Sigurður Guðjónsson og Bjargey Ólafsdóttir

Spurt og svarað:
Sigurður Guðjónsson og Bjargey Ólafsdóttir
Fimmtudag 4. maí kl. 20.00 í Hafnarhúsi

Boðið er upp á samtal við Sigurð og Bjargeyju sem bæði eiga verk í sýningaröðinni Hrinu, að þessu sinni í hrinu sem nefnist Frásögn.

Rætt verður um tilurð verkanna, inntak þeirra og útfærslu, auk þess sem horft er til samhengis þeirra við önnur verk á ferli listamannanna sem og þróun vídeólistar almennt. Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, leiða samtalið og er gestum velkomið að taka þátt.

Bjargey Ólafsdóttir (1972): Ljóskur í París (2000)
Á meðan á vinnustofudvöl Bjargeyjar í París stóð tókst hún á við klisjuna um það að vera listamaður að störfum í þessari borg sem skipar svo mikilvægan sess í listasögunni. Verk hennar er skyggnumyndasýning með undirleik og veitir innsýn í samskipti tveggja ungra íslenskra kvenna við franskan karlmann.

Sagan er óljós enda virðist gripið inn í mitt djammkvöld þar sem stemningin rambar á mörkum glæsileika og sjúsks, úthverfu og sjálfhverfu. Tónlistina við myndina gerði Kristján Eldjárn gítarleikari. Hún er leikin á tveimur tækjum sem ekki eru samstillt og magnar þannig togstreituna og vandræðaganginn í myndunum.

Sigurður Guðjónsson (1975): Sárabeð (2006)
Sögupersónur verksins eru til jafns hettuklæddur maður og eyðibýlin eða þeir yfirgefnu staðir sem hann reikar um. Á vegi hans verða andlitslausar verur sem engin leið er að vita hvort eru hugarburður hans eða eitthvað annað. Niðurnídd mannvirkin verða honum tilefni til margháttaðra tilrauna og aðgerða sem ekki virðast hafa ljós markmið en endurspegla þess í stað einmanaleika og tilgangsleysi.

Í verkinu virðist farið með áhorfendur í ferðalag um tíma- og staðlausa veröld sem er á mörkum undirmeðvitundar og raunveruleika. Um tónlist og hljóðmynd sá listamaðurinn sjálfur ásamt Arnari Guðjónssyni og Áka Ásgeirssyni.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.