Safnið er skóli

Þrjár sýningar verða opnaðar föstudaginn 15. janúar kl. 20 í Hafnarhúsinu

Á annan tug listamanna eiga verk á þremur sýningum sem verða opnaðar í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi föstudaginn 15. janúar kl. 20. Þetta er samsýningin Aftur í sandkassann, einkasýning þýsku listakonunnar Moniku Grzymala sem nefnist Hugboð og sýningin ÁVÖXTUN % á verkum Sæmundar Þórs Helgasonar í D-sal Hafnarhússins. Viðfangsefni sýninganna eru margvísleg, allt frá því að skoða tengsl listar og róttækra kennsluaðferða til þess að kanna hlutverk lista í markaðsvæddum heimi nútímans. Listamaðurinn  Michael Joaquin Grey sem tekur þátt í sýningunni Aftur í sandkassann fremur táknrænan gjörning á Þingvöllum á opnunardegi sýningarinnar  kl. 11.45. Gjörningurinn nefnist Þúsund sítrustré á Þingvöllum.

Á samsýningunni Aftur í sandkassann: Listir og róttækar kennsluaðferðir hefur sýningarstjórinn, Jaroslav Anděl (f. 1949), valið verk samtímalistamanna sem spyrja spurninga um eðli og hlutverk menntunar og líta jafnframt á sköpun sem lykilþátt í samfélaginu. Verk listamanna á borð við Michael Joaquin Grey, Ane Hjort Guttu og Priscila Fernandes mynda nokkurskonar kjarna sýningarinnar ásamt verki Luis Camnitzer sem teygir sig út fyrir veggi safnsins. Þar að auki eru á sýningunni verk eftir Jim Duignan, Markus Kayser, James Mollison, Evu Koťátková, Calvin Seibert og listahópinn The Society for a Merrier Present. Í tengslum við sýninguna fer fram metnaðarfull fræðslu – og viðburðadagskrá fyrir almenning og  fagfólk á sviði menntamála. Dagskráin hefst í Hafnarhúsinu laugardaginn 16. janúar kl. 15 með umræðum sýningarstjóra og listamanna sýningarinnar um listir og róttækar kennsluaðferðir. Þá mun Biophilia menntaverkefnið halda smiðjur meðan á sýningunni stendur.

Þýska listakonan Monika Grzymala nefnir sýningu sína í A-sal Hafnarhússins Hugboð. Þar mætast á einstæðan hátt listrænt inngrip í arkitektúr safnsins og teikning eða umfangsmikið línuspil sem unnið er úr lituðu límbandi. Grzymala lýsir verkum sínum sem rýmisteikningum en hún hefur þróað einstaka aðferð við að vinna þrívíðar teikningar. Til verksins nýtir hún marga kílómetra af límbandi sem hún teygir um rýmið. Monika Grzymala fæddist í Póllandi árið 1970 en hefur frá barnsaldri búið í Þýskalandi. Hún hefur undanfarinn áratug vakið athygli fyrir rýmisteikningar sínar. Verk hennar hafa verið sýnd í virtum sýningasölum beggja vegna Atlantshafs þar á meðal í MOMA í New York, í Judd Foundation í Marfa í Texas og Theseus Temle í Vínarborg.

Sæmundur Þór Helgason (f.1986) er fyrsti listamaðurinn til að sýna í D-salnum árið 2016 en salurinn er vettvangur yngri listamanna.  Sýningin nefnist ÁVÖXTUN % en þar fæst hann við hlutverk og skilyrði myndlistarinnar í tækni- og markaðsvæddum heimi nútímans. Sæmundur Þór býr og starfar í London þar sem sem hann lauk MA gráðu í myndlist frá Goldsmiths háskólanum árið 2015. Hann lauk BA gráðu úr Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2012.  Sæmundur tók þátt í sýningum í París og London á síðasta ári og var einn þátttakenda á sýningunni ‘#KOMASVO’ í Listasafni ASÍ (2015). Síðasta einkasýning Sæmundar Þórs hér á landi var í Kunstschlager árið 2013.