt Arngrímur hinn lærði, síra Magnús Ólafsson í Laufásí, og síðar biskuparnir Brynjólfur
og  Þorlákur, Þormóður Torfason, Stefán Ólafsson, H. P. og margir aðrir ágætir raenu. Þessi nývöknun (renaissance) létti stórum fargi þjóðarinnar, fargi óttans og örvinglunarinnar; og meðan Guðbrandur biskup var að þýða biblíuna og með sínu mikla þreki og snilli að leiða norður til vor hina andlegu strauma siðabótarinnar, á meðan sat hinn óþreytandi Arngrímur frændi hans við að þýða fornfræði lands vors og senda suður í löndin strauma bókmenta vorra, frægðar og tungu. Þá kom hin mikla mótsetning aldarinnar, afturhvarfið frá örvinglun og hrygðlyndi til gamans og glaðværðar. En   hverfum  nú snöggvast að sögu H. P.
Um æsku hans og uppeldi höfum vér rýrar sagnir, og ekki vitum vér fyrir hver atvik hinn umkomulausi unglingur hraktist frá frændum sínum og fór utan. Skyldi hinn námgjörvi piltur hafa brotið af sér hylli hins lærða og stórláta Arngríms, er þá réði mestu fyrir stóli og skóla og hnýst heldur mikið í skjöl hans og bækur ? Eða skyldi hann með gáskafullum kveðlingum hafa komið heldur nærri kaunum manna á stólnum, þótt meðal annars skynhelgi og yfirdrepsskapur bera ofurliði hina ströngu ytri guðfræði, því víst er það, að undramikil siðaspilling elti þessa öld og það þvi dýpri sem lögin voru strangari? Og enn vil eg bæta þeirri getgátu við, að hinn ungi H.P., sem eflaust hefir snemma bæði verið ímyndunarríkur og trúhneigður, hafi oft og einatt horft á eftir hinu örvasa stórmenni, biskupinum, og spurt sjálfan sig, hvað verða mundi þegar hans misti við, »hver mundi þá hans vopnin góð í hraustlegar hendur taka«; og þá hygg eg ekki fjarri að hugsa sér, að einhver hulin rödd hafi að sveininum hvíslað: »það skalt þú gera; þú skalt syngja trú og guðmóð stóra frænda inn í blóð og merg þjóðar þinnar!*
Og þegar hann síðar var einmana í ókunnu landi og barði glóanda járnið, haíi hin sama rödd hvíslað: »Eins og neistarnir fljúga víðsvegar undan hamri þínum, svo munu gneistar brennanda trúarelds fljúga út frá munni þínum,og þú skalt kveða »heilaga glóð í freðnar þjóðir*! Æfiatriði  skáldsins er engin þörf að telja hér.Þrítugur tók hann prestsvígslu og þjónaði söfnuðum úr því við vaxandi álit og efnahag, unz likþráin tók hann, svo hann loks varð að skila af sér sínu kæra Saurbæjarbrauði, fimm árum fyrir andlát sitt. Þetta nægir hér um hans ytri æfikjör.
Hann andaðist sextugur. H. P. heflr aldrei verið mikill á lofti eða veraldarmaður, en glaðvær og jafnlyndur, svo hann mun lítið hafa breyzt hvort heldur hann átti við meðlæti að búa eða mótlæti. Glens- og kesknisskáld hefir hann aldrei mátt heita, þótt sumir hafi eignað honum ýmsa kveðlinga, sem meira líkjast öðrum. En ádeiluljóð lét honum vel að yrkja; ástaljóð eru engin til eftir hann né nokkrar heimslistarvísur. Rímum hans og biblíusálmum þarf og ekki að lýsa, alt slíkt einkennir meira tízku aldarinnar en hann. Af veraldarkveðskap hans tekur kvæðið Aldarháttur ölln öðru fram af öllum hans tækifærisljóðum. Samheudur hans eru sumar hrein snild, og sömuleiðis smáljóðin: »Ungum er það allra bezt«, og »Skyldir erum við skeggkarl tveir«, svo og ungmenna bænir og söngvar, — það alt lifir enn á vörum þjóðar vorrar. Bezt skilst H. P. ef hann er borinn saman við beztu skáld samtiðar hans: síra Guðmund á Felli, síra Sigurð í Presthólum, Laufæsingana síra Magnús og síra Jón, svo og Austfirðingana og einkum þjóðskáldið síra Stefán í Vallanesi, sem frægastur varð, og hægast er að bera saman við H. P. St. Ól. virðist fátt hafa kveðið framan af æfi sinni nema keskikvæði með litlu siðlegu gildi og með lítilli mannúð; er sú mótsögn mikil, að sjá slíkan urmul af ærsla- og léttúðarljóðagerð á svo alvörugefinni öld. H. P. orti aldrei flim, og gerði sjaldan gys að alþýðunni, en St. Ól. sí og æ, en aldrei um höfðingja, en þá helzt tyftaði H. P. í sínum ádeilum. St. Ól. kvað ástaljóð, og það fögur og ágæt svo að enn eru til, H. P. engin og engar reiðhestavísur. St. Ól.var skrautmenni og glæsimaður, en H. P. lét sem minst á sér bera. Síðar á æfinni gerði St. Ól. mikla bragarbót,og eru eftir  hann enn yfir 100 sálmar og andleg ljóð.Við umvendan sína  kannast hann sjálfur í frumlegasta sálmi sinum:  »Margt er manna bölið«.

Eg var ungur maður,
alheill, sæll og glaður,
lék við holdsins hátt –
En er tvisvar tvenna
taldist búinn að renna
tugina æfi af:
hófst upp heilsuránið,
hvarf hið fyrra lánið,
alt sem auðnan gaf.

Vel má þeim tveimur höfuðskáldum saman líkja.Þrátt fyrir mótsetningarnar mættust i þeim tvö fegurstu og þörfustu ljós þeirrar aldar; og þótt snild H. P. væri háleitari og meiri, var glaðværð St. Ól. litlu óþarfari þjóðinni en alvara hins. Lífið er fult mótsetninga og þarf margt í bú að leggja.
Flestir lærdómsmenn á þeirri öld lögðu stund á fornfræði vora, eins og áður er sagt, og sköruðu, auk Arngríms lærða, einkum þrír lands vors prestar fram úr um daga H. P. Það voru þeir síra Magnús í Laufási, sem fyrstur reyndi að þýða Eddu, Stefán Ólafsson, sem þýddi Völuspá og H. P. sem þýddi vísur úr Olafs konungs sögu Tryggvasonar. Og þótt öll vísindaleg þekking á fornfræði vorri væri þá í bernsku, sýna vísur þessara allra,að hin forna list lá þeim nærri, Síra Magnús, sem dó 1636, kvað þessa vísu til Frís kanslara:

„Heyrið hildar skúra
hefjendur mál stefja:         «
gust ber golnis yztu
gjálfur úr norðurhálfu.
Gríðar girnist veður
göfugs vinar jöfra,
lofi að hreyfa, sem lifi
lönd meðan bryddast söndum“.

Snjallari er þó vísa St. Ól., sú er hann kvað ungur meðan sveinar Brynjólfs biskups hlóðu vörðu á fornmannsleiði:

„Stóð of steindu smíði
staður fornmanns hlaðinn,
hlóðu að herrana boði
heiðið teikn yfir leiði.
Haugnr var hár og fagur
hrundinn saman á grundu
en draugur dimmur og magur
drundi i björgum undir“.

En líkust fornvísum er vísa H. P. þá er hann kvaddi Gísla á Hlíðarenda og aðra vini sína:

„Hodda gengur staf studdur,
stirðfættur meðal virða,
(burði bar betri forðum)
Baldur at Gísla tjaldi.
Hann vill siðsta sinni
seðjendur hér kveðja
dýrbliks hungurs darra
dáðkunnuga runna“.

III.
Þegar vér svo virðum H. P. fyrir oss sem sálmaskáld «ingöngu, megum vér sleppa öllum samburði; í þeirri grein ber hann höfuð og herðar eigi einungis yfir alla samtíðarmenn sína hérlenda, heldur öll sálmaskáld vor,sem síðan hafa lifað. Valda því hans sérstöku gáfur og guðmóður. Þótt þá og síðan hafi verið ort einstök guðrækin ljóð jafn fögur og hrífandi, hafa þau verið stutt og á stangli; er margt á milli að yrkja einn og einn ágætan sálm, og samstiltan flokk margra sálma, eins og píningarsálmar H. P. eru. Nú þótt tíminn, sem liðinn er frá miðri 17. öld, er sálmarnir voru ortir, hafi að vissu leyti haft áhrif á sálma þessa eða skoðun manna á þeim, svo stórbyltingaríkur, sem sá langi tími hefir verið, þá má fullyrða, að álit H. P. sé jafnmikið enn hjá þjóð vorri sem það var fyrir 200 árum síðan. Margir eru að vísu, eða allflestir, fallnir frá rétttrúarguðfræði 17. aldarinnar, en aðgætandi er, að trúhneigðum mönnum gerir það minna til þótt skoðanaskifti verði i trúarefnum, menn elska eins fyrir það hina miklu andríkishöfunda. Trú er annað og meira en trúarfræði. Eins og fyrrum var sagt, að allar götur lægi til Rómaborgar, svo liggja og allir vegir sálarinnar sanna og rétta leið ef lifandi þrá eftir guði ræður ferðinni. Þannig rataði týndi sonurinn torleiðið heim* til föðursins, og getur þó líkingin þess eins um trúfræði hans, sem felst í orðunum: »Eg vil taka mig til og fara heim til föður míns*. Það var nóg. Alföðurnum himneska  er nóg að treysta — og honum verða menn að treysta, þótt ekki verði fyr en fokið er í öll skjól og ekkert eftir  af heimsins gæðum og vísindum nema drafið svínanna.
Þessa trúar- og lífsskoðun hefir og vort mikla trúarskáld gjörla þekt, þótt hnnn oftar fylgdi kenningarkröfum sinnar tíðar — kendi og boðaði í tíma og ótíma hina kirkjulegu sáluhjáparleið gegnum Krists fórnardauða. Fórnar-eða friðþægingartrúin stafar að vísu frá bernskutíð þjóðanna, því að mannkynið hefir jafnan ósjálfrátt fundið til síns óumræðilega skorts á þeirri hrósun, sem fyrir guði gildir. Sú trú finst og fjöldanum eðlileg og ómissandi. En hinsvegar þykir enginn efi á, að drottinn vor og meistari boðaði enga trúarfræði, heldur kendi eins og sá er vald hafði, kendi framar öllu öðru guðs eilífa faðerni og hvernig kærleikans almáttugi faðmur stendur opinn öllum hans börnum, skilyrðislaust. Þessi skilningur er mjög algengur á vorum dögum, og kalla margir hinir frægustu kennimenn hann aðal-fagnaðarerindi Jesú. Þykir nú mörgum úr vöndu að ráða, einkum þeim, sem vanir eru að festa hugann fremur við lögfesta trúarfræði en sjálfa trúna, sem allan efa sigrar. Og sönn og lifandi trú talar í sálmum H. P., hvaða trúarbúning sem orð hans eru íklædd. Fyrst og síðast talar hann til vor og vottar sitt lifandi elskusamband við endurlausnara sinn. Hann mátti vel segja með postulanum: »Eg lifi, þó ekki eg,heldur lifir Kristur í mér«. Að svo mæltu skulum vér að endingu stuttlega virða fyrir oss píningarsálmana.
Tildrög þess að hann réðist í það stórvirki, að yrkja sálma fyrir hvern dag föstunnar út af píningarsögu Krists —  þau tildrög má hugsa að hafi verið þessi:
Hann var nú á bezta skeiði, leiddur af guðlegri forsjón úr örbirgð og umkomuleysi til þeirrar stöðu, er hann hafði óskað sér, og náð hylli og áliti beztu manna þjóðar sinnar; hví skyldi honum þá ekki hafa komið í hug — ef ekki áðurnefndir hugsjónadraumar, þá samt sú innri skylda eða köllun, að bæta og fullkomna æfistarf Guðbrandar biskups með gáfu þeirri, er hann fann að guð hafði lánað honum. Hann fann til þess, að hin mörgu góðu rit frá Hólum höfðu sinn galla: þau voru fæst frumrituð á íslenzka tungu. Úr því hefir hann gjarnan viljað bæta. Eða mun hann ekki þá í upphafi fyrirtækis síns hafa ákallað drottinn á líkan hátt og hann síðar gerði i versinu: »Gef þú að móðurmálið mitt, minn drottinn þess eg beiði, frá allri villu klárt og kvitt krossins orð þitt út breiði?* Eitt er víst: ásetningur hans hefir fyrirfram verið   fastákveðinn   og helgaður með bæn og fyrirhyggju —  alt hvað mál, formogtónaval snerti. Því eins og Jónas Jónsson söngfræðingur hefir sýnt og sannað,hefir val tónanna eftir textum og efnisblæ þeirra verið af skáldinu grundvallað á fullri listaþekkingu þeirra tíma.Eru og lögin, engu síður en efni og orðfæri, einmitt það, sem haldið hefir sálmunum nýjum og lifandi á vörum þjóðar vorrar alt til þessa dags. Tíu ár er mælt að verkið hafi yfirstaðið, og er hann lauk því hafi hann verið hálffimtugur; fer og fjarri því að nokkur afturfara- eða vanheilsumerki finnist á sálmunum, heldur er því líkast, að höfundinum hafi vaxið ásmegin eftir því sem verkið lengdist, og það svo, að síðari tveir fimtu partar sálmanna eru berlega bezt ortir og jafnastir. Tvær aðalhliðar píningarsálmanna vil eg benda á, fyrst hina siðfræðilegu,en siðan hina trúarlegu, þótt trú og siðaspeki fylgist að í öllum góðum sálmakveðskap. Að öðru leyti er ekkert hagræði að benda á nokkur sérstök einkenni á þessum sálmum, svo heilsteyptir og sjálfum sér likir eru þeir,en það einkennir áreiðanlega sálma H. P., að hvar sem menn hitta vers innan um annara manna sálma, bera Hallgríms af eins og gull af eiri. Hitt er og einstakt,hve hreinu og eðlilegu íslenzku máli skáldið hefir kunnað að halda sálmana út, að fáeinum orðum og hendingum undanteknum, þar sem málleysur og hvers konar smekkleysur og lýti var almenn tízka á skáldsins dögum, enda stingur sú list hans í stúf við flest annað, sem hann sjálfur orti — nema hið allra vandaðasta og frumlegasta, eins og aldarháttinn, og hinn fræga sálm: »Alt eins og blómstrið eina«. Og — það er satt — eitt er yfirleitt sem einkennir píningarsálmana, ef rétt er athugað, og það er hin óvenju-skarplega heimfærsla texta og dæma upp á daglegt líf og reynslu, enda fylgja þar með sifeld spakmæli og heilræði, svo fast og hnyttilega orðuð,að þau skorðast i minni manna. Um heimfærslulist skáldsins skal eg tilfæra nokkur dæmi úr fyrri helmingi sálmanna, þar sem þau finnast flest:
1. sálmur.  í  þeim fagurbliða sálmi byrjar skáldið heimfærslu Krists pínu með þessu versi lit af lofsöngnum:

Lausnarans venju lær og halt,
lofa þinn guð og dýrka skalt;
bænarlaus aldrei byrjuð sé
burtför af þínu heimili.

Í 4. s.   út  af  svefni   lærisveinanna  eru hin  indælu vers (8.—15.):

Mig hefur ljúfur lausnarinn, o.s.frv.

Í 5. s. út af komu óvinanna í grasgarðinn:

Verður það oft, þá varir minst,
voveifleg hætta búin finst,
ein nótt er ei til enda trygg,
að því á kvöldin sál mín hygg.

Í 6. s. um koss Júdasar:

Munnur þinn, að eg meina,
minnist við Jesúm bert,
þá hold og blóð hans hreina
hér fær þú, sál min, snert.

Í  7. s. hin hjartnæmu tvö vers er byrja svo:

Kvöl sina Jesús kallar.
Og  Þú mátt þig þar við hugga.

Í 8. s. hin alkunnu vers (13.—17.) er byrja svo:

Nú stendur yfir min náðartíð.

Í 9. s. út af flótta lærisveinanna:

Án drottins ráða er aðstoð manns
i engu minsta gildi, o. s. frv.

Í 10. s. er þetta skörulega vers:

Jesús vill að þín kenning klár
kröftug sé hrein og opinskár,
lik hvellum lúðurs hljómi, o. s. frv.

Í 11. s. þetta kjarnyrta vers:

Koleldi kveyktum jafnast, o. s. frv.

Úr 14. s. má minna á þetta vers:

Ókendum þér, þó aumur sé,
aldrei til legðu háð né spé,
þú veizt ei hvern þú hittir þar,
heldur en þessir Gyðingar.

Í þeim sálmi tekur skáldið og á drepmeini sinnar aldar:

Sá sem guðs náð og sannleikann
sér, þekkir, veit og skynja kann,
kukl og fjölkyngi kynnir sér,
Kaífas þrælum verri er.

16. s.   (um   iðrun  Júdasar)   er  hin minnilegasta viðvörun í öllum sálmunum.
Í 19. s. er og þetta kröftuga aðvörunarorð:

Rannsaka sál min, orð það ört, —
eins og versið (í 15. s.):

En þú, sem átt að vera
útvalinn drottins þjón?

Þar og víðar talar H. P. til embættisbræðra sinna.
Í 21. s. eru og mjög hjartnæmar heimfærslur.
Í 28. s. vil eg benda á versið:

Eg spyr, hvað veldur, ódygð flest, o. s. frv.

Tími og rúm meina mér að telja fleiri dæmi, svo að eg verð að sleppa mestu  af spakmælum og snillyrðum sálmanna, sem gert hafa þá að kristnum Hávamálum þessa lands.
En svo er eftir hin trúarlega hliðin, er eg nefndi, og hin skáldskaparlega. Þeirri hlið má lýsa í fám orðum. Trú skáldsins er ávalt hin sama, heit, föst og vakandi. Trú hans og andríki verður ekki aðskilið. Þó er munur sálmanna, sem fer nokkuð eftir textunum, þar eð sumir örfa meir til andríkis en aðrir; rýrir sálmar finnast hvergi í flokknum, en andríkisminstir virðast vera sálm. »Pílatus hafði prófað nú« og »Hér þá um guðs son heyrði* (20. og 26. s.). Frá sjónarmiði listar og andagiftar eru tilþrif skáldsins eða sprettir eftirtektaverðast — sprettir frá lægri stöð til hærri í meðferð textanna. Þar sést bezt listamaðurinn, sem aldrei fer þó hærra en svo, að hann svíður ekki vængina á fluginum, né lendir í ógöngum rímleysu, iburðar eða myrkurs. Er óþarfi og máske villandi, að lýsa með dæmum skáldskap H. P. og hin lýrisku  tilþrif eru þess eðlis, að þau hrífa, og þá er alt fengið.
Deila má um hverjir sálmarnir séu beztir, og hverjir æðri eða óæðri, en ekki á sá samanburður við hér. Eg vil benda á hinn merkilega sálm: »Greinir Jesús um græna tréð«. Þar eins og í öðrum sálmum skýrir skáldið glögt og skýrt frá rétttrúnaði aldar sinnar, en í þessum sálmi sýnir hann í niðurlagi sálmsins einna bezt sína mildu og hjartnæmu andríkisgáfu, sem verpur guðlegum náðargeislum yfir hina hörðu trúfræði þá er hann kveður:
»Visnað tré eg að vísu er«, og svo á enda sálmsins. Hvar er sá deyjandi maður, sem ekki fær hægra andlát, ef guðhræddur kennimaður syngur honum slík ljóðaljóð ? Að tína dæmi eftir dæmi tæmir ekki auðlegð sálma þessara. Minnist smámennin þess, sem hugsa sig færa um nú á dögum að syngja guði og hinum upprisna »nýjan söng«. Angurblíðastir þykja mér vera sálm. 1., 12., 21., 34. og 36., en enginn með jafn miklum heilagleikablæ eins og sá 44.: »Hrópaði Jesús hátt í stað«. Þar kemur guðstrú  allra þjóða og allra tíma fram eins og himinblíð opinberun á einföldu barnamáli: »Vertu guð faðir faðir minn«, segir barnið, og svo á að biðja guð. Sálmarnir 47. »Kunningjar Kristi þá«, og 48. — hinn staki andríkissálmur »Að kvöldi Júðar frá eg færi«, hygg eg að líka hafi náð einna föstustum tökum á fólki voru, og andheitari vers en »Gegnum Jesú helgast hjarta« og »Hjartans instu æðar  mínar* á víst engin þjóð. Síðasti sálmur flokksins er og með þeim fyrstu, einkum er niðurlag sálmsins líkt gagntakandi sigurljóðum eða upprisusöng, og einkum er þetta vers kemur:

Hvíli eg nú síðast huga minn,
herra Jesú, við legstað þinn;
þegar eg gæti að greftran þín
gleðst sála min,
skelfing og ótti dauðans dvín.

»Steini harðara er hjarta það«, segir H. P., en í dag hugsar margur kennimaður þessa lands: Steini harðara er hjarta það, sem ekki kemst við af þakklætistilfinningu við- guð fyrir Hallgrím Pétursson. Og steini harðara er það hjarta, sem ekki kemst við þegar þess er minst, hvað vér eigum heilagri forsjá að þakka meira en margar stærri þjóðir, því að tiltölu við fólksfjölda og ástæður framleiddi vort harða, sárpínda land á þess mestu reynsludögum fleiri frægðarmenn en nokkurt annað land oss kunnugt. öld eða lengur var Ísland á undan hinu stórfelda ættlandi voru Noregi að fæða af sér og fóstra mikilmenni og skörunga. Og hugsa má sér, að meðan umkomulítill húsfaðir söng í fátækt sinni og skorti vers H. P.

Þurfamaður ert þú min sál,
þiggur af drotni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið alt;
fyrir það honum þakka skalt, —

þá hafi húsmóðirin verið að næra á brjósti sínu einhvern þann sveininn, er síðar varð að stórmenni, sem þeir Jón „Vidalín, Skúli Magnússon eða Eggert Ólafsson.
Í dag er sem eg heyri anda H. P. tala guðserindi til vorrar þjóðar og segja: »Guð og hans Kristur í yður blessi þér enn þá lengi ljóðín mín ástkæra þjóð! Eitt eiga þau að geyma, sem seint mun dauðann smakka, og það er trúarlöngun min — leit mín og þorsti eftir lifanda guði, — án auðmjúkrar eftirþrár þýðir andrikið minna, því gáfur manna blessast ekki nema sá helgi þær, sem vér erum í, lifum og hrærumst. Fylg þeirri trúarfræði, sem tímarnir kunna að þurfa, en látið guðs hönd og anda leiða yður í sannleika. Látið hið eldra gjarnan standa meðan hjörtun elska það; það mun falla af sjálfu sér, þegar hið betra hefir nægilega rutt sér til rúms.
Megi guðs opinberun, hvaðan sem hún kemur, kenna þér, kæra þjóð, fyrir vit og reynslu, að endurfæðast og íklæðast þeim Kristi, sem skapaður er í guðs mynd og er skuggi hans veru og rjómi hans dýrðar. Skrýð þig betur og betur kærleik, sannleik og réttlæti, sem er sá kjarni kristinnar trúar, sem tíminn aldrei eyðir eða deyðir, og lær með hverri komandi öld að syngja guði nýjan söng æ innilegri, háleitari, heilagri:

því helzt mun það blessan valda
meðan guðs náð
lætur vort láð
lýði og bygðum halda“.

Og svo viljum vér svara anda vors ódauðlega skáldmærings og segja:

Trúarskáld, þér titrar helg og klökk
tveggja — þriggja alda hjartans þökk!
Niðjar Íslands munu minnast þín
meðan sól á kaldan jökul sín.

Matthías Jochumsson.
Sjá meira hér

Matthías Jochumsson (11. nóvember 1835 – 18. nóvember 1920) var íslenskt skáld, hann fæddist á bænum Skógum sem stóð um 100 metra frá sjó í austurhlíðum Þorskafjarðar undir Vaðalfjöllum. Átti hann heima á Skógum til 11 ára aldurs hjá foreldrum sínum. Matthías stundaði síðan ýmis störf, aðallega sjómennsku og sveitavinnu, en einnig verslunarstörf í Flatey. Matthías aðhylltist únítarisma.

Í Latínuskólann fór hann 24 ára gamall. Eftir Matthías liggja mörg ritverk og kvæði, t.d. leikritið Skugga-Sveinn og hann samdi ljóðið Lofsöngur sem síðar var notað sem þjóðsöngur Íslands. Hann var ritstjóri Þjóðólfs um tíma og síðari hluta ævi sinnar bjó hann í Sigurhæðum á Akureyri, en húsið reisti hann sjálfur. Áður var hann prestur í Odda á Rangárvöllum og um tíma bjó hann í Móum á Kjalarnesi. Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr stuðlabergi úr Vaðalfjöllum. Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans.

Matthías þýddi Friðþjófssögu og Sögur herlæknisins á íslensku.

Ævisaga hans, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, Upp á Sigurhæðir kom út haustið 2006.

Verk Matthíasar

* Frá Noregi og Danmörku – ferðasöguágrip; grein í Þjóðólfi 1899
* Sandfellishretið; bréf sem birtist í Morgunblaðinu 1959