Lagarfljót og Lögurinn á Fljótsdalshéraði við Egilsstaði

Lagarfljót og Lögurinn á Fljótsdalshéraði við Egilsstaði

Lagarfljót er eitt mesta vatnsfall á Austurlandi.  Það er um 140 km frá upptökum Jökulsár á Fljótsdal til ósa.  Efri hluti fljótsins myndar langt stöðuvatn, Löginn, sem er þriðja stærsta stöðuvatn  á landinu, um  53 ferkílómetra.  Vatnið er mjög djúpt, mest um 112 m og nær botn þess um 90 m undir sjávarmál.  Samkvæmt gamalli þjóðtrú er talið að skrímsli hafist við í Lagarfljóti, Lagarfljótsormurinn.  Stóð mönnum mikill stuggur af ormi þessum fyrr á öldum og þótti það boða ill tíðindi ef hann sást skjóta kryppum upp úr vatninu.  Hin síðari ár hefur minna borið á honum en þó eru þess dæmi að nýlega hafi náðst sæmilega skýrar ljósmyndir af honum.

LAGARFLJÓT – MESTA VATNSFALL LANDSINS
Lagarfljót er að miklum hluta skipgengt, eina straumvatnið sem áætlunarbátar hafa gengið um hérlendis og ganga enn. Myndin er tekin frá Geitargerði.
[ Smelltu til að sjá stærri mynd ] “Lagarfljót er þannig skapað, að það er bæði stöðuvatn og straumvatn, án þess að nokkur glögg skil séu þar á milli. Eiginlega er það röð af stöðuvötnum, sem vatnsfall rennur í gegnum. Það er 92 km að lengd, en 140 km ef Jökulsá í Fljótsdal er talin með.”

LAGARFLJÓT er lygnt og líkist helst stóru stöðuvatni” ritar Eggert Ólafsson í Ferðabók sinni (1772). Hann kallar Lagarfljót mesta vatnsfall landsins, og má það til sanns vegar færa. Þó að nokkur fljót séu lengri og vatnsmeiri, er ekkert fljót á Íslandi til jafnaðar eins djúpt og breitt eins og Lagarfljót. Það er að miklum hluta skipgengt, eina straumvatnið sem áætlunarbátar hafa gengið um hérlendis og ganga enn. Þannig séð er það eina íslenska vatnsfallið sem getur jafnast við stórfljótin í útlöndum. Lygnt og breitt sígur það fram í sinni “dreymnu ró”, víðast án þess að straumur verði greindur, uns það fellur fram af klettastalli, síðan aftur jafn værðarlegt, uns það minnist við Jöklu í sameiginlegum ósi. Djúp þess geymir marga dul sem vísindin hafa ekki megnað að skýra. Fljótsdalur er kenndur við Lagarfljót og Héraðið við dalinn.

Helstu einkenni
Lagarfljót er þannig skapað, að það er bæði stöðuvatn og straumvatn, án þess að nokkur glögg skil séu þar á milli. Eiginlega er það röð af stöðuvötnum, sem vatnsfall rennur í gegnum. Það er 92 km að lengd, en 140 km ef Jökulsá í Fljótsdal er talin með.
Efsta vatnið, sem nú kallast Lögurinn, er langstærst, það þriðja stærsta á Íslandi að flatarmáli og rúmmáli, um 25 km langt, allt að 2,5 km breitt, um 53 ferkm og rúmar um 2700 gl. (Þingvallavatn og Þórisvatn eru stærri að fleti en rúma svipað. Blöndulón er líka nokkru stærra að fleti, en mun minna að rúmmáli). Það er líka eitt dýpsta vatn landsins, um 50 m að meðaltali og 112 m mest. Vatnsflöturinn er um 20 m yfir sjávarmáli, og nær botninn því allt að 92 m undir sjávarmál. (Sigurjón Rist: Vatns er þörf. Rv. 1990). Þó ekki gæti sjávarfalla í Leginum, eru þar breiðar fjörur, eins og á sjávarströndum, en það stafar af vatnsborðssveiflum, sem geta verið nokkrir metrar. Ströndin er á köflum nokkuð vogskorin og töngótt. Einn tanginn heitir Skarfatangi. Nokkrir hólmar eru við Lagarfljótsbrú vaxnir kjarri.

Utan við Egilsstaði eru fjögur minni stöðuvötn í farvegi fljótsins, sem kallast flóar og eru kenndir við bæi sem við þá standa. Þeir eru innan frá talið: Vífilsstaðaflói, Straumsflói, Steinsvaðsflói og Víðastaðaflói. Flóarnir eru 1-1,5 km á breidd og 1- 6 km á lengd. Dýpi hefur lítið verið mælt í þeim, en talið er að flestir séu grunnir, um 1-5 m.

Í Fljótinu er einn foss, sem fyrrum var talinn einn mikilfenglegasti foss landsins, en er nú ekki nema svipur hjá sjón, eftir að fall hans var virkjað um 1975. Hann var oftast nefndur Fossinn í Lagarfljóti, en í seinni tíð Lagarfoss, eftir að samnefnt skip kom til sögunnar. Fossinn var tvískiptur, og var austurhlutinn fallfoss, um 10 m hár, sem minnti á Goðafoss, en vesturhlutinn flúð, um 100 m breið, með um 17 m falli. Nú er aðeins flúðin eftir, og getur enn orðið býsna tilkomumikil þegar mikið vatn er í fljótinu. (Glettingur 6 (2), 1996).

Vegna aðrennslis Jökulsár í Fljótsdal er Lagarfljót með jökulvatnslit allt til ósa. Samt er það mjög breytilegt að lit eftir árstíðum og veðri, grátt, grágrænt, blágrátt, jafnvel heiðblátt. Ekki er víst að það hafi alltaf verið svo. Hluti þess a.m.k. var fjörður á síðjökultíma, og á hlýskeiði fyrir um fimm þúsund árum, var Vatnajökull svo lítill að það gæti hafa verið tært. Gagnsæi er breytilegt eftir árstímum, minnst á vorin í vatnavöxtum, um ½ m, mest síðla vetrar, allt að 2,5 m.

Ytri og grynnri hluta fljótsins leggur vanalega í nóv.-des., en dýpsta hluta Lagarins sjaldan fyrr en í febr.-mars, og stundum ekki. Margar þversprungur myndast í Lagarísnum, heyrast oft miklar drunur þegar hann springur, og stundum rís ísinn meðfram þeim. Ísinn er fagurblár og tær þrátt fyrir gruggið í vatninu, en kólfar og verður þá grænn á vorin. Ísabrot er vanalega um mánaðamótin apríl-maí.

Þverár
Fljótsdalsárnar eru í beinu framhaldi af Lagarfljóti, en teljast þó ekki til þess í daglegu tali. Keldá fellur af Hraunum, um Suðurdal Fljótsdals, oftast blátær, enda kennd við keldur í merkingunni lindir, með miklum hyljum og fögrum fossaföllum í dalbotni, skemmtileg silungsveiðiá. Jökulsá kemur undan Eyjabakkajökli við rætur Snæfells, grá af jökulkorgi á sumrum, og fellur um Norðurdal Fljótsdals. Meðalrennsli er 27 m³/sek. Í henni er eitthvert mesta fossaval sem um getur í jökulsám hér á landi. (Glettingur 8 (1) og 8 (2-3), 1998).
Helstu þverár að austanverðu eru Gilsá, Grímsá og Eyvindará. Grímsá kemur úr Skriðdal. Í henni er Grímsárvirkjun, byggð 1956-58 við Grímsárfoss, sem þá var þurrkaður. Allar eru dragár og hafa mjög breytilegt rennsli. Nokkrar litlar þverár koma af Fljótsdalsheiði og falla í Jökulsá og Fljótið að vestanverðu.

Gasið
Frá örófi alda hafa þeir sem búa við Löginn orðið vitni að margs konar furðulegum fyrirbærum sem skrifuð hafa verið á reikning Ormsins mikla. Undarlegar vakir, sem loft bólar upp um, hafa lengi verið þekktar, og er getið í fornsögum.
Árið 1963 datt nokkrum Héraðsbúum í hug að safna gasinu og skoða hvers eðlis það væri. Tunnu var hvolft yfir eina vökina, og eldur borinn að stút á henni. Þar logaði glatt í nokkra stund. Gasið var efnagreint og reyndist vera næstum hreint metan (mýragas). Gasið myndast við starfsemi baktería í rotnandi jurtaleifum, sem huldar eru leir og leðju í botni fljótsins. Hluti þess safnast fyrir í botnleirnum og brýst stundum upp með offorsi, svo upp koma háir strókar af gasi og vatni, sem minna á hvalablástur, eða það rífur með sér flykki úr botninum og flytur upp á yfirborðið. Sumir fræðingar hafa talið að gasið kæmi neðan úr jarðskorpunni, ef til vill frá olíulindum. (Helgi Hallgrímsson í Týli 12. árg. 1982 og Halldór Ármannsson og Sigmundur Einarsson í Náttúrufr. 64, árg. 1995).

Lífríki
Lagarfljót er talið fremur næringarsnautt. Vegna hins mikla dýpis nær Lögurinn ekki að hlýna fyrr en langt er liðið á sumar. Hitastig fer sjaldan yfir 10 stig við yfirborð, og neðar er að jafnaði lægri hiti. Vegna gruggsins þrífast plöntur og svifgróður aðeins í efsta laginu (um 1-2 m), og þörungar vaxa mest við ströndina og þar sem grynnst er. Mestur hluti fljótsins er myrkheimur, þar sem aðeins ljósfælnar bakteríur og stærri dýr geta hafst við.
Lítið er vitað um efnamengun í Lagarfljóti, en ætla má að hún sé nokkur utan við þéttbýlið á Miðhéraði. Trúlega eykur hún næringarmagn fljótsins og er því að sumu leyti hagstæð fyrir lífverur, en ýmis varasöm efni fljóta að sjálfsögðu með.

Í Leginum og efri hluta fljótsins eru stofnar af bleikju (jafnvel tveir) og urriða, sem ganga að einhverju leyti í þverárnar. Silungsveiði hefur verið stunduð í fljótinu á öllum öldum byggðar, og hefur á tímabilum þótt allgóð, einkum utantil í Leginum, en er nú lítið nýtt. Sjósilungur og lax ganga upp að Lagarfossi, og er oft uppgripaveiði í þeim hluta fljótsins. Eitthvað er af hornsíli með löndum. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að koma laxi upp í efri hluta Lagarfljóts og þverár þess, en þær hafa ennþá borið lítinn árangur.

Í hinum sameiginlega ósi Lagarfljóts og Jöklu er töluvert af landsel, sem kæpir á eyrum í ánni, og selveiði hefur lengi verið stunduð frá bænum Húsey. Selurinn sést oft inn við Foss, og grunur er um að hann geti skriðið upp flúðina, þegar hún er vatnslítil.

Töluvert fuglalíf er á Lagarfljóti, einkum á neðri hluta þess. Grágæsir eru langmest áberandi, og skipta oft þúsundum. Hjá brúnni við Fellabæ sjást ýmsar endur, stundum í hópum, svo sem hávella, skúfönd, duggönd og stokkönd. Fuglalíf hefur farið vaxandi.

Menning og saga
Nafnið Lögurinn á sér merkilega sögu. Ætla mætti að það væri hið upprunalega nafn stöðuvatnsins, sem fljótið rennur frá og er kennt við, en svo er ekki. Það er líklega sótt í Heimskringlu og aðrar fornsögur, en þar er það notað um vatnið eða fjörðinn Mälaren í Svíþjóð, sem höfuðborgin Stokkhólmur stendur við. Elstu heimildir um Löginn í Lagarfljóti eru frá 1883, í ferðalýsingu Þorvaldar Thoroddsen í Andvara og bréfi Þorvarðar Kjerúlf læknis (Múlaþing 14, 1985), sem líklega er upphafsmaður þess. Nafnið hefur rómantíska tilvísun í ásatrú, því að Snorri segir í Ynglingasögu að Óðinn hafi valið sér bústað við Löginn í Svíþjóð, og gefið öðrum ásum þar óðul, þar á meðal Frey, sem bjó að Uppsölum. (Við Löginn á Héraði eru tvö örnefni kennd við Frey). Ekki er ljóst hver er upprunaleg merking orðsins Lagarfljót. (Glettingur 6 (2), 1996).

Halldór Kiljan Laxness orti eitt af sínum bestu og eftirminnilegustu kvæðum um Hallormsstað og Lagarfljót: “Floginn sem eingill austrá Fljótsdalshérað / er ángar ljúft við Fljótsins dreymnu ró / og aldrei hefur áður verið þérað: – á yður prófar hann sína nýju skó.” Austfirsku skáldin hafa kveðið margt um fljótið, allt frá Rönkufótsrímu Stefáns Ólafssonar á 17. öld, sem fjallar á gamansaman hátt um kvikindin í fljótinu, og fram til okkar tíma. Fljótið er líka snar þáttur í Snæfells-málverkum Steinþórs Eiríkssonar o.fl.

Að áliti Einars Pálssonar var Lagarfljót í upphafi helgað gyðjunni Gefjuni, sem Snorri segir að Gylfi Svíakóngur gæfi “plógsland… að launum skemmtunar sinnar. Hún plægði þá upp landsvæði ekki lítið og flutti út á Eyrarsund, en það heitir nú Sjáland”. Einar telur að Gefjun samsvari hinni fornegypsku gyðju Isis, sem “fæddist” í hinum miklu óshólmum (deltu) Nílar, og mikið var tignuð í Austurlöndum nær. Samkvæmt því hefur Gefjun verið snar þáttur í landnámi Fljótsdalshéraðs. Af nafni Isis telja sumir að nafnið Ísland sé dregið. (Einar Pálsson: Stefið. Rvík. 1980).

Ormurinn
Lagarfljótsormurinn er kunnastur allra vatnaskrímsla hérlendis. Hans er fyrst getið í annál frá miðri 14. öld, og síðan í fjölda heimilda á öllum öldum, einnig í erlendum ferðabókum, landlýsingum og í ritum um skrímslafræði, svo frægð hans nær langt út fyrir landsteina. Hann á margt sameiginlegt með frægustu vatnaskrímslum jarðar, svo sem Nessie í Loch Ness á Skotlandi. Þó hefur aldrei sést á honum haus né sporður, og því hafa sprottið upp sögur um að hann sé bundinn að framan og aftan, og áttu “Finnar” að hafa unnið það afrek að koma á hann böndum. (Þjóðsögur Jóns Árnasonar o.fl.)
Orminum hafa verið tileinkuð ýmis náttúrufyrirbæri, eins og fyrr var getið í sambandi við gasið, og reynt hefur verið að skýra tilveru hans á þeim forsendum, eða sem blábera hjátrú. Það hefur þó enn ekki gengið af orminum dauðum. Miklu fremur virðist trúin á tilveru hans sem yfirnáttúrlegs fyrirbæris hafa vaxið síðustu árin. Hann er eins konar tákn Héraðsins og verndarvættur, og prýðir merki fjölda félaga og fyrirtækja, hefur jafnvel komist inn í skjaldarmerki ríkisins í formi dreka. Flestir Héraðsbúar vilja hafa sinn orm, og telja sig hafa ýmsar sannanir fyrir tilveru hans. Mikilvægt er talið að umgangast hann með virðingu. (Skyggnt fólk hefur séð orminn í drekalíki yfir fljótinu). Auk ormsins er getið um tvær aðrar furðuskepnur í fljótinu, skötuna undan bænum Straumi, og selinn undir Lagarfossi.

Samgöngur og nýting
Íslaust er Lagarfljót mikill farartálmi, enda óvíða reitt nema á Úthéraði, þegar lítið vatn er í því, en þar voru nokkur vöð, svo sem Einhleypingsvað við Eyvindarárós, og Steinsvað innan við Lagarfoss.
Lögferjur voru á nokkrum stöðum. Aðalferjan var löngum við Ekkjufell. Hjá Straumi í Tungu var svokölluð svifferja, byggð um sama leyti, sú eina af því tagi hér á landi. Þrátt fyrir nafnið sveif hún ekki, heldur var þetta bátur, sem var festur við loftstreng, og togaður yfir með vindu. Svipuð ferja var á Jökulsá í Fljótsdal. Hún var kölluð straumferja, því að bátnum var skástillt með köðlum og straumurinn látinn knýja hana áfram. Á Jökulsá voru kláfar eins og á Jökulsá á Dal.

Laust eftir aldamótin 1900 var byggð þar 300 m löng timburbrú tekin í notkun 1905. Hún þótti á sínum tíma mikið undur, og var í marga áratugi langlengsta brú landsins.

Lagarfljót ísi lagt hefur verið mikil samgöngubót á öllum öldum. Segja má að þá hafi opnast breið og bein vetrarbraut um endilangt Hérað, sem hægt var að ferðast um á alls kyns farartækjum, á skautum, sleðum og jafnvel bílum. Í Fljótsdæla sögu eru skemmtilegar frásagnir af ferðum Droplaugarsona á fljótinu. Þessi braut var samt ekki hættulaus, og því hefur fljótið tekið hærri toll af mannslífum en flest önnur vatnsföll. Það krafðist sinna fórna. Þorvaldur faðir Droplaugarsona drukknaði í fljótinu, og sömuleiðis Droplaug kona Helga Ásbjarnarsonar.

Sama ár og Lagarfljótsbrúin var vígð (1905) hófust áætlunarferðir með vélbáti á Leginum, frá Egilsstöðum að Brekku. Þessi bátur var nefndur “Lagarfljótsormurinn”, og stofnað var samnefnt hlutafélag um rekstur hans. (Hlutabréfin voru með skrautlegri mynd af orminum). Þrátt fyrir nokkur “skipbrot” héldust þessar ferðir þar til vegur kom í Fljótsdal 1935. Nokkrum sinnum var reynt að endurvekja þær með litlum bátum. Árið 1999 hófust svo reglulegar ferðir að nýju, frá Egilsstöðum í Hallormsstað, með allstórum fljótabáti, sem nú ber nafn ormsins. Snemma á 20. öldinni voru gerðar tilraunir með vöruflutninga á bátum inn í Lagarfljótsós. Þær reyndust erfiðar og hættulegar og var því hætt. (Múlaþing 11, 1981).

Hin hefðbundna nýting Lagarfljóts í gegnum aldir hefur verið til silungsveiða og samgangna. Árið 1975 bættist við raforkuframleiðsla, þegar Lagarfossvirkjun var byggð. Virkjunin stórskemmdi fossinn í fljótinu, eins og fyrr greinir. Þá var áætlað að nota Löginn til miðlunar og hækka meðalvatnsborð allt að tveimur metrum. Af því tilefni fóru fram ýtarlegar mælingar og rannsóknir á lægsta landinu (nesjunum) við fljótið á árunum 1975-1977. Sæst var á um ½ m meðalhækkun á vatnsborði við Lagarfljótsbrú yfir veturinn. Út við virkjun getur sú hækkun hins vegar numið allt að tveimur metrum, og hefur hún leitt til nokkurs landbrots við fljótið, einkum á svæðinu þaðan og inn undir Egilsstaði. Skaðabætur hafa verið greiddar landeigendum (1987), en hér er úrbóta þörf, ef stöðva á landbrotið.

Vernd og vá
Lagarfljót er ekkert venjulegt vatnsfall, sama frá hvaða sjónarhorni er litið: náttúru, mannlífi eða menningu. Draga verður í efa, að nokkurt vatnsfall á Íslandi komist þar í samjöfnuð. Jafnvel má ólíklegt telja, að nokkurt samsvarandi vatnsfall sé til á jörðinni, þó það verði seint sannað. Verndargildi Lagarfljóts er því mjög mikið á landsmælikvarða og jafnvel á heimsmælikvarða. Fyrir Hérað og Héraðsbúa er það nánast eins og æðakerfið í mannslíkamanum. Verði Lagarfljóti spillt er allt lífkerfi þessa fagra héraðs í hættu, mannlíf og menning þar með talin.
Síðustu ár hefur ferðaiðjan skapað Lagarfljóti nýja ímynd, einkum með siglingum fljótsbátsins sem hófust 1999. Ljóst er að þessi þáttur á eftir að aukast verulega á næstu árum. Áætluð er lagning göngu- og hjólreiðabrautar umhverfis Löginn, og undirbúningur hafinn að kynningarátaki fyrir ferðamenn. Uppbygging fræðslustofu til kynningar á fljótinu og umhverfi þess er líka á dagskrá, útgáfa kynningarrita o.fl. Innan fárra áratuga verður umhverfi Lagarins orðið gróðri vafið, sem eykur enn á útivistargildi þess og fegurð.

Nú eru blikur á lofti eins og alkunnugt er. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið beita sér fyrir risavirkjun í Jökulsá á Dal, með stíflu við Kárahnjúka, og myndun jökulvatnslóns á stærð við Löginn. Frá þessu mikla lóni er áætlað að veita vatni Jöklu um jarðgöng austur í Norðurdal Fljótsdals, þar sem stöðvarhús yrði byggt fyrir 700 MW virkjun. Þaðan rynni vatnið í Jökulsá í Fljótsdal og með henni í Lagarfljót, sem myndi tvöfaldast að meðalrennsli við Lagarfoss.

Jökla er aurugsta jökulsá landsins, og þó að grófasti aurinn falli út í Hálslóni, er talið að gruggið í Lagarfljóti muni fjór- eða fimmfaldast við þessa breytingu, og gegnsæi vatnsins minnka um helming eða meira. Samkvæmt nýlegri tilraun með blöndun vatns úr Jöklu og Lagarfljóti myndi fljótið verða mun brúnleitara eftir samveituna. (Morgunbl. 1.3.01). Þá mun meðalhiti vatnsins lækka í Leginum að sumarlagi um hálfa til heila gráðu. Lífsskilyrði munu því að sjálfsögðu versna.

Til að forðast flóðahættu er talið nauðsynlegt að grafa rennu í farveg fljótsins utan við Lagarfljótsbrú og sprengja niður klapparhaft við Lagarfoss, sem heldur uppi núverandi vatnsborði ofan þess. Neðan við Lagarfoss gæti meðalhækkun orðið um ½ metri, og gæti þar einnig þurft að breikka farveginn og rétta úr honum, ella er hætta á miklu landbroti. Ströndin við Héraðsflóa mun eyðast um nokkur hundruð metra á næstu öld, og ósar fljótanna þar með breytast.

Hér er um stórkostlegt inngrip að ræða í náttúru Lagarfljóts og Jöklu og raunar alls Fljótsdalshéraðs, mun stærra í sniðum og víðtækara en áður hefur þekkst hér á landi. Vonandi sjá stjórnvöld að sér í tíma, og taka mark á niðurstöðum umhverfismats sem nýlega var kynnt. Annars gæti orðið hér eitt mesta umhverfisslys sem um getur í okkar heimshluta.

EFTIR HELGA HALLGRÍMSSON
Höfundur er líffræðingur og búsettur á Egilsstöðum.
Laugardaginn 18. ágúst, 2001 – Menningarblað/Lesbók

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0