Lesið HM handbókina hér

HM í Rússlandi 2018 bæklingur

Þá er loksins komið að því, HM veislan er að fara að byrja, nokkuð sem maður byrjar að hugsa út í minnst 18 mánuðum fyrir hvert mót. Svoleiðis hefur þetta verið alveg síðan maður byrjaði að fylgjast með HM árið 1982 og gerðist mikill aðdáandi þessa móts. Og ekki nóg með það, Ísland er með í keppninni í ár sem gerir þetta enn skemmtilegra.

 Það var búið að vera langsóttur draumur um árabil að Íslandi tækist einhvern tímann að komast á HM án þess að maður gerði sér neitt miklar vonir um að sá draumur myndi einhvern tímann rætast. En svo gerðist það árið 2014 að við vorum hér um bil komnir, en því miður töpuðum við í umspilsleikjum við Króatíu. En nú er þetta orðið að veruleika, draumurinn hefur ræst! Tel ég að einn mesti vendipunkturinn hafi einmitt verið heimaleikurinn gegn Króatíu í júní 2017 þegar við unnum þá 1-0 með marki á síðustu mínútunum. Það er ekki farið með neinar ýkjur að segja að í gegnum alla undankeppnina hafi maður verið hlaðinn mikilli spennu allan tímann og sagði hvað eftir annað við sjálfan sig; Bara ef þeir ná að komast á HM, það yrði alveg stórkostlegt! Og nú er það staðreynd, frábær árangur hefur náðst sem vakið hefur þvílíka athygli um allan heim.

 En hvað svo, getum við ætlast til þess að þeir nái að komast upp úr riðlinum og fari í útsláttarkeppnina? Já, að sjálfsögðu, nú er ný keppni með nýjum áskorunum og hafa strákarnir okkar svo sannarlega sannað sig á stóra sviðinu að þeir geta bitið frá sér og eru til alls líklegir. Þó að þetta sé gríðarlega erfiður riðill. Ísland er ekki að fara á þetta mót bara til þess að vera með, þó að þeim stórkostlega áfanga hafi verið náð. Nei, það er hugsað þannig að það er farið út í hvern leik til að sigra og verðum við bara að vona það besta og að allt gangi nú upp og markmiðunum verði náð. En ef ekki, þá getum við samt borið höfuðið hátt og verið stolt af landsliðinu okkar, að taka þátt í stærsta knattspyrnu- og íþróttamóti í heimi og eiga lið sem stígur fram á stóra, stóra sviðið, er ekkert annað en stórkostlegt.

En hvernig verður þetta mót í ár, hverjir eru líklegastir til að berjast um titilinn? Þetta getur verið ótrúlega spennandi keppni því að það eru heil 6-7 lið sem koma alveg til greina með að eiga lið sem geta farið alla leið. Það eru þjóðir eins og Brasilía, Þýskaland, Spánn, Frakkland, Argentína og Belgía. Talandi um Belgíu, að þá hafa menn verið að segja að þeir gætu hæglega verið með liðið sem springur út á þessu móti og hampi titlinum í fyrsta skipti. Svo eru Spánverjar líka til alls líklegir. Það þarf ekki að tala mikið um Brasilíu og Þýskaland, þetta eru lið sem ná alltaf langt á HM, en það gæti gerst að þau lendi saman í 16-liða úrslitum, ef önnur þjóðin lendir óvænt í öðru sæti í sínum riðli. Það yrði rosalegt ef það myndi gerast. En eitt er víst, að okkur knattspyrnuunnendunum og jafnvel fleirum, bíður frábær veisla í rúman mánuð og nú er bara um að gera að njóta sem best.

 

Eiríkur Einarsson ritstjóri

Hér í blaðinu eiga menn að geta fundið allt sem snýr að HM á einum og sama staðnum. Samansafn af upplýsingum um liðin, leikmannahópana, leiðina á HM, leikjadagskránna og fleira. Það er komin mikil hefð fyrir þessu blaði okkar sem við höfum gefið út síðan árið 1994 þegar HM var í Bandaríkjunum. Leggjum við eins og vanalega mikla áherslu á að fanga stemninguna með því að fá vel valda sparksérfræðinga til þess að spá í riðlana, hvern leik fyrir sig og svo hvernig þeir álíta að framvinda mála verði þegar í útsláttarkeppnina er komið.

Þegar rætt er um svona stórviðburð eins og HM, á ótal margt eftir að gerast. Nýjar stjörnur koma fram, dramatík, ástríða, spenna, frábærir leikir og óvæntir atburðir. Það verður því fróðlegt að sjá hversu glöggir spekingarnir okkar hafa verið þegar upp verður staðið. Það eru ekki bara hörðustu knattsyrnuunnendur sem fylgjast með HM af miklum áhuga. Fjöldinn allur af fólki sem kannski hefur engan áhuga á fótbolta yfirleitt, hrífst með stemningunni og fyllist skyndilegum áhuga á öllu saman og láta sig ekki vanta að taka þátt í öllu fjörinu. Ég tala nú ekki um það hér á Íslandi þar sem Ísland er að fara að spila og má búast við því að meirihluti þjóðarinnar, ef ekki öll þjóðin, muni fylgjast með leikjum íslenska landsliðsins á stóra sviðinu. Gaman til þess að vita. Þetta er jú, svo miklu meira en bara fótboltaleikir.

Lesið HM handbókina hér

Áfram Ísland!

Góða skemmtun á HM

Eiríkur Einarsson, ritstjóri