Hafnarborg – Sýningarstjóraspjall

Hafnarborg
Landslag fyrir útvalda – sýningarstjóraspjall
Sunnudaginn 5. nóvember kl. 14

Sunnudaginn 5. nóvember kl. 14 bjóðum við ykkur velkomin á sýningarstjóraspjall um haustsýningu Hafnarborgar, Landslag fyrir útvalda, ásamt Evu Lín Vilhjálmsdóttur og Oddu Júlíu Snorradóttur.

Á sýningunni er lagt upp með að kanna myndmál og möguleika veruleikaflótta. Þá búum við í heimi öfgafullra yfirvofandi breytinga, þar sem samfélagið kallar í síauknum mæli eftir því að einstaklingar beri ábyrgð á hnattrænum vandamálum. Að leita á vit flóttans er því orðinn stór hluti hversdagsleikans, enda þótt veruleikaflóttinn hafi fylgt okkur um aldanna rás og birtingarmyndir hans endurspegli jafnan það ástand sem ætlunin er að flýja.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir (f. 1995) útskrifaðist með BA í heimspeki frá Háskóla Íslands og MA í heimspeki með áherslu á listheimspeki frá King’s College London. Um þessar mundir starfar hún sem samskiptafulltrúi hjá i8 gallerí ásamt því að vinna sjálfstæð verkefni. Eva Lín hefur skrifað um list og tekið viðtöl við listamenn fyrir ýmis tímarit og heldur áfram að þróa eigin listheimspekiiðkun í gegnum verkefni sín. Með því að nálgast listheiminn frá heimspekilegu sjónarhorni leggur hún áherslu á gagnrýna nálgun á samtímalist og skoðar félagslega umgjörð hennar innar sjónmenningar.

Odda Júlía Snorradóttir (f. 1997) útskrifaðist með MA í sýningargerð frá Háskóla Íslands árið 2023. Hún hefur einnig lokið BA-gráðu í listfræði og viðbótardiplómu í hagnýtri menningarmiðlun frá sama skóla. Hún starfar nú tímabundið sem safneignarfulltrúi Nýlistasafnsins ásamt því að vera sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og textahöfundur. Undanfarið hefur hún lagt áherslu á að kanna möguleika ímyndaðra heima til að hafa áhrif á það umhverfi sem við hrærumst í og þekkjum sem raunveruleikann: að skapa heima sem eru bæði tengdir og aðskildir okkar, kunnuglegir og framandi í senn, og neyða okkur þar með til að samræma mótsagnakenndar hugmyndir okkar um veruleikann.

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Arna Beth, Fritz Hendrik IV, Margrét Helga Sesseljudóttir, Sól Hansdóttir, Vikram Pradhan, Bíbí Söring og Þrándur Jóhannsson, auk þess sem sýnd eru verk eftir Eirík Smith, Patrick Huse og Sigrid Valtingojer úr safneign Hafnarborgar og Listasafns ASÍ.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0