i8 Gallerí – Á milli glugga og hurðar

Á milli glugga og hurðar
Renee Gladman, Iman Issa, Christine Sun Kim, Tania Pérez Córdova & Iris Touliatou
i8 gallerí, Tryggvagata 16
21. september – 4. nóvember 2023
opnun fimmtudaginn 21. september frá kl. 17-19

i8 gallerí býður ykkur velkomin á opnun sýningarinnar Á milli glugga og hurðar, hópsýningar fimm listakvenna sem nýta tungumál sem kveikju og efni verka sinna. Sýningin leggur áherslu á myndgert mál, þar sem verk eftir Renee Gladman, Iman Issa, Christine Sun Kim, Tania Pérez Córdova, og Iris Touliatou munu tengja saman ýmsar nálganir á munnlegum, skriflegum, teiknuðum og óhefðbundnum leiðum til að tjá texta. Sérhvert verk rannsakar notagildi, getur og formgerðir sem flokka, viðhalda og móta upplýsingar.

Bæði hurðir og hliðstæður þeirra gluggar eru birtingarmyndir þeirra lifandi þarfa sem til staðar eru innan arkitektúrs. Fyrst og fremst þurfa íbúar manngerðra umhverfa líkamlegt aðgengi til að færa sig inn og út úr rýmum. Auk nauðsynlegra útgönguleiða þurfum við einnig að geta séð út fyrir rými sem við finnum okkur í, hvort sem við erum þar fyrir örvun eða vernd. Gluggar hleypa ljósi og upplýsingum inn án þess að þörf sé á að fara alla leið út. Þessir eiginleikar bygginga virka fyrir okkur á heimilum okkar, skrifstofum og byggingum sem við heimsækjum til dægrastyttingar–en þeir verka einnig á okkur og seytla inn í okkar skynræna innra líf. Hurðir og gluggar gegna oft hlutverki táknmynda fyrir líkama, huga og upplifanir. Þar sem er fjarlægð, endurspeglun og úrvinnsla, er hliðstæður gluggi hugrænna mynda og ímyndanna. Þar sem er gjörð, gefin til kynna af hreyfingu og breytingu, er myndræn hurð sem leggur til möguleg kynni, og raunverulega, líkamlega virkni.

Tungumál – skrifað, talað, með táknmáli, með látbragði – hefur getuna til að vera bæði mynd og efni; minning og gjörð; gluggi og hurð. Tungumál er verkfæri sem getur tjáð upplýsingar, myndir og hvatt til athafna. Hér snýst spurningin um ‘er’ eða ‘sem’ ekki um myndhverfingu og samlíkingu heldur um gjörð og nútíð, eða um frásögn og óskilgreinda túlkun. Oft skarast hættir og tíðir samskipta á að einhverju leyti. Sér í lagi þegar skilaboðunum er komið áleiðis, þá getur innihaldið orðið torskilið eða ollið misskilning – viljandi eða ekki. Orð geta vísað leið og verið misvísandi samtímis. Hversu vel treystiru sögumanninum? Á ég í sök? Þegar tungumálið er notað með myndrænu sniði eins og í teikningu, skúlptúr eða leiðbeiningum hugverka, þá finnum við okkur í millibilsástandi. Þetta þýðir að vera bæði og hvorugt samtímis. Þetta þýðir að vera í millibilinu. Þetta þýðir að vera í kyrrstöðu og fara á hreyfingu, breytast úr nafnorði í sagnorð. Hugsanir, hugmyndir og gögn eru miðluð í gegnum þýðingu, umbreytt efni, ummynduð látbrögð. Bæði sem og er. Gæti verið til eitthvað nýtt kerfi fyrir samskipti–eitthvað sem er á milli hurðar og glugga? Lekandi ílát, huglæg heimild, óljóst látbragð, bugðótt leiðsla, ósamræmd atriðaskrá, smávægileg fyrirstaða, tvíhliða verkfæri. Týndi ég staðnum mínum? Er þetta hann?
– B. Ingrid Olson

Renee Gladman er rithöfundur og listamaður sem er skoðar birtingarmyndir skurðpunkta, þröskulda og landafræði þegar ljóðlist, prósi, teikning og arkitektúr mætast. Gladman vinnur fyrst og fremst á pappír og notar teikniflötinn sem tilraunastofu í mótun til að rannsaka svartleika, það sem ekki er sýnilegt, búsetukerfi og skáldaða þekkingu. Teikningar Gladman hafa nýlega verið sýndar á einkasýningum í Artist’s Space í New York (2023) og í Zilkha Gallery í Wesleyan University í Connecticut (2022). Gladman (f. 1971, Bandaríkin) býr og starfar í New York, Bandaríkjunum.

Iman Issa leggur áherslu á þau kerfi sem stjórna því hvernig við skynjum og framleiðum merkingu. Issa notar hefðbundnar safnafræðilegar útstillingar eins og glerskápa, stöpla, sýningartexta, veggmerkingar og vinylstafi til að skapa umgjarðir fyrir hluti og frásagnir sem eru utan staðar og tíma. Til nýlegra einkasýninga á verkum Issa má telja Taxispalais Kunsthalle Tirol í Innsbruck í Austurríki (2021), Kunstmuseum St. Gallen í Sviss (2019) og daadgaleri í Berlín, Þýskalandi (2019). Issa (f. 1979, Egyptaland) býr og starfar á milli Berlínar og Parísar.

Christine Sun Kim (f. 1980) er bandarísk listakona sem býr og starfar í Berlín. Í myndlist sinni hugleiðir Kim hvernig hljóð virkar í samfélaginu, með því að afbyggja pólitík hljóðs, og skoðar hvernig munnleg tungumál virka sem félagslegur gjaldmiðill. Nótur, ritað mál, skýringarmyndir, Bandarískt táknmál (ASL), notkun líkamans og kæn kímni eru endurtekin stef í verkum hennar. Með því að vinna þvert á teikningu, gjörninga, vídeó og stórar veggmyndir skoðar Kim samband sitt við talað mál og táknmál, við manngerð og félagsleg umhverfi og við heiminn. Verk og gjörningar eftir Kim hafa verið sýnd víða um allan heim. Nýlegar einkasýningar hennar hafa verið haldnar í The Art Institute of Chicago, Illinois, (2023); Vienna Secession, Austurríki (2023); og Haus der Kunst, Munchen, Þýskalandi (2022).

Tania Pérez Córdova (f. 1979, Mexíkó) notar tungumálið til að staðsetja sérhvert verk, skúlptúra, ljósmyndir, fundna hluti og gjörninga innan stærri sögu og fórnar þar með sjálfstæði efnislegra hluta fyrir ómissandi hlutverki þeirra innan tengslanets. Hún hugsar um miðla með óhlutbundnum hætti og vefur gjörðir of aðstæður saman eins og að þær væru efnislegir hlutir. Einkasýning Pérez Córdova er til sýnis í SculptureCenter, New York. Til annarra nýlegra einkasýninga má telja Tamayo, Mexíkó borg, Mexíkó (2022) og í Kunsthalle Basel, Sviss (2018).

Iris Touliatou vinnur þvert á ýmsar greinar sem nauðsynlegar eru til að skapa sérhvert verk. Skúlptúrar, teikning, hljóð, lykt og tungumál, skapa sameiginlegar upplifanir til þess að vekja athygli á og ræða vinnuframlag, hrifmiðuð efnahagskerfi og ástand verunnar. Touliatou hefur nýverið haldið einkasýningar í Kunsthalle Basel, Sviss (2023); fluent, Santander, Spáni (2023); Grazer Kunstverein, Graz, Austurríki (2022). Touliatou (f. 1981, Grikkland) býr of starfar í Aþenu.

Frekari upplýsingar veitir Dorothea Halldórsdóttir í síma 551 3666 eða [email protected]

RELATED LOCAL SERVICES