– SVIPMYNDIR 30 KVENNA Í ÍSLENSKRI MYNDLIST
Sýningatími: 13.2.2015 – 10.5.2015, Listasafn Íslands
Í ár er liðin öld frá því konur á Íslandi öðluðust kosningarrétt. Af því tilefni býður Listasafn Íslands gestum að skoða verk 30 kvenna, sem lögðu sitt af mörkum til að ljá íslenskum konum rödd svo þær mættu öðlast aukna vitund um hag sinn og stöðu. Svo virðist sem íslenskum listakonum hafi frá öndverðu skilist að sá sem ekki á sér sjálfstæða tjáningu á sér varla teljandi frelsi.
Öll eru verkin á sýningunni eru úr fórum Listasafns Íslands og eru því ekki tæmandi úttekt á þessari merku og margslungnu sögu. Bæði er að safneignin er takmörkuð og oft tilviljun háð hvað verk hafa borist safninu og hitt að töluvert stærri húsakynni þyrfti til að gera myndlist íslenskra kvenna tæmandi skil. Með um 70 verkum eftir 30 íslenskar listakonur, fæddum á árunum 1823 til 1940, bregður sýningin KONUR STÍGA FRAM engu að síður ljósi á vitundarvakningu kvenna hér á landi og baráttu þeirra fyrir aukinni hlutdeild í sögu íslenskrar myndlistar.
Sýningunni er gróflega skipt í nokkrar kynslóðir og eru elstu fulltrúarnir fæddir á fyrri hluta 19. aldar þegar íslensk nútímalist hafði ekki enn slitið barnskónum og enn var nokkuð í það að fram kæmu konur, sem hefðu myndlist að ævistarfi. Þess var þó ekki langt að bíða að frumherjar okkar meðal kvenna tækju af skarið og létu til sín taka í dönsku, íslensku og alþjóðlegu myndlistarlífi. Þetta voru konur, sem einmitt hófu nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn um það leyti sem kosningarréttur þeirra var tryggður. Þær áttu eftir að gera garðinn frægan á millistríðsárunum.
Kynslóðir eftirstríðsáranna, fæddar á þriðja, fjórða og fimmta áratug 20. aldar staðfestu það, sem öllum mátti ljóst vera, að konur voru engir eftirbátar karla í myndlistinni þótt alltof mörg dæmi væru um það að þeim væri mismunað og kysu því sumar að ílendast annars staðar. Numið er staðar við þá kynslóð, sem fædd var fyrir lok fimmta áratugarins vegna þess að vitundarvakning þeirrar kynslóðar er enn að verki. Þetta er kynslóð mjög meðvitaðra kvenna, sem finna til sín í leit á spánýjar slóðir til að takast á við óhefðbundna miðla og óhefðbundnar hugmyndir um stöðu listarinnar, stöðu og sérstöðu kvenna sem listamanna og mótenda nýrrar listmenningar.
Umfjöllun um sýninguna í Víðsjá 17.02 2015
Eftirtaldir myndlistamenn eiga verk á sýningunni
Þóra Melsted (1823-1919)
Sigríður E. Magnússon (1831-1915)
Elínborg Pétursdóttir Thorberg (1842-1925)
Þóra Pétursdóttir Thoroddsen (1848-1917)
Kristín Vídalín Jacobsen (1864-1943)
Sigríður Gunnarsson (1885-1970)
Kristín Jónsdóttir (1888-1959)
Júlíana Sveinsdóttir (1889-1966) video hér
Gunnfríður Jónsdóttir (1889-1968)
Nína Sæmundsson (1892-1965)
Vigdís Kristjánsdóttir (1904-1981)
Barbara Árnason (1911-1975)
Nína Tryggvadóttir (1913-1968)
Valgerður Briem (1914-2002)
Ragnheiður Jónsdóttir Ream (1917-1977)
Louisa Matthíasdóttir (1917-2000)
Þorbjörg Pálsdóttir (1919-2009)
Ásgerður Búadóttir (1920-2014)
Guðmunda Andrésdóttir (1922-2002)
Eyborg Guðmundsdóttir (1924-1977)
Sigrún Guðjónsdóttir – Rúna (1926-)
Gerður Helgadóttir (1928-1975)
Sigríður Björnsdóttir (1929)
Miriam Bat Yosef (1931-)
Ragnheiður Jónsdóttir (1933- )
Hildur Hákonardóttir (1938- )
Þorbjörg Höskuldsdóttir (1939- )
Björg Þorsteinsdóttir (1940- )
Róska (1940-1996)
Steina (1940- )
Kosningaréttur kvenna 100 ára
Sýningin er styrkt af „100 ÁRA KOSNINGARÉTTUR KVENNA Á ÍSLANDI
ÍSLENSKRI MYNDLIST, Fríkirkjuvegi 7, 101 Reykjavík | Sími 515-9600