Bókatíðindi 2010

Bókatíðindi 2010

Kæru bókaunnendur, í nýlegri bók eftir ítalska fjölfræðinginn og skáldsagnahöfundinn Umberto Eco heldur hann því fram að bókin sé ein af lykiluppfinningum mannkyns. Hún sé líkt og hjólið, hugmynd sem í raun verði aldrei betrumbætt, aðeins útfærð á nýja vegu. Áður en byrjað var að fjöldaframleiða bækur á 15. öld höfðu bækur verið til svo öldum skipti, skrifaðar á papýrus, pappír, skinn og leir. Bókin hefur í árþúsundir verið besta leiðin til að geyma upplýsingar og varðveita þekkingu og miðla henni áfram milli kynslóða. Eins og Eco bendir á er ekkert sem segir okkur að önnur form á miðlun texta muni breyta þeirri grundvallarstaðreynd.

Bókatíðindi ársins 2010 eru vegvísir um brot af þessari miklu sögu. Þau segja enn og aftur að þrátt fyrir hagldrífu bölmóðsins sem nú dynur á okkur alla daga heldur bókaútgáfa á Íslandi sínu striki. Það fjölgar meira að segja aftur þýddum barnabókum og útgáfa á íslenskum skáldskap hefur sjaldan staðið með jafn miklum blóma. Bókatíðindi kynna með öðrum orðum til sögunnar fleiri titla nú en voru skráðir til leiks á fyrstu árum 21. aldar og þykir án efa ýmsum merkileg staðreynd í ljósi alls og alls.

Þetta segir okkur líka annað. Þegar bitist er um fjármuni ríkisins á niðurskurðartímum er vinsælt sport að hamra á að allt sem lúti að menningu og listum sé sérstakur baggi á þjóðinni og verði að lyfta af klakknum hið snarasta. Seint verður því þó haldið til streitu að fjárútlát hins opinbera til bókaútgáfu séu að ríða ríkisklárnum á slig. Þar sem Íslendingar eiga sér aðeins þá menningarstefnu sem ákvarðast af duttlungum stjórnvalda hverju sinni, hefur aldrei tekist að hnýta saman traustum böndum bókaútgáfu og markmið um viðhald og viðgang móðurmálsins. Framlög ríkisins til íslenskrar bókaútgáfu hafa verið ómarkviss, tilviljanakennd og pólitísk. Opinberar stofnanir bjóða nánast aldrei út útgáfuverkefni, eins og þeim ætti þó að vera skylt, og helsti stuðningurinn við útgáfu á námsefni fyrir grunnskólanemendur – Námsgagnasjóður – hefur verið skorinn niður við trog

Gróskan í bókaútgáfu er ekki að þakka stuðningi hins opinbera við hina óskrifuðu menningarstefnu eða markmið sett fram í Íslenskri málstefnu sem Alþingi samþykkti 2009. Hún er að þakka íslenska bókamarkaðinum sem drifinn er áfram af ástríðu og áhuga íslenskra lesenda. Bókatíðindi 2010 eru eins og Bókatíðindi Félags íslenskra bókaútgefenda fyrr og síðar tileinkuð íslenskum lesendum. Fjórfalt húrra fyrir þeim.

Kristján B. Jónasson, formaður, Félags íslenskra bókaútgefenda

Skoða Bókatíðindi 2010 hér

RELATED LOCAL SERVICES