HULDA RÓS GUÐNADÓTTIR

– KEEP FROZEN 4. partur

KEEP FROZEN 4. partur er innsetning í blandaða miðla og samstarfsgjörningur sem unninn er af myndlistarmanninum Huldu Rós Guðnadóttur.

KF4_net_web-res

Verkið er unnið út frá hugleiðingum um sögu Ásmundarsals sem sýningarstaðs fyrir málverk og sögu safnsins sjálfs sem málverkasafns í eigu verkamanna. Alþýðusamband Íslands heldur upp á aldarafmæli sitt árið 2016 og þar sem safnið er í eigu sambandsins verður verkið framsett og unnið í samstarfi við verkamenn í Reykjavíkurhöfn sem átti einmitt aldarafmæli árið 2015. Sýningin er sú fjórða í röðinni í Keep Frozen sýningarröðinni og í henni koma ýmsir þræðir saman úr fyrri sýningum.

Á svæði útgerðarfélagsins Ögurvíkur í Reykjavíkurhöfn liggur nokkurra tonna þung neta-og bobbingahrúga síðan hún var endurheimt eftir árslanga dvöl á sjávarbotni. Netið tilheyrði áður frystitogaranum Vigra og misstu þeir netið á sama tíma og tökur á heimildarmyndinni Keep Frozen stóð yfir veturinn 2014. Heimildarmyndin fjallar um löndun úr Vigra. Næstum upp á dag ári seinna þá var það fyrir tilviljun að annað skip fann netið á sjávarbotni. Litir þess og áferð efnisins hafa tekið umbreytinum vegna ágangs sjávar og verunnar í söltum sjó.

Á fyrstu sýningu Keep Frozen sýningarraðarinnar í De-Construkt projects í New York sýndi Hulda örlitlar netatæjur og búta sem hún hafði fundið á Atlantshafsströnd Afríku en mikið af tæjum skolar þar á land eftir að hafa velkst um hafið. Tæjurnar hafa þá fallið fyrir borð, losnað af netum og hreinlega skolast af bryggjum handan hafsins. Það má því segja að með því að sýna heilt net mörg tonn af þyngd þá lokist ákveðinn hringur í pælingum listamannsins.

Í undanfara opnunar sýningarinnar mun fara fram gjörningur þar sem hrúgan verður flutt af löndunarmönnum frá höfninni, í gegnum bæinn og upp í safnið þar sem verkamennirnir munu koma henni fyrir í miðjum Ásmundarsal. Þar sem aldrei er hægt að skipuleggja fyrirfram hvenær löndunarmenn eru lausir eða hvenær skipið kemur í höfn verður tímasetningin óræð. Í Ásmundarsal mun hrúgan öðlast nýja merkingu fundins skúlptúrs endurheimtum af sjávarbotni.

Það var á annarri sýningu Keep Frozen raðarinnar á Listahátíð í Reykjavík 2014 sem Hulda kynnti til leiks pælingar sínar um listamanninn sem verkamann og verkamanninn sem listamann. Sýndi hún þar röð ljósmynda þar sem hún sem listamaður mátar sig við hreyfingar verkamannsins á meðan hafnarverkamenn fluttu ljóðagjörning á opnun en ljóðin voru sérpöntuð af fyrrverandi löndunarmanninum Hinriki Þór Svavarssyni.

Í Listasafni Alþýðusambandsins mun verða gengið enn lengra og pantaði Hulda röð málverka af Slippnum í Reykjavík þar sem skipalitir og áferð þeirra og málunaraðferðir skipsmálunarmanna áttu að vera í forgrunni samkvæmt ákveðnum fyrirmælum listamannsins. Alger tilviljun var að listmálarinn og innflytjandinn David Subhi var verkamaður í Slippnum. Því varð það svo að þjálfaður listamaður gerði málverkin á vinnutíma sínum sem verkamaður.

David leit sjálfur á starf sitt í Slippnum sem ákveðið rannsóknartæki á efni og áferðir tengdum skipamálun og hefur hann sjálfur í eigin nafni unnið stór málverk út frá nærmyndum sem hann tók af áðurnefndum frystitogara Vigra í slipp. Vigri er enda fallegasta skip landsins, fagurdökkgrænblátt að lit og lögulegt í alla staði. David mun sjálfur opna einkasýningu á Vigra-verkunum stuttu eftir að Keep Frozen 4. hluti opnar í Listasafni ASÍ. Má segja að með samstarfinu við skipalistmálarann David lokist hringurinn í pælingum listamannsins um verkamanninn og listamanninn.

Hringnum er þó ekki alveg lokið. Í innsetningunni tekur Hulda upp þráðinn þar sem hann var skilinn eftir í vídéoverkinu ‘Material Puffin’ sem var sýnt sem hluti af innsetningu á Listahátíð í Reykjavík árið 2014. Þar má sjá listamanninn sem lunda (fígura með risastóra lundagrímu) spúa út gulli ofan í höfnina. Margir spurðu sig hvað það hefði með höfnina að gera og svo sem ekkert eitt svar við því en pælingar listamanns munu skýrast í Ásmundarsal. Þar verður sýndur í fyrsta skipti nýr skúlptúr eftir Huldu sem vísar beint í vídéoverkið. Fagurfræði hafnarinnar hverfist að mörgu leyti um hina eilífu baráttu við ryð sem verður til vegna samspils sjávar og þeirra málmefna sem notuð eru í byggingarefni á skipum og höfnum. Skúlptúrinn tengist hugleiðingum hennar um orð listamannsins og ritgerðarsmíðandans Allan Sekula þess efnis að ef skip væru framleidd úr gulli þá þyrftum við ekki lengur að mála skipin í þeim fjölmörgu litum sem einkenna höfnina. Slíkt myndi umturna ásýnd hafna og stað þeirra í huga okkar sem stað þar sem niðurbrot á sér stað. Stað sem við tengjum ósjálfrátt melankólíu kapítalismans.
——
Keep Frozen er titill á langtíma listrannsóknarverkefni sem Hulda Rós hefur unnið síðan árið 2010. Hluti af þeirri rannsókn var sýningarsería sem byrjaði með KEEP FROZEN partur núll, einnar rásar myndbandsverki sem hefur ferðast víða um heiminn. Serían hélt áfram með KEEP FROZEN partur eitt, innsetning í blandaða miðla sem sýnd var í De-Construkt projects, New York árið 2013. Ári síðar birtist rannsóknin í fyrsta skipti á Íslandi sem KEEP FROZEN partur 2, innsetning í blandaða miðla, sýnd í Gallerí Þoku á Listahátið í Reykjavík.

Þriðji partur verður sýndur í fyrrum hitaorkuveri í Leipzig í janúar og febrúar 2016 þar sem gjörningur löndunarmanna verður fluttur og síðan endurvarpað sem þriggja rása myndbandsinnsetning í 500 m2 rýminu. Framundan er jafnframt útgáfa heimildarmyndarinnar Keep Frozen sem fjallar um löndun úr frystitogaranum Vigra í Reykjavík. Fjallað er um rannsóknina í bókinni Keep Frozen – Art practice as research. The Artist´s View sem gefin var út á seinasta ári og kynnt almenningi í fyrsta skipti á Berlin Art Week í september 2015.

Í bókinni ritstýrir listamaðurinn greinum eftir aðra listamenn, heimspekinga og sýningarstjóra auk þess sem þar birtast niðurstöður áhorfendarannsókna og viðtal við listamanninn. Bókin var liður í að opna hið einræna rannsóknarferli og staðsetja það í stærra samhengi og máta við aðrar listrannsóknir. Með málþingi sem haldið verður í LHÍ og einnig á málþingi í Leipzig í janúar er gengið alla leið í að gefa öðrum listamönnum orðið og fjalla um/sýna eigin rannsóknir. Sýningin er hluti af stærra verkefni Keep Frozen Projects en hægt er að lesa um það á vefsíðu verkefnisins www.keepfrozenprojects.org.
—–
Hulda Rós Guðnadóttir er fædd í Reykjavík en hefur búið víðsvegar um heiminn; þar á meðal Danmörku, Bandaríkjunum, Slóvakíu, Bretlandi og er um þessar mundir búsett í Berlín, Þýskalandi. Eftir margra ára ferðalag nam hún mannfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist með B.A. gráðu í því fagi árið 1997, einnig lauk hún M.A. námi í gagnvirkri hönnun áður en hún lauk seinni B.A. gráðu sinni, í myndlist við Listaháskóla Íslands.

Árið 2008 vann hún til Edduverðlauna fyrir bestu heimildarmyndina, Kjötborg og þrem árum seinna hélt hún einkasýningu í D-sal Listasafns Reykjavíkur. Hulda hefur verið með einkasýningar í Berlín, Barcelona, New York og fleiri stöðum og jafnramt tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum samsýningum og kvikmyndahátíðum. Hún vinnur aðallega með kvikmyndun og milli miðla; með áherslu á innsetningar, skúlptúra, gjörninga og inngrip í verkum er snerta á félags- og efnahagslegum málefnum útfrá sínu eigin persónulega sjónarhorni.