Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, þáverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar, og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu samning um stofnun HydroKraft Invest hf. á blaðamannafundi 16. febrúar sl.

Landsbankinn markar sér stöðu á sviði endurnýjanlegrar orku

Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) spáir því að eftirspurn eftir orku í heiminum muni aukast um 50% næsta aldarfjórðunginn. Þetta mun gerast óháð viðleitni stjórnvalda til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda en stór hluti þeirra er tilkominn vegna brennslu jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu. Því virðist hækkun á raforkuverði í heiminum vera óhjákvæmileg í framtíðinni. Sú staðreynd, auk væntinga manna um lækkun kostnaðar við virkjun sjálfbærra orkulinda vegna tækniframfara, mun gera aðra virkjunarkosti en þá sem notaðir eru í dag enn fýsilegri.

Landsbankinn hefur, í ljósi þessarar  þróunar og væntingar markaðarins um mikinn vöxt fyrirtækja á sviði grænnar orkuvinnslu, markvisst unnið að því að marka sér stöðu í öllum helstu sviðum endurnýjanlegrar orku, þ.m.t. vindorku, vatnsorku, sólarorku, jarðvarma, lífmassaorku og framleiðslu lífdísels og etanóls.

Aðkoma Landsbankans að orkumálum
Halldór J. Kristjánsson

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir áhuga bankans á orkumálum alls ekki nýjan af nálinni. „Landsbankinn hefur um áratugaskeið veitt íslenskum orkufyrirtækjum almenna fjármálaþjónustu og jafnframt stutt við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda hérlendis, m.a. með lánsfjármögnun til iðnfyrirtækja sem nýta raforku sem framleidd er með nýtingu jarðvarma og orku fallvatna. Auk þess hefur Landsbankinn veitt verktökum og þjónustuaðilum stærri og smærri virkjana heildstæða fjármálaþjónustu,“ segir Halldór og bendir ennfremur á að bankinn hafi verið aðalfjármögnunaraðili margra smærri vatnsaflsvirkjana sem byggðar hafa verið á undanförnum árum eftir að löggjöf var rýmkuð og einkaaðilum gert hægara um vik um byggingu og rekstur virkjana.

Stuðningur við menntun

Nýverið kom Landsbankinn að stofnun RES orkuskóla á Akureyri, en þeim skóla er ætlað að vera alþjóðlegt kennslu- og fræðasetur á sviði nýtingar endurnýjanlegrar orku. „Með þátttöku í því merkilega frumkvæði sem þar er faglega og myndarlega staðið að, vill Landsbankinn tryggja nauðsynlega nýliðun í hópi sérfræðinga á sviði endurnýjanlegrar orku og stuðla að samstarfi ólíkra fyrirtækja í greininni. Þetta tvennt er mikilvægt fyrir framtíð og framþróun greinarinnar,“ segir Halldór.

Innan samstæðu Landsbankans er að finna mikla þekkingu á evrópskum fyrirtækjum sem sérhæfa sig í endurnýjanlegri orku. Sem dæmi má nefna að verðbréfafyrirtækin Merrion Capital, Teather & Greenwood og Kepler Equities, sem öll tilheyra Landsbankasamstæðunni, greina samtals yfir 30 af stærstu fyrirtækjum Evrópu á sviði endurnýanlegrar orku s.s. sólarorku, vindorku og biomassa. Markaðsvirði orkufyrirtækjanna er frá 100 milljónum evra  til 7 milljarða evra og verðbréfafyrirtækin veita þeim mjög sérhæfða þjónustu; allt frá aðstoð við fjármögnun sprotafyrirtækja til skráningar á verðbréfamarkaði.

Útrás í orkumálum

„Landsbankinn hefur um nokkurt skeið skoðað beinar fjárfestingar í orkuverkefnum erlendis og kom nýlega að stofnun Blåfall Energy,“ segir Halldór en Blåfall Energy er félag stofnað um fjárfestingu í smávirkjunum í Noregi. „Þar er um að ræða áhugavert fjárfestingartækifæri vegna hagkvæmra virkjunarkosta, hækkandi orkuverðs og sveigjanleika á orkumarkaði. Heildar fjárfestingargeta félagsins er um 130 milljónir evra og Landsbankinn á nú ríflega 25% hlutafjár á móti alþjóðlegum fjárfestum,“ segir Halldór.

Landsbankinn stofnaði nýverið útrásarfyrirtækið HydroKraft Invest hf. í samvinnu við Landsvirkjun og lagði hvor aðili til tvo milljarða króna í hlutafé eða 4 milljarða samtals. „HydroKraft Invest er orkueftirspurnar á mjög hagkvæman hátt og aukið þannig tekjur virkjunarinnar.“ ætlað að fjárfesta í orkuverkefnum erlendis sem byggja á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, einkum vatnsafls. Til að byrja með mun félagið reyna fyrir sér með fjárfestingar í Austur-Evrópu en aðrir markaðir verða einnig til skoðunar,“ segir Halldór.

Stjórnendur Landsbankans telja samstarf fjármálafyrirtækja og orkufyrirtækja afar heppilegt form á útrás á sviði orkumála. Í því sambandi vill Halldór undirstrika mikilvægi sterks heimamarkaðar sem íslensku útrásarfyrirtækin byggja á og þar séu orkufyrirtækin ekki undanskilin. „Útrásarfyrirtækin byggðu í upphafi á sérþekkingu sem aflað var á heimamarkaði. Kröfuharður heimamarkaður á Íslandi skapar öflug fyrirtæki, fjárhagslega, tæknilega og rekstrarlega, og byggir að auki undir alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækjanna,“ segir Halldór og leggur áherslu á að sömu sjónarmið eigi við um útrás orkufyrirtækja.

Land og saga 1 tbl. 2007- orkublað – fléttið því hér að neðan:
https://issuu.com/icelandictimes8/docs/ls_io_1-1_2007