Karólína Lárusdóttir

Karólína Lárusdóttir er meðal þeirra fjölmörgu íslensku myndlistarmanna sem hafa öðlast meiri frama meðal erlendra þjóða en hér heima. Hún menntaðist í Bretlandi, m.a. í Ruskin-listaskólanum í Oxford, er mótuð af meginstraumum breskrar myndlistarhefðar og þar hefur orðstír hennar vaxið ár frá ári. En myndheimur hennar er íslenskur; myndefni sitt sækir hún ekki síst í æskuminningar sínar, úr þeim hefur hún skapað það sem breski listamaðurinn Harry Eccleston kallaði „veröldina hennar Karólínu“ og er nú þekkt víða um heim.

Í þessari einstæðu listaverkabók eru 146 litmyndir af verkum Karólínu – olíumálverkum, ætingum, akvatintum, teikningum og steinprenti – auk fjölda ljósmynda úr fjölskyldualbúmum hennar. Aðalsteinn Ingólfsson skrifar ítarlega grein um listakonuna, ævi hennar og listþróun, bæði á ensku og íslensku, og í bókarlok eru skrár yfir helstu sýningar hennar.

Allur texti bókarinnar er bæði á ensku og íslensku.

All text is in both Icelandic and English.

„Bókin um Karólínu Lárusdóttur og list hennar er ákaflega skemmtileg aflestrar og fróðleg. Glæsilegar myndir Karólínu teygja sig svo yfir síðurnar. Aðalsteinn greinir verk Karólínu einkar vel og lýsir listþróun hennar á svo glöggan og skemmtilegan hátt að lesandinn hlýtur að öðlast dýpri skilning á þeim en hann hafði áður. Og verður um leið enn meðvitaðri en áður um það hversu snjöll og hæfileikamikil listakona Karólína er. Íslendingar eiga að umfaðma mestu listamenn sína. Karólína er alveg örugglega þar á meðal.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Morgunblaðið

„Af einstakri kunnáttusemi tekst Karólínu að fá okkur á sitt band, um leið og hún áréttar valfrelsi áhorfandans. Í umfjöllun sinni um grundvallaratriði tilverunnar er hún hvortveggja í senn, gáskafull og einlæg. Við hrærumst í heimi ótal leyndardóma sem við ættum að gaumgæfa með fögnuði; um leið skyldum við hafa hugfast að tilveran er stærri en þessi heimur. Svarið er ekki að finna þar. Með því að fjalla í senn um gleði og sorgir lífsins af gjafmildi andans og djúpvisku málaralistarinnar, vinnur listakonan á hærra plani en flestir aðrir.“
Wendy Beckett, listgagnrýnandi, 1993

„Myndheimurinn sem Karólína hefur búið til er merkilegt afrek í frásagnarmálverki. Þar fara saman persónuleg upprifjun og stílfært myndmál sem ótrúlega margir, í Bretlandi ekki síður en á Íslandi, geta samsamað sig.“
Jón Proppé, listfræðingur

„Það fer ekkert á milli mála að Karólína Lárusdóttir er meistari. Hún er meistari í teikningu, hún er meistari í lit, hún er meistari í frásagnarmyndlist. Myndheimur hennar speglar tilvist íslensks listamanns sem býr í áratugi erlendis en hugsar nær eingöngu til Íslands – Texti bókarinnar, ásamt myndum hennar setur Karólínu í stærra samhengi en nokkurn tíman hefur verið gert áður. Frábær bók.“
Goddur, prófessor við Listaháskóla Íslands

„Tímabært var að skrifa Karólínu inn í íslenska myndlistarsögu og skipa henni þar þann sess sem henni ber. Aðalsteinn Ingólfsson gerir það á frábæran hátt í þessari bók. Þá gefur bókin einnig einstakt yfirlit yfir listaverk Karólínu – að kynnast sögu Karólínu með verk hennar sem leiðarhnoð heppnast eins og best verður á kosið í bókinni.“
Björn Bjarnason

„Karólína Lárusdóttir hefur þennan yndislega húmor í myndunum sínum svo að maður kemst í gott skap við að horfa á þær og víða á hún einnig ljóðrænan þráð. Mér þykir vænt um Karólínu.“
Frú Vigdís Finnbogadóttir

Höfundur: Aðalsteinn Ingólfsson
Síður: 328 Útgáfuár 2013
Útgefandi: JPV