Hljóðön – sýningarstjóraspjall og BLÓÐSÓL III

Hljóðön – sýningarlok, sýningarstjóraspjall og BLÓÐSÓL III

Sunnudaginn 3. mars

Sunnudaginn 3. mars eru síðustu forvöð að sjá Hljóðön – sýningu tónlistar, í sýningarstjórn Þráins Hjálmarssonar. Af því tilefni verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna kl. 14 með sýningarstjóra, ásamt forstöðumanni Hafnarborgar, Ágústu Kristófersdóttur.

Sýningin fagnar fimm ára starfsafmæli samnefndrar tónleikaraðar, sem tileinkuð er samtímatónlist. Hér tekur tónlistin yfir og dreifir úr sér í safnarýminu, í hinum ólíkustu formum. Hugmyndaheimur tónlistarinnar er þaninn út fyrir heim hljóðanna og sjónræni þátturinn spilar þar stórt hlutverk. Tónlistin verður í senn hljóð og hlutur, flæði tímans er skipt út fyrir flæði í rými, hljóðinu skipt út fyrir hluti, flytjandanum skipt út fyrir hlustandann.

Þeir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Ásta Ólafsdóttir, Steina, Steinunn Eldflaug Harðardóttir, Logi Leó Gunnarsson, Jón Gunnar Árnason, James Saunders, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Magnús Pálsson, Tom Johnson, Curver Thoroddsen og Einar Torfi Einarsson.

Síðar um daginn mun BLÓÐSÓL III, samstarfsverkefni Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur og Haraldar Jónssonar, birtast í Hafnarborg en viðburðurinn hefst kl. 16. Að þessu sinni teygir hún geisla sína og smeygir í samkomu. Viðburðurinn lýsir upp síkvikar væntingar mannsins þar sem þátttakendur eru í senn áhorfendur, viðfangsefni og hvorugt. Gestum er boðið á blint stefnumót við sól, að hlusta á stað og vökva með augunum.

Þráinn Hjálmarsson (f. 1987), tónskáld og sýningarstjóri, nam tónsmíðar við Konunglega Konservatoríið í Haag og við Listaháskóla Íslands á árunum 2006-2011. Hefur tónlist Þráins verið flutt víða um heim af hinum ýmsum flytjendum og hljóðfærahópum. Má þar nefna Basel Sinfonietta, BBC Scottish Symphony Orchestra, Sinfóníuhljómsveit Íslands, CAPUT, Vertixe Sonora, auk margra annarra. Samræða og samstarf er stór þáttur af listrænu starfi Þráins og má í þeim efnum nefna umsjón með tónleikaröðinni Hljóðön, auk þverfaglegra samstarfsverkefna við listamenn á borð við Sigurð Guðjónsson, Brynjar Sigurðarson og Veroniku Sedlmair, auk annarra.

Ásta Fanney Sigurðardóttir lauk námi við Listaháskóla Íslands árið 2012. Gjörningar, textaverk, tónlist, skúlptúrar, hljóðverk, teikningar, kvikmyndun og ýmis konar viðburðir eru meðal þeirra miðla sem hún fæst við. Viðfangsefni hennar hverfast oft um framsetningu, hlutverk og hegðun fólks og hvernig orð og umhverfi hafa áhrif. Hún vinnur með ýmis form þar sem landamæri hluta og greina eru máð út og blandar mikið saman ólíkum aðferðum við útfærslur á hugmyndum sínum hvort sem það séu vísindaskáldsögur, sápuóperur, óperur, raulkórverk, spæjaraþættir eða hávaðaljóð.

Haraldur Jónsson (f.1961) stundaði nám við MHÍ, Listaakademíuna í Düsseldorf og Institut des hautes études en art plastiques í París. Skúlptúrar, hljóðverk, ljósmyndir, teikningar og gjörningar eru meðal þeirra miðla sem hann notar í list sinni. Hann hefur áhuga á næfurþunnu bilinu milli einkalega og sameiginlega rýmisins sem hann nálgast með ýmsum aðferðum og meðulum. Skúlptúrar sem framkalla þögn, teikningar sem kortlagning tilfinninga, innsetningar með tilbúnum hlutum sem öðlast aðra virkni í meðförum hans, listi af tilfinningum sem veggfóður þar sem mörk þess innra og ytra fara á flot. Hann afhjúpar gjarnan það sem er hulið og gerir sýnilegt það sem undir öðrum kringumstæðum hefur ekkert áþreifanlegt form. Hvert verk krefst annarrar nálgunar og miðils en höfundareinkenni hvers og eins leyna sér ekki við nánari kynni. BLÓÐSÓL III er samstarfsverkefni hans og Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur.

Einnig er vakin athygli á sýningunni Umrót, með nýjum verkum eftir Mörtu Maríu Jónsdóttur, sem nú stendur yfir í Sverrissal safnins. Aðgangur er ókeypis að sýningum safnsins, jafnt sem á báða viðburði, og allir velkomnir.

220 Hafnarfjörður

585 5793

www.hafnarborg.isCATEGORIESiframe code

NEARBY SERVICES

  • Best of Iceland

    Best of Iceland
  • Related Articles