Listasafn Íslands

Íslensk listaverk um 90% af safneigninni
Listasafn Íslands var stofnað árið 1884 í Kaupmannahöfn. Björn Bjarnarson (1853-1918), lögfræðingur og síðar sýslumaður og alþingismaður var þeirrar skoðunar að Íslendingar ættu að eignast eigið þjóðlistasafn eins og aðrar vestrænar þjóðir. Honum tókst að safna 74 verkum, svokallaðri stofngjöf, sem gjafmildir listamenn í Danmörku og víðar á Norðurlöndum létu Íslendingum eftir af fölskvalausum velvilja. Danakonunungur var meðal þeirra sem gáfu listasafninu verk.

asgrimur-jonssontindafjoll-li-1008-gox-jas-1bls-92

Ásgrímur Jónsson. Tindafjöll

torarinn-b-torlakssonhvitali-6093-gox-jas-icelandic-landogsaga

Þórarinn B. þorláksson Hvítá

„Það var ekki fyrr en upp úr 1900 sem safnið eignaðist íslenskt listaverk, Útlaga, eftir Einar Jónsson,“ segir Halldór Björn Runólfsson safnstjóri. Fyrsta íslenska málverkið, Áning, eftir Þórarin B. Þorláksson kom í safneignina 1911, 27 árum eftir stofnun Listasafns Íslands. „Ennþá eiga fleiri erlendir listamenn verk í safninu heldur en íslenskir þótt heiti þess bendi til annars. Hins vegar er fjöldi íslenskra verka í heildarsafneigninni um níutíu prósent eða nærri ellefu þúsund.“

torarinn-b-torlaksson-aning-li-75-84x150-cm-1910-gox-jas-1bls-109

Þórarinn B. Þorláksson – Áning

Halldór Björn segir að Listasafn Íslands hafi stækkað á undanförnum árum þegar Listasafn Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi varð hluti af safninu og Vasulka-stofa var stofnuð sem deild innan safnsins á 130 ára afmæli þess. Löngu fyrr, eða árið 1960, varð Ásgrímssafn við Bergstaðastræti hluti af Listasafni Íslands. „Vasulka-stofa er miðstöð raf- og stafrænnar margmiðlunarlistar á Íslandi nefnd í höfuðið á Steinu og Woody Vasulka sem voru meðal brautryðjenda alþjóðlegrar vídeólistar á 7. og 8. áratug liðinnar aldar og kusu að ánafna deildinni veglegan hluta af gagna- og heimildasafni sínu.“

listasafn-island
Fjölbreyttar sýningar
Í stærsta sal Listasafns Íslands er nýopnuð sýningin TEXTI með textaverkum úr einkasafni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur. Í sal 2 er ljósmyndasýningin Ljósmálun með fjölda íslenskra samtímaverka þar sem tekið er mið af áhrifum málaralistar á ljósmyndun. Í báðum sölum á efri hæðinni er yfirlitssýning á verkum Valtýs Péturssonar sem auk þess að vera brautryðjandi í geometrískri abstraktlist á Íslandi var þekktur gagnrýnandi á Morgunblaðinu.
26. október opnar sýning á verkum hinnar heimsþekktu bandarísku listakonu Joan Jonas en hún var fulltrúi heimalands síns á síðasta Feneyjatvíæringi. Um er að ræða samvinnuverkefni milli Listasafns Íslands og Listasafnsins á Akureyri. liswtasan-island-icelandic-times
Snemma í febrúar á næsta ári verður opnuð stór, alþjóðleg teiknisýning úr fórum Pompidou-miðstöðvarinnar í París og seinna í sama mánuði opnar svo fastasýning á völdum verkum úr safneign Listasafns Íslands sem spanna tímabilið frá 16. öld til þeirrar tuttugustu og fyrstu. Í tengslum við þá sýningu er gefin út bók á íslensku og ensku með 130 valinkunnum verkum af ýmsum gerðum og aldri sem sýna óendanlega fjölbreytnina í Listasafni Íslands.