Listval – Margfeldið á milli

Listval
Lilý Erla Adamsdóttir – Margfeldið á milli
2. desember 2023 – 6. janúar 2024 

Verið velkomin á opnun sýningar Lilýjar Erlu Adamsdóttur Margfeldið á milli laugardaginn 2. des kl. 15–17 í Listval Gallery að Hverfisgötu 4.

Í gegnum skynfæri okkar brotnar heimurinn upp í víddir. Hlutirnir hafa kunnuglegt form. Upp og niður. Norður og suður. Fortíð og framtíð. Flötur og þrívídd. Upphaf og endir. En eru þessar víddir í náttúrunni sjálfri?

Í náttúrunni er margfeldi handan við vitund mannsins. Við skynjum þetta margfeldi í hliðstæðum. Ofanfrá séð kvíslast jökulá eins og regntaumar á rúðum bílsins. Í hversdagsleikanum kristallast form í stóru sem smáu. Í endurtekningum og útfellingum. Í landslagi árfarvegs og dýjamosa.

En Lilý Erla lætur sér ekki nægja að mynda hliðstæður. Hún vill fá okkur til þess að skynja á milli vídda. Brjóta niður mörkin á milli skynfæra. Hvernig mjúk áferð túlkar hrjóstruga jörð. Hvernig litir leysast upp í smáum þráðum og tengja saman ljós og hljóð.

Uppistaðan í verku Lilýjar Erlu er þráðurinn. Á milli þráðanna er margfeldi sem getur framkallað sérstakt ljós. Þá skiptir aðkoman máli. Hvar þið standið. Hvort tekin sé ljósmynd. Dýptirnar eru iðandi. Það liggur í eðli þráðanna sem Lilý hefur valið.

„Það er ótrúlegt hvað þessir litlu þræðir skila miklu ljósi inn í verkið“, segir Lilý Erla en hún velur fíngerða þræði í mismunandi litum til þess að framkalla áhrifin. Striginn er strengdur lóðrétt upp og Lilý Erla mundar Tuft-byssu sem knúin er af kraftmikilli loftpressu. Fíbrar ýrast þegar þræðirnir eru skornir. Ryk þyrlast upp og hávaði dynur í vinnustofunni. Átök og læti. Náttúrukraftar að verki.

En þegar kyrrðin leggst yfir þá halda verkin áfram að iða. Hvers vegna? Prófið að nema staðar og færa ykkur til hliðar og upp við verkið. Og takið eftir í upplifun ykkar fínlegum þræði sem sjónin nær ekki alveg að fanga. Þá eruð þið í þann mund að dragast inn í heima – inn í margfeldið á milli.

Texti: Valur Freyr Antonsson

Um listamanninn:
Lilý Erla Adamsdóttir vinnur á mörkum myndlistar, hönnunar og listhandverks. Í verkum sínum skoðar hún handgerða endurtekningu, möguleika hennar og takmarkanir. Hvernig hið einstaka kallast á við fjöldann um leið og fjöldinn skapar einstakan samhljóm. Vinnuferli Lilýjar einkennist af stöðugu samtali við efnið, þar sem eitt leiðir af öðru. Undanfarið hefur hún nýtt sér eiginleika tufttækninnar til skoðunar á þræðinum og sjónrænna áhrifa hans, þegar kemur að samspili lita og efniseiginleika. Lilý talar ýmist um verkin sín sem loðin málverk eða dansandi útsaum. Lilý Erla Adamsdóttir (f. 1985) lauk BA gráðu í myndlist frá LHÍ 2011 og MA gráðu í listrænum textíl frá Textilhögskolan í Borås í Svíþjóð 2017.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0