Nú er komið að öðru erindi í fyrirlestraröðinni Pólland: vetur, sumar, vor og haust
Í fyrirlestraröðinni Pólland: vetur, sumar, vor og haust mun Mariola Alicja Fiema, aðjunkt í pólskum fræðum við Háskóla Íslands, flytja erindi um Pólland og allt það sem landið hefur að bjóða fólki sem leitar að spennandi og fjölbreyttum áfangastað.
Fyrirlestraröðin er samstarfsverkefni Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins.
Í vetur mun Mariola Alicja Fiema, kennari í pólsku og pólskum fræðum við Háskóla Íslands, kynna Pólland fyrir fólki sem er á höttunum eftir nýjum og áhugaverðum áfangastöðum. Þjóðminjasafn Ísland hefur leitast við að bjóða hina fjölmörgu Íslendinga sem eiga rætur í Póllandi velkomið á safnið, svo sem með leiðsögn á pólsku fyrir börn og fullorðna og Þjóðháttasafnið hefur nú opna spurningaskrá um reynslu þeirra af Íslandi.
En hversu vel þekkjum við Pólland?
Borgarferðir héðan til Póllands verða vinsælli með hverju árinu, enda eru pólskar borgir þekktar fyrir skemmtilegt mannlíf og fjölbreytt menningarlíf, þar eru söguleg kennileiti á nánast hverju götuhorni, söfn og gallerí.
Í fyrirlestrunum, eða öllu heldur „óformlegu erindunum“ eins og Mariola kallar þá mun hún kynna Pólland sem áfangastað fyrir náttúrunnendur, útivistar- og fjölskyldufólk, veita innsýn í ríka menningarsögu landsins, náttúrufegurð og fjölbreytileika.
Í Póllandi er rík hefð er fyrir hátíðarhöldum, svo sem í kringum jól, sem draga að erlenda gesti ekki síður en heimamenn. Vetrarfegurðin heillar skíðafólk hvaðanæva úr heiminum og sandstrendur Eystrasaltsins sólarunnendur. Hlýir litir skóganna umlykja göngufólk að hausti og hjólreiðafólk nýtur útivistar í blómstrandi aldingörðum að vori.
Tilvalið tækifæri til að kynnast pólskri menningu.
Fyrirlestrarnir fara fram í Fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.
Fyrirlestrarnir verða fjórir alls, og er hver tileinkaður einni árstíð:
Pólland, sumarið: 21. september 2024, kl. 10:30
Pólland, haustið: 23. nóvember 2024, kl. 10:30
Pólland, veturinn: 18. janúar 2025, kl. 10:30
Pólland, vorið, 15. mars 2025, kl. 10:30