Megi hönd þín vera heil – Jakob Veigar Sigurðsson
Í samstarfi við: Shanay Artemis Hubmann
2. september – 22. desember 2023
Jakob Veigar (1975) starfar og býr í Vínarborg en er uppalinn í Hveragerði. Hann fetaði fremur seint inn á veg myndlistarinnar eftir að hafa snúið baki við byggingariðnaðinum og snúið sér að Myndlist . Hann útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2016 og sem „Herr Magister“ í myndlist frá Akademie der bildenden Künste í Vínarborg 2019.
Jakob er einnig með BA gráðu í byggingatæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík. Málverkið er hans aðal miðill og er innblásið af persónulegri reynslu, alkóhólískum huga sem reynir að skilja samfélagið sem hann dvelur í á hverjum tíma ásamt djúpri tengingu hans við náttúruna.
Jakob hefur á ferðalögum á framandi slóðir m.a annars Indland og Íran notað myndlistina til að dýpka skilning og tengingu við framandi menningu.
Þrátt fyrir stutta viðkomu í myndlistinni er verk Jakobs að vinna í einkasöfnum víða um heim og hafa verk hans verið sýnd ásamt Íslandi víða um Evrópu, Kína ofl.
Megi hönd þín vera heil, er saga af ferðalagi frá Íslandi til Írans. Saga af listamanni sem elti ástina á milli heimsálfa á tímum heimsfaraldar. Ferðalag til einnar af elstu menningu veraldar þar sem hann fann hluta af sjálfum sér í landslagi töluvert frábrugðið hans eigins. Saga af ást sem glataðist, á meðan hann safnaði sögum og efni frá hirðingjum og handverksfólki um allt Íran. Allt frá Frá skítugum mottum, ómetanlegum vefnaði og útsaum sem hann notar til að skapa sína persónulegu og einstöku veröld.
Gullgerðarmaðurinn Jakob Veigar
Jakob Veigar er hvirfilbylur – hugmynda, hreyfingar og sköpunargleði. Hann er náttúruundur í sjálfum sér, eins og hinir stórfenglegu goshverir Íslands. List hans og nærvera yljar og gagntekur í senn. Sýningin Megi hönd þín vera heil er einstakt snilldarverk, þar gefur að líta verk á handofnum írönskum striga sem unninn var eftir fyrirmælum Jakobs. Fyrir þessa sýningu hefur hann sett reynslu sinni og færni markmið sem færir hann aftur á „byrjendastigið.“ Íranski striginn drekkur málninguna „öðruvísi“ í sig. Jakob segir að striginn „neyði hann til að fást við málninguna á annan hátt.“
Í vinnu sinni leitast Jakob Veigar við að sjá veröldina með nýjum augum. Honum finnst eigin kynslóð í Evrópu, við lok tuttugustu aldarinnar, hafa alist upp við „eitraða karlmennsku“; að honum og öðrum karlmönnum hafi verið kennt að hvorki hafa né sýna tilfinningar og geðshræringar. Í málverkinu Sometimes she has to comfort me (2020-21), reynir hann að takast á við karlmannsímyndina og þessar „gömlu“ kenndir. Á yngri árum starfaði Jakob sem byggingatæknifræðingur, „hannaði jarðgöng og harða hluti“, eins og hann lýsir því, en hafði einnig ástríðu fyrir þungarokki og óhófinu sem því fylgdi. Hann lét reyna á mörk þess sem væri boðlegt, í eigin augum og samfélagsins, ekki aðeins sem tónlistarneytandi heldur einnig á sviði og í upptökuverinu sem gítarleikari í ýmsum pönk- og óháðum hljómsveitum.
Þorsti Jakobs Veigars í meira af öllu, hvort heldur er gleði eða þjáningu, birtist í verkum hans. Þessi ástríða gegnsýrir höfundarverk hans, þrungið spennu sem fær útrás í litasprengingunum á striganum. Verkin eru veisla fyrir augað. Í fyrstu fær áhorfandinn glýju í augun af heillandi litavalinu. Eftir lengri yfirlegu byrja þó form að koma í ljós, kunnuglegar útlínur landsins: blóm, tré, fossar. Grjóthnullungar, annaðhvort stakir eða fleiri saman. Stundum hljóðnar óróinn á striganum og Jakob dregur fram verur: óhlutbundna, þybbna líkama með skæld bros, oft eina en einnig tvo og tvo saman. Þessi kjánalegu Adam og Eva sem föst eru á striganum endurspegla okkur hin í þeirri staðfestu sinni að finna eitthvað til að brosa að í veröldinni, sama hvað. Þessar nöktu verur, dregnar grófum dráttum, virðast í senn viðkvæmar og hugrakkar. Þær brosa framan í heiminn, stundum með flagg eða sambærilegt friðþægingartákn í höndum, og leita viðurkenningar um leið og þær velta sér upp úr eigin góðfýsi og furðuleika.
Titill sýningarinnar, Megi hönd þín vera heil er persnesk kveðja frá Íran, fólk segir þetta við handverksmenn, eða þeir hver við annan sem blessun og ósk um velgengni. Kannski leitast Jakob Veigar við að breiða þessi verndarálög yfir sjálfan sig, málari þarf jú á höndum sínum að halda ekki síður en handverksmenn. Kannski vill hann einnig nota blessunina til að græða hjarta sitt. Jakob sér sýninguna sem lokakafla ástarsambands síns við íransk-austurríska rithöfundinn Shanay Artemis Hubmann, og hann notar texta hennar í sýningunni. Hubmann, sem býr í Íran, aðstoðaði Jakob við að útvega þennan einstaka striga og á því sinn bókstaflega og huglæga stað í þessari sýningu.
Jakob Veigar lýsir sýningunni í heild sem allsherjar ástarsögu sinni og Írans: lands og þjóðar. Þótt hans eigin persónulega ástarsambandi hafi lokið fékk sagan þannig ánægjulegan endi. Sem málari hefur hann fyrst og síðast áhuga á málaralistinni sjálfri og því hvað hann getur kreist út úr efninu. Hann segist vonast til að áhorfandinn skilji að Megi hönd þín vera heil sé „málarasýning.“
„Íranski striginn ýtir mjög undir framkvæmdina,“ segir Jakob. „Hann ber málaralistina í sér.“ Það eru göt í striganum þar sem sést í strengina, þar sem vefnaðurinn er ekki fullkomlega heill. Þessir strengir á milli hluta af löngum striganum tákna hugmyndina um aðskilnað í augum listamannsins. Heimsfaraldurinn skapaði óyfirstíganlegar hindranir í sambandi hans við Hubmann. Hann segir sjálfur að hann hafi „búið með hugmyndinni um hana í heilt ár.“ Málverkin á sýningunni túlka þann tómleika, einangrun og þrá – með algjörri andstæðu þess sem búast mætti við að túlkaði einmanaleika. Jakob Veigar hefur skapað yfirþyrmandi og kæfandi frumskóg yfirfullra og tjáningarríkra málverka. Þau hanga úr loftinu og umkringja áhorfendur á veggjunum. Sýningin er víðóma upplifun fyrir sjónina vegna þess að Jakob er sannfærður um að „augun séu eitthvað alveg sérstakt“ og þau eigi veisluna skilið.
Í miðju litríku hlaðborðinu leiðir Jakob Veigar áhorfandann alltaf aftur inn í rósemdina. Litavalið og hreyfing pensilsins á striganum afhjúpa friðsælar náttúrusenur sem eru á mótsagnakenndan hátt dregnar með æstum og orkumiklum strokum. Á Íslandi er náttúran alltumlykjandi og það er ein ástæða þess að Jakob segist ánægður með að búa annars staðar núna. „Ef ég væri á Íslandi myndi ég ekki „gera“ neitt vegna þess að þar er svo mikil náttúra. Hún er allt. Ég tjái mig í gegnum náttúruna og kalla hana fram hjá mér, hvar sem ég er.
Þótt náttúran sé falleg er Jakob einnig meðvitaður um hve háskaleg hún getur verið og hve flókinn línudans mannkynið stígur í samskiptum sínum við hana. Hann lýsir því hvernig íslenska þjóðin hefur nokkrum sinnum nánast þurrkast út vegna eldgosa og alls kyns náttúruhamfara. Til að lifa af á Íslandi verður maður að vera kaldur og harður. Sögulega séð urðu menn að vera hraustir hermenn og sæfarar lífsins, sem hann er. Nafnið Veigar þýðir bókstaflega „hraustur hermaður.“ Málverk Jakobs gefa til kynna fegurð náttúrunnar en minna um leið á, með æðisgengnum litum, að náttúran er hringiða sem getur tortímt okkur, rétt eins og tilfinningalíf okkar getur gert.
Eftir úrhellið má oft sjá regnboga, og eftir stórkostlega ást kemur oft fullkomnari ást. Lífið er endurnýjun og umbreyting. Lífskraftur náttúrunnar leitast stöðugt við að tjá sig á sem kröftugastan hátt. Jakob Veigar er viljugur boðberi lífsorkunnar, gullgerðarmaður málaralistarinnar í leit að viskusteininum. Hann hefur tekið eitraða karlmennsku æsku sinnar og umbylt henni sem þroskaður einstaklingur. Það er auðvelt að trúa því þegar hann segist hafa verið heltekinn af fiðrildum í talsverðan tíma eftir að listnámi hans lauk. Verk hans eru jákvæð og upphefjandi upplifun. Hann skapar samræmi úr óreiðunni; leyfir málverkum sínum að veita útrás fyrir bræðina og bjóða hughreystingu um leið. Notkun hans á málningu er rausnarleg og ríkuleg. Verkin hans eru víðtæk og djúpstæð sjónræn upplifun sem dregur okkur inn í margslungið algleymi lífsins.
Ritgerð: Dr. Renée Gadsden, 2023
Boðið verður upp á Tónlistargjörning á opnun frá Íran, listamennirnir saLeh roZati / Pourea Alimirzae.