• Íslenska

Sýningaropnun: Rúmelsi #3: STREYMI, Ekkisens í Nýló 14. desember kl. 20

Rúmelsi #3: STREYMI, Ekkisens í Nýló

„Að iðka list sem galdur“
Sýningaropnun í Nýlistasafninu

-fjölvíddir og fjölkynngi
-andlegt dópamín karaókí
-að eignast upphaf eftir endi
-trommutaktur sem kveikir líf í skúlptúrum
-svitahof og hringleikhús, að deila gleði og sorgum í samsetu

Sýningin stendur yfir 14. – 16. desember.

Seiðlistakonurnar Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Freyja Eilíf, Heiðrún Viktorsdóttir, Sigthora Odins opna sýninguna STREYMI í Nýlistasafninu, föstudaginn 14. desember 20:00 – 22:00. Sýningin er partur af sýningaröð safnsins „Rúmelsi“ þar sem áhersla er lögð á frumkvæði listamanna, en STREYMI er sýningarverkefni Ekkisens í safninu.

Stream-spirit-puddle-power er óformlegt heiti á kollektífi myndlistarkvennanna sem hafa streymt saman í lífi og starfi frá árinu 2016. Listrænar rannsóknir þeirra eru fasafléttur sem leiða saman snúrur úr heimum myndlistar, frumefna, fjölvíddar og fjölkynngis. Í gegnum sýningarstörf í Ekkisens lá leið hópsins í Streymi saman og úr varð seiðsystrateymi sem nú hefur spannað af sér tveggja ára samtal.

STREYMI er rúmelsi, sem á sér stað í vernduðu millirými, hlöðnu upp með gerningarverkum sem kynna starfsemi Ekkisens á huglægan hátt. Fyrir rúmelsið hafa seiðsysturnar Freyja Eilíf, Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Heiðrún Viktorsdóttir og Sigthora Odins tengt saman rásir sínar og dregið upp hring. Rúmelsið þeirra er almynd úr orkumynstri og þráðum sem eru spunnir úr samstilltu hugðarefni.

Um verk myndlistarkvennanna á sýningunni:

Andrea Ágústa sýnir skúlptúra sem unnir eru og hlaðnir sem líffæri sem mun bera af sér líf. Verkið fjallar um að vekja það sem býr innra. Hún notar skinntrommu til að finna frumstæðan takt, sem er eins og andardrátturinn í því sem vekur lífið og því sem mun bera lífið. Taktur sem slær endalaust.

Freyja Eilíf býður gestum til sætis í kringum gæludýrasníkilinn sinn er hann brennur niður, bráðnar og lekur um lífræna og hringlaga brautarteikningu. Athöfnin er þátttökuverk sem byggt er á því að eignast upphaf eftir endi, heilunarmátt samsetunnar og vægi þess að deilaupplifunum, gleði og sársauka með öðrum. Innsetningin er innblásin af byggingarlist svitahofa og hringleikhúsa.

Heiðrún vinnur með frumkraft kvenlíkamans í tengslum við nútíma gyðjufræði. Gerningur hennar snýst um að fara aftur í líkamann, ná valdi yfir honum og skapa rými fyrir hvatirnar og kveneðlið innra með sér og koma frumkrafti konunnar á framfæri.

Sigríður Þóra fremur gjörninginn „The Program“ sem má lýsa sem eins konar andlegu dópamín karaókí. Verkið fjallar um það hvernig maður prógrammerar sjálfan sig í leit að svörum á nýmiðlaöld þar sem ofgnótt er af upplýsingum. Pógrammið felst í því að taka allt inn og djúsa sig upp af andlegu dópamíni.

Nánari upplýsingar og myndefni gefur Freyja Eilíf í síma 6925114