Kynningarkvöld: Landvernd og Ferðaklúbburinn 4×4
Fimmtudag 13. september kl. 20.00 í Hafnarhúsi
Kynningarkvöld með Landvernd og Ferðaklúbbnum 4×4 í tengslum við sýninguna Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? sem stendur nú yfir í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum.

Ókeypis aðgangur.

Um Landvernd
Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Hlutverk Landverndar er að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir og umhverfi.

Samtökin líta svo á að náttúru- og umhverfisvernd, sem og endurreisn spilltra náttúrugæða, séu forsenda efnahagslegrar og samfélagslegrar velferðar til lengri tíma litið. Þau hvetja til sjálfbærrar umgengni þjóðarinnar við náttúruna heima við og á hnattræna vísu, sem byggir á öflugri umhverfisvitund, þekkingu og verndarvilja.

Innan Landverndar eru 40 aðildarfélög um allt land en auk þess eru rúmlega 5000 manns skráðir sem einstaklingsfélagar. Samtökin reka fjölmörg fræðsluverkefni en þar ber hæst Grænfánann, Bláfánann, landgræðsluverkefni með skólum á Suðurlandi, verkefni um náttúruvernd á jarðhitasvæðum o.fl. Samtökin voru stofnuð 1969.

Páll Ásgeir Ásgeirsson, stjórnarmaður í Landvernd, mun sýna ljósmyndir og tala um upplifun fólks af náttúru og útivist á okkar tímum og stöðu náttúruverndar og þar verður lýst starfi Landverndar.

Um Ferðaklúbbinn 4×4
Ferðaklúbburinn 4×4 fagnar 35 ára afmæli sínu í ár en þeirra helsta hagsmunamál er ferðafrelsi með ábyrgri ferðamennsku.

Markmið Ferðaklúbbsins 4×4:
• Að standa vörð um ferðafrelsi.
• Að ná til sem flestra sem áhuga hafa á ferðalögum um landið á fjórhjóladrifsbifreiðum.
• Að stuðla að náttúruvernd og sjálfbærri ferðamennsku um náttúru Íslands.
• Að gæta hagsmuna félagsmanna varðandi búnað fjórhjóladrifsbifreiða og annað er lýtur að fjórhjóladrifsbifreiðum og ferðalögum í samráði við viðkomandi yfirvöld.
• Að efla þekkingu félagsmanna á öllu því er við kemur útbúnaði fjórhjóladrifsbifreiða og ferðalögum um byggðir og óbyggðir landsins.