Á inniskónum er spjalltónleikaröð Magnúsar Jóhanns píanóleikara þar sem hann fær til sín gesti víðs vegar að úr tónlistarlífi Íslendinga. Magnús setur tónlist viðmælenda sinna í nýjan búning með dyggri aðstoð hljóðgervla, trommuheila og hljómborða af ýmsum toga og spyr þá svo spjörunum úr. Gestur Magnúsar þann 25. maí nk. er tónlistarkonan Elín Hall.
Elín skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Lof mér að falla árið 2018. Hún er lagahöfundur, leikkona og söngkona og hefur undanfarin ár starfað bæði við leiklist og tónlist. Nýjasta hljómplata hennar heyrist í mér? hlaut Kraumsverðlaunin, var tilnefnd sem plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og hlaut einnig tilnefningar fyrir söng og textagerð. Um þessar mundir fer Elín með hlutverk ungrar Vigdísar Finnbogadóttur í þáttum Vesturports um ævi hennar samhliða öðrum verkefnum. Hún fer með aðalhlutverkið í myndinni Ljósbrot, sem frumsýnd var í Cannes fyrr í þessum mánuði og fékk mikið lof.
Magnús og Elín kynntust fyrst þegar þau léku saman í hljómsveitinni Náttsól en Magnús hefur einnig leikið inná hljómplötur hennar í gegnum tíðina. Þau munu ræða sköpunarferli Elínar, vegferð hennar í tónlistinni, hvernig leiklistin kemur inn í þetta allt saman auk þess að telja í vel valin lög eftir Elínu.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00. Húsið opnar 19:30 og gengið er inn í Hljóðberg í Hannesarholti af Skálholtsstíg.