Safn Ásgríms Jónssonar
BERGSTAÐASTRÆTI 74, 101 REYKJAVÍK

Ásgrímur Jónsson (1876-1958) er einn brautryðjenda íslenskrar myndlistar og varð fyrstur íslenskra málara til að gera myndlistina að aðalstarfi. Ásgrímur fæddist 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Árið 1897 hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann 1900-1903. Ásgrímur dvaldist ytra til ársins 1909, en síðasta árið hafði hann vetursetu á Ítalíu. Á leið sinni til og frá Ítalíu kom hann við í Berlín og Weimar í Þýskalandi og sá m.a. verk frönsku impressjónistanna sem höfðu djúp áhrif á hann.

asgrimssafn-1Íslensk náttúra var frá upphafi aðalviðfangsefni Ásgríms og með starfi sínu lagði hann grunninn að íslenskri landslagslist. Sýn hans á náttúruna var mótuð af rómantík 19. aldar og henni var hann trúr, þótt áherslur og vinnuaðferðir breyttust á hartnær 60 ára listamannsferli. Ásgrímur vann enn fremur brautryðjandastarf við myndskreytingar íslenskra þjóðsagna og ævintýra og er einn mikilvirkasti þjóðsagnateiknari Íslendinga.

Ásgrímur málaði í náttúrunni og lagði sig sérstaklega eftir að túlka birtu landsins. Hann málaði jöfnum höndum með vatnslitum og olíulitum og skipar sérstakan sess í íslenskri myndlist sem vatnslitamálari. Framan af var hann natúralismanum trúr, en laust fyrir 1930 fór áhrifa impressjónismans að gæta í verkum hans. Eftir 1940 urðu vinnubrögðin sjálfsprottnari en áður og verkin einkenndust af litsterkum asgrimssafna 2usgmssafn-1expressjónisma.

Ásgrímur Jónsson lést árið 1958 og ánafnaði íslensku þjóðinni öll eftirlátin listaverk sín ásamt húseign að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík. Árið 1960 var Ásgrímssafn opnað í húsi hans. Árið 1987, þegar Listasafn Íslands fluttist í eigið húsnæði, var safn Ásgríms sameinað Listasafninu samkvæmt ákvæðum í erfðaskrá hans. Safn Ásgríms Jónssonar nú sérstök deild í Listasafni Íslands.

Listasafn Íslands, Fríkirkjuvegi 7, 101 Reykjavík | Sími 515-9600