Laugar í Sælingsdal. Upphlaðin laug nálægt þeim stað, sem Guðrún Ósvifursdóttir baðaði sig á tímum Laxdælu” Ljósmynd: Sigurjón Pétursson.

KONRAD MAURER Á SLÓÐUM LAXDÆLU OG STURLUNGA.

Screen Shot 2015-06-10 at 11.53.20
“Olíumálverk af hinum unga Konrad Maurer 19 ára”.

Sá Íslandsvinur, sem Íslendingum hefur lengi þótt vænt um var og er Konrad Maurer prófessor frá Mϋnchen. Maurer varði stórum hluta lífs síns í að rannsaka íslensk mál og menningu.  Faðir hans innritaði hann ungan í lagadeild háskólans í Mϋnchen þar sem hann lagði stund á fornnorrænan rétt og réttarsögu.

Rannsóknir hans beindu athygli hans að  fornum rétti Noregs og Íslands.  Fljótlega  færðist áhugi hans á íslenskum rétti yfir á önnur íslensk svið svo sem sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, fornar bókmenntir hennar og þjóðsögur.  Það var því ekki lítill fengur þegar Kurt Schier prófessor og Kládia Róbertsdóttir fundu óútgefið handrit Konrads Maurers af ferðasögu hans um Ísland árið 1858.

Hann  dvaldist 6 mánuði í landinu og ferðaðist um Suðurland, Sprengisand, Norðurland og Vesturland.  Þessi ferðasaga var gefin út af Ferðafélagi Íslands á 70  ára afmæli þess 1997 í framúrskarandi þýðingu Baldurs Hafstað og er enn fáanleg hjá Ferðafélaginu. Ferðafélagið efndi til dagsferðar „Í fótspor Konrads Maurers um Suðurland“ í fyrra.  Nú stendur til að fara slíka ferð „Konrad Maurer á slóðum Laxdælu“ í haust. Lagt verður af stað frá höfuðstöðvum Ferðafélags Íslands í Mörkinni  sjötta september n.k. og farið beint  að  Stað í Hrútafirði.

Þar hefst hin eiginlega ferð í fótspor Mauers frá Fjarðarhorni um Laxárdalsheiði,  Laxárdal, Hvammssveit og Svínadal vestur í Saurbæ.  Þaðan út Skarðsströnd að Skarði og inn Fellsströnd að Hvammi í Dölum og að Laugum í Sælingsdal og Hjarðarholti. Leiðsögumaður verður dr. Árni Björnsson, þjóðháttarfræðingur,sem er uppalinn í Dölum og ritaði  um svæðið í árbækur  Ferðafélagsins 1997 og 2011 „Í Dali vestur“.  Fararstjórar verða undirritaður og Sigurjón Pétursson.

Gildi Maurers fyrir þjóðsögur Íslendingar er ómetanlegt.  Hann taldi kjark í þá Jón Árnason og Magnús Grímsson sem voru við það  að gefast upp á tregðu landsmanna til að segja þeim sögur til birtingar vegna þess að þeir töldu þjóðsögur óæðri fornbókmenntunum.  Maurer stuðlaði að útgáfu þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar og lét prenta þær á íslensku í Leipzig 1862-1864 í tveimur bindum. Þetta var eina útgáfan af þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar næstu tæplega 100 ár þangað til ný útgáfa þeirra Árna Böðvarssonar og Bjarna Vilhjálmssonar birtist 1954-1961 í 6 bindum.

En Maurer gerði meira.  Hann safnaði sjálfur íslenskum þjóðsögum á ferð sinni um landið 1858.  Eftir að hann var kominn aftur heim til Mϋnchen  gaf hann út bók um þessar þjóðsögur 1860.  Þetta rit , sem heitir  „Islӓndische Volksagen der Gegenwart“ er eiginlega 352 bls. ritgerð um íslenskar þjóðsögur með fjölda þjóðsagna sem eru teknar með sem dæmi til útskýringar  á efni ritgerðarinnar. Þessi bók var í áratugi ýtarlegasta umfjöllun um þjóðsögur okkar en kom ekki út á íslensku fyrr en 155 árum  síðar í afburða þýðingu Steinars Matthiassonar undir nafninu „Íslenskar alþýðusögur á okkar tímum“.

 

img001
“Alþýðusögur Konrad Maurers í þýðingur Steinars Matthiassonar”

Í Maurerferðinni í hausts verður fylgt frásögn Maurers í ferðabók hans.  Áhugi Maurers á öllu  er svo víðfeðmur að þessi reisa verður eins konar fjölmenningarferðalag, þar sem víða verður komið við á leiðinni og ekki einungis dvalið við fortíðina.

Fyrir nokkrum árum var lagt til að Konrad Maurer yrði reistur minnisvarði í Reykjavík og hann staðsettur á reitnum á  milli Hæstarétts og safnahússins við Hverfisgötu, sem gæti heitið Konrad-Maurer-Garður. Ekki varð úr þessu en vonandi verður Maurer reistur minnivarði þarna eða annars staðar.  Ættingjar Maurers í Þýskalandi vilja gefa hingað olíumálverk af Maurer 19 ára gömlum málað 1821, finnist heppilegur staður til að varðveita það á. Mönnum verður hugsað til Húss íslenskra fræða, sem nú er í byggingu þar sem gamli Melavöllurinn stóð. Í Þýskalandi er Allessía Bauer að vinna að útgáfu Íslandsferðarinnar 1858 á þýsku.  Þessi vinna er á vegum háskólans í Mϋnchen og bæverksu vísindaakademíunnar. Dr. Peter Landau prófessor emeritus í réttarsögu við sama háskóla er í forystu fyrir útgáfunni. Guðmundur Óli Ingvarsson hefur teiknað 19 landakort í litum, sem sýna alla ferð Maurers um landið.  Þessi kort verða notuð í þýsku útgáfuna.  Sigrún Gylfadóttir hefur skrifað MA ritgerð, sem birtist á www.skemman.is 15. febrúar s.l.  og heitir“Konrad Maurer og íslensk þjóðsagnasöfnun“..  Sigurjón Pétursson, ferðamaður og ljósmyndari hefur verið óþreytandi  í sjálfboðavinnu að undirbúa ferðir Ferðafélagsins um Konarad Maurer.
Þannig neitar minningin um Konrad Maurer að deyja, sannan vin og dreng góðan.

Texti: Jóhann J. Ólafsson.