Mælifell á Mælifellssandi

Mælifell á Mælifellssandi er á miðri mynd. Mælifell er gott kennileiti og sést víða að. Rétt við fellið er kvísl sem heitir Brennivínskvísl. Nafn hennar þykir ærið nóg tilefni til að snafsa sig rækilega á meðan lúin bein eru hvíld fyrir áframhaldandi ferðalag. Um nafn kvíslarinnar segir að Þorlákur biskup hafi átt þar leið um með föruneyti. Þegar komið var að kvíslinni fóru menn af baki en Þorlákur hafi þá tekið upp lítinn pela með brennivíni og sagt: „Þið sjáið það, piltar, að ekki drepur vínið okkur á fjallinu.“ Drukku þeir svo allir úr pelanum. Mælifellssandur er talinn illur yfirferðar fyrri hluta sumars sökum bleytu og er varla fær fyrr en um miðja júlímánuð. Ég var þarna á ferð með vinum mínum í afar góðu veðri og færðin hin ákjósanlegasta. Við létum okkur þó nægja kaffi sopi og skemmtilegt spjall þegar við komum að Brennivínskvísl.  Ljósmynd og texti: Steini Píp

Related Posts