Fjallskil – Einkasýning Gísla B. Björnssonar

Gallerí Fold kynnir einkasýningu Gísla B. Björnssonar sem opnar laugardaginn 6. mars n.k. kl. 14:00.
„Eigendur fjár, mest bændur fara á fjall og leita … leita fjár til að koma því til byggða en trúlega um leið sjá þeir og skynja umhverfi sitt sem er oftast markað fjöllum og miklu landslagi. Þeim bar skylda til að taka þátt í þessum fjallferðum. Urðu að standa sín fjallskil.
Mitt líf hefur að hluta til verið að ferðast um fjöll og firnindi. Ferðast víða. Ég hef farið í áratugi um landið, mest á hestum. Þetta markar klárlega mína myndsköpun. Form hinna ýmsu fjalla láta mig ekki í friði.“
Gísli Baldvin Björnsson er fæddur árið 1938 og uppalinn í Reykjavík. Hann er án efa einn þekktasti grafíski hönnuður sinnar kynslóðar og hefur komið að mörgum vel þekktum merkjum fyrirtækja í gegnum árin. Síðustu ár hefur hann aðallega einbeitt sér að myndlistinni þar sem náttúra Íslands er honum hugleikinn efnisviður. Gísli er mikið náttúrubarn og hefur ferðast mikið um hálendið á hestum sem rata gjarna í verk hans. Margbreytileiki í landslagi, formi fjalla, svartir sandar og marglitar ár og skógar með öllum sínum tónum eru hans yrkisefni. „Ég sé og verð fyrir áhrifum á þeim og að koma þessu frá mér eru mín fjallskil,“ segir listamaðurinn.

Sýningin stendur til 20. mars og er opin á opnunartíma gallerísins. Við minnum á að grímuskylda er í galleríinu og að gestum ber að virða tveggja metra nálægðarmörk.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0