Nýlistasafnið býður ykkur velkomin á fyrstu sýningu safnsins á árinu í Breiðholti – BOEKIE WOEKIE 30 ár – Books – And More – By Artists.
Opnun sýningarinnar er laugardaginn 9. janúar milli kl. 16:00 – 18:00 að Völvufelli 13-21, 111 Reykjavík.
Kaflar úr Sjaldheyrð tónlist (Selten Gehörte Musik) seríunni eftir Dieter Roth verða fluttir á opnuninni. Músíkin var upphaflega spunnin á sjöunda áratugnum af Dieter og vinum hans. Nú hefur Gunnar Gunnsteinsson tónskáld skrifað nótur fyrir nokkra hluta sem verða fluttir af einkar færum tónlistamönnum.
Boekie Woekie er listamannarekin bókabúð og útgáfufélag í Amsterdam og einn helsti vettvangur bókverka í Evrópu og þó víðar væri leitað. Í tilefni af þrítugasta starfsári Boekie Woekie bauð Nýlistasafnið aðstandendum þess að setja upp sýningu í safninu sem tæki á sögu og starfsemi bókabúðarinnar. Á sýningunni verða verk eftir núverandi aðstandendur Boekie Woekie, þau Henriëtte van Egten, Rúnu Thorkelsdóttur, Jan Voss, Hrafnhildi Helgadóttur & Brynjar Helgason.
 
Um Boekie Woekie
Í janúar árið 1986 hóf bókverkabúðin Boekie Woekie starfsemi í litlu plássi í miðbæ Amsterdam. Búðin var fyrst um sinn í umsjón sex listamanna sem lögðu upp með að stofna verslun fyrir eigin útgáfur. Stofnendur voru Pétur Magnússon, Saskia de Vriendt, Jan Voss, Kees Visser, Rúna Þorkelsdóttir og Henriette van Egten. Listamennirnir komu frá Íslandi, Hollandi og Þýskalandi en áttu það sameiginlegt að starfa sem myndlistarmenn í Amsterdam. Eftir fyrstu 5 árin urðu breytingar á mannskapnum og með þrjá af upprunalegu stofnendum enn við störf, hóf Boekie Woekie seinni áfanga sinn í talsvert stærra rými handan við hornið – Berenstraat 16. Við flutningana ákváðu umsjónaraðilar búðarinnar einnig að sýna og selja verk eftir fleiri listamenn í nýja rýminu.
 
Boekie Woekie skipa í dag Henriette van Egten (Holland), Rúna Þorkelsdóttir (Ísland) og Jan Voss (Þýskaland), en þau hafa unnið ötullega að eigin list ásamt því að sjá um Boekie Woekie í um 30 ára skeið. Að eigin sögn hafa þau ætíð litið á bókabúðina sem lifandi og síbreytilegan skúlptúr og í raun er hún listaverk í sjálfu sér. Fleiri Íslendingar hafa komið að umsjón búðarinnar og ber þar helst að nefna Hrafnhildi Helgadóttur og Brynjar Helgason.

 Boekie WoekieJan Voss, mynd tekin í Boekie Woekie
 
Boekie Woekie hefur einnig starfrækt lítið sýningarrými frá upphafi og sýnt og gefið út efni eftir listamenn á öllum stigum starfsferil síns. Aðstandendur rýmisins hafa staðið að linnulausri útgáfustarfsemi, gefið út um 3 – 4 nýja titla á ári, sem leitt hefur til árlegrar þátttöku í bókamessum í Frankfurt, London, New York og Berlín svo dæmi séu tekin.
 
Í dag eru yfir 7.000 titlar í búðinni – næstum eingöngu sjálfútgefið efni eða smærri útgáfur.
 
Boekie Woekie býr að rótgrónum tengslum við íslenska listasenu, spratt úr ekki ólíkum jarðvegi og Nýló og segja má að ákveðinn samhljómur sé á milli tilveru þeirra. Bæði Nýlistasafnið og Boekie Woekie eru stofnuð og rekin af listamönnum og hafa hvort um sig verið mótandi afl innan myndlistarinnar með því að vera vettvangur fyrir sýningar yngri jafnt sem eldri kynslóðar listamanna. Nokkrir aðstandendur búðarinnar komu einnig að stofnun safnsins og í safneign þess eru til tugir bókverka sem gefin eru út af Boekie Woekie.
 
Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband við aðstandendur Boekie Woekie;
Jan Voss – 857-6753
Rúna Þorkelsdóttir – 661-7211
og Nýlistasafnið:
Þorgerður Ólafsdóttir, formaður – 6916552, [email protected]
Edda Kristín, framkvæmdarstjóri – 551-4350, [email protected]
 
Opnunartímar Nýló í Breiðholti eru:
þri – fös milli kl. 12-17
lau – sun milli 13 – 17

Aðgangur ókeypis