Land og Saga 10. árg.

Land og Saga Magazine

Lesa allar greinar í blaði

Skoða PDF skrá

Lesa PDF á Issuu

 Staða Íslands og heimsmynd okkar hefur breyst óðfluga á síðustu árum samfara hraðri þróun í fjarskiptum og stöðugt betri samgöngum til og frá landinu.
Ísland er í dag orðið að eyju í alfaraleið. Tugir farþegaflugvéla lenda á landinu daglega eða taka þaðan á loft. Á sama tíma er fyrirsjáanlegt að hlutverk Íslands í heimsmálunum mun breytast samfara hlýnun jarðar þar sem heimskautaísinn hopar. Þetta býður upp á alls kyns krefjandi áskoranir. Á sama tíma opnast einnig ný tækifæri.
Ferðaþjónustan á Íslandi vex hröðum skrefum sem ný og blómstrandi atvinnugrein.
Norðurslóðir jarðar vekja áhuga stöðugt fleiri ferðalanga sem vilja kynna sér náttúruundur og fegurð þessara svæða. Um allt land er nú unnið að því að styrkja innviði ferðaþjónustunnar og byggja upp til framtíðar. Þarna bíður okkar spennandi framtíð. Mikilvægt er að rétt verði haldið á spilum ef vel á að takast til.
Á sama tíma vakna ríki heims til aukinnar vitundar um að breytingar eru að verða á norðurslóðum. Gríðarstór svæði sem áður voru flestum ókunn eru að opnast. Mörg ríki heims horfa til þess að krefjast yfirráðaréttar yfir auðlindum norðursins. Hættan eykst á að árekstrar verði í samskiptum þjóða. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, hefur á undanförnum árum unnið afrek með því að fá fulltrúa þjóða heims að
borðinu til að ræða um málefni norðurslóða svo vinna megi að stefnumótun til framtíðar í þeim efnum. Í þessari útgáfu af tímaritinu Landi og sögu horfum við bæði til ferðaþjónustunnar á Íslandi og til málefna norðurslóða, meðal annars með ítarlegu viðtali við hr. Ólaf Ragnar Grímsson.