Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár
Í fjarska norðursins er saga viðhorfa til Íslands og Grænlands frá miðöldum til samtímans. Báðar hafa þessar þjóðir verið framandi í augum annarra. Lengi voru ímyndir þeirra svipaðar en margt hefur líka greint á milli. Í þessari bók er leitað svara við því hvers vegna íbúum þessara landa hefur ýmist verið lýst sem verstu villimönnum eða fyrirmyndarfólki. Af hverju hefur Íslandi og Grænlandi stundum verið lýst sem djöflaeyjum og stundum sem fjársjóðs- eða sælueyjum?
Sumarliði R. Ísleifsson er doktor í sagnfræði. Hann hefur kannað ímyndasögu Íslands og Grænlands um langt skeið og fjallað um það í greinum og bókum.
Bókin hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Umsögn lokadómnefndar:
Löndin í norðri, Ísland og Grænland, voru öldum saman sveipuð dularfullum og framandi bjarma í augum þeirra ferðalanga sem þangað lögðu leið sína. Í ritinu Í fjarska norðursins – Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár tekst Sumarliða R. Ísleifssyni að varpa ljósi á rúmlega þúsund ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja á afar aðgengilegan og skýran hátt. Athyglisvert og fróðlegt er að bera saman frásagnir, skoðanir og ályktanir þeirra mörgu fræðimanna, rithöfunda og landkönnuða sem koma við sögu og sjá hvaða breytingar verða á ímynd þessara fjarlægu eyja í tímans rás. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og með ríkulegu myndefni.
Hugmyndir um Ísland og Grænland
Sumarliði R. Ísleifsson er höfundur bókar um viðhorf til Íslands og Grænlands. Segir hluta af ímynd þessara svæða vera efasemdir um hvernig lönd þetta eru.
Útópía Evrópu
Um efni bókarinnar segir Sumarliði: „Fyrst ræði ég um miðaldalýsingar frá því í kringum 1100 og fram um 1500. Á þessu tímabili eru löndin nánast óþekkt, örfáar en áhrifaríkar lýsingar eru til frá þessum tíma, engar frá sjónarvottum.
Næsta tímabil nær frá því um 1500 til miðrar 18. aldar. Hér eru aðallega ráðandi tvenns konar viðhorf, annars vegar um hinn göfuga villimann og hins vegar um hinn siðlausa villimann og þessi viðhorf eru heimfærð upp á löndin tvö. Fólk álítur að þetta sé eitt og sama svæðið og þar búi fólk sem lifi sams konar lífi og standi nánast utan heimsins.
Þriðja tímabilið nær frá ofanverðri 18. öld og fram um 1900; hér má segja að skilji leiðir á milli Íslands og Grænlands. Ísland varð á þessum tíma hluti Evrópu, nánast eins og safn um lífið í frum-Germaníu en Grænlendingar héldu áfram að vera fjarlægir, frumstæðir og framandi.
Á fjórða tímabilinu birtist Ísland oft sem útópía Evrópu, en Grænland birtist iðulega sem andstæða Íslands. Vitaskuld má sjá margvíslegar breytingar frá elstu lýsingum á löndunum tveimur og samtímalýsingum. En samt er margt furðu líkt við upphaf og lok tímabilsins þegar nánar er að gáð.
Hluti af ímynd þessara svæða er efasemdir um það hvernig lönd þetta eru. Í hugum fólks geta þau verið siðlaus og villimannleg en líka menningarleg og siðleg. Fólk veit að þau eru ólík þeim löndum sem það þekkir og öðruvísi, en það gerir líka að verkum að fólk hefur áhuga á þessum tveimur löndum og langar að fara þangað.“
Sjá meira hér