Regluverk
Laugardaginn 8. nóvember kl. 15:00 verður opnuð í Listasafni ASÍ sýning Hugsteypunnar, Regluverk.
Sýningin er unnin út frá listrannsókn sem staðið hefur yfir í tæp tvö ár og hlotið styrki úr bæði Myndlistarsjóði og Launasjóði myndlistarmanna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna skynjun og skynúrvinnslu myndlistarmanna og hvort hún tengist á einhvern hátt notkun á reglum eða endurtekningum við sköpun myndlistarverka. Meginþáttur rannsóknarinnar var úrvinnsla spurningalista sem sendur var á sextíu manna úrtak starfandi myndlistarmanna af báðum kynjum, á breiðu aldursbili. Spurningalistinn innihélt spurningar er varða skynjun, verk og vinnubrögð í tengslum við myndlist. Á sýningunni Regluverk gefur að líta verk sem eru unnin uppúr niðurstöðum rannsóknarinnar; málverk, innsetningar og textaverk.
Hugsteypan er samstarfsverkefni Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur (f. 1976) og Þórdísar Jóhannesdóttur (f. 1979). Þær útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Síðastliðin ár hafa Ingunn og Þórdís starfað jöfnum höndum saman undir merkjum Hugsteypunnar og í sitt hvoru lagi við eigin myndlistarverkefni. Sem Hugsteypan hafa þær tekið þátt í fjölda sýninga t.a.m. í Kling & Bang gallerí, Hafnarborg, Listasafni Árnesinga, og Gallerí Ágúst, auk nokkurra samsýninga erlendis. Efnistök Hugsteypunnar hafa verið allt frá hugleiðingum um listasöguna og eðli myndlistar til notkunnar á viðurkenndum aðferðum rannsókna við gerð myndlistarverka.
Úr sýningartexta – Jóhannesar Dagssonar:
Sú hugmynd að listamenn hljóti að skynja umhverfi sitt á einhvern þann hátt sem er frábrugðinn því sem venjulegur einstaklingur gerir er ekki ný af nálinni. Listamaðurinn sem einhverskonar sjáandi, sá sem sér inn í innra samhengi hlutanna, er næmur á smáatriði sem aðrir sjá ekki, er fær um fínleika í snertingu við heiminn sem öðrum er ekki mögulegt, eru allt stef sem ganga aftur alla leið til Platóns og eflaust lengra. Hér er fengist við afbrigði af þessari hugmynd með aðferðarfræði félagsvísindanna. Hér er það ekki listamaðurinn sem rómantískur sjáandi sem er viðfangsefnið, heldur listamaðurinn í samhengi greiningarinnar, rófsins, fráviksins. Eins og í hefðbundinni rannsókn eru listamennirnir (viðföngin) sviptir einkennum sínum, þeim breytt í tölulegar stærðir, í mælanlegar einingar (hér er allt svo hlutlaust og sérkennalaust), í viðbrögð sem eru mælanleg og yrðanleg. En þar með er ekki sagt að niðurstöðuna sé hægt að setja fram í orðum (eða tölulegum formúlum). Eins og sannir vísindamenn gera listakonurnar sér grein fyrir að gögn eru aðeins gögn í krafti þeirrar túlkunar sem beitt er á þau.
Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl 13-17 og aðgangur er ókeypis.
Listasafn ASÍ
Freyjugötu 41 101 Reykjavík
s.5115353, 6929165
[email protected]
www.listasafnasi.is