Hnappheldan – Brúðkaup á Árbæjarsafni er ný sýning sem opnuð verður í skrúðhúsi Árbæjarafns laugardaginn 10. júní. Sýningin er hluti af veglegri afmælisdagskrá Árbæjarsafns en í sumar eru 60 ár liðin frá stofnun safnsins.
Um sýninguna
Brúðkaup hafa farið fram í Árbæjarsafnskirkju frá því árið 1961 og síðan þá hafa ótal pör látið pússa sig saman þar. En af hverju að gifta sig á Árbæjarsafni? Hvernig var stóri dagurinn? „Þegar við komum svo að kirkjunni varð dóttir okkar hneyksluð á því að mamma hennar ætlaði að gifta sig í því sem henni fannst vera fjós. Henni þótti þetta ekki jafn íburðarmikið og í bíómyndunum.“
Sýningin er byggð á viðtölum sem tekin voru vorið 2017 við hjón sem giftu sig í Árbæjarsafnskirkju á árunum 1961-2010. Þau deila skemmtilegum sögum af brúðkaupsdeginum og veita innsýn inn í þennan hátíðlega dag. Kirkjan er lítil og heimilisleg og sögurnar oft skemmtilegar og jafnvel svolítið skondnar. „Við giftum okkur í Árbæjarsafnskirkju, hún er lítil og sæt, og dálítið lág. Pabbi leiddi mig upp að altarinu og vinkona mín söng og vinur hennar spilaði á orgel fyrir mig. Ég man eftir því að slörið mitt var alltaf að festast upp í loftinu.“
Þessi sýning er samstarfsverkefni Borgarsögusafns Reykjavíkur og meistaranema
í Hagnýtri menningarmiðlun við HÍ en þær heita Dagrún Ósk Jónsdóttir og Kristín Lilja Th. Björnsdóttir. Sýningin mun hún standa út sumarið.