Handverksdagur Heimilisiðnarfélags Íslands á sunnudag

Sunnudaginn 12. júní verður hinn árlegi Handverksdagur Heimilisiðnaðarfélags Íslands á Árbæjarsafni. Dagurinn hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár, enda margt áhugavert og fallegt sem ber þar fyrir sjónir. Venju samkvæmt munu félagsmenn sýna margvíslegt handverk, eins og útsaum, baldýringu, knipl, perlusaum, tóvinnu, spjaldvefnað, rússneskt hekl og sauðskinnsskógerð. Einnig verður hægt að fylgjast með ullarlitun eftir gömlum aðferðum með íslenskum jurtalitum.
IMG_6918 icelandic times
Á baðstofulofti Árbæjar mun vinnukonan þeyta rokkinn og teygja lopann á meðan vinnumaðurinn spinnur úr hrosshári og fléttar í reipi og bregður í gjarðir. Þá verður eldsmiður að störfum í smiðjunni. Á torginu er líka líf og fjör. Í safnhúsinu Lækjargötu 4 kennir margra grasa á sýningunni Neyzlan – Reykjavík á 20. öld.  Fyrir yngstu kynslóðina er tilvalið að heimsækja sýninguna Komdu að leika en þar er mikill fjöldi leikfanga frá ýmsum tímum sem krökkunum er frjálst að leika sér með. Auk þess er fjölbreytt úrval af útileikföngum til staðar sem krökkum býðst að nota að vild, svo sem húllahringir, snú-snú, kubb og stultur. Á gamaldags róluvelli verður hægt að leika í rólunum, vegasaltinu eða í sandkassanum.

Að vanda verður heitt á könnunni í Dillonshúsi.
 
Frítt inn fyrir börn yngri en 18 ára.
 
Árbæjarsafn er opið daglega í sumar frá kl. 10:00 – 17:00.

Sjá viðburðadagskrá á www.borgarsogusafn.is.