Húsið á meðan það gegndi hlutverki gagnfræðaskóla, sem hét Ingimarsskóli, um 1960. (Ljósmynd: Gunnar Rúnar Ólafsson)Lindargata 51
Húsið hér á horni Lindargötu og Frakkastígs reistu Frakkar árið 1902 sem spítala fyrir franska sjómenn er stunduðu þorskveiðar á Íslandsmiðum. Það rúmaði 20 sjúklinga. Skömmu síðar reistu Frakkar tvo aðra spítala í sama skyni, á Fáskrúðsfirði með 17 rúmum og í Vestmannaeyjum með 9 rúmum.
Arkitekt hússins var danskur, Bald að nafni, og timbrið í það kom einnig frá Danmörku. Húsið er einlyft, með risi og byggt á hlöðnum grunni.
Spítalanum í Reykjavík var ætlað að sinna sjómönnum sem voru á miðunum vestur af landinu. Læknar og annað hjúkrunarfólk var flest íslenskt og var tekið við íslenskum sjúklingum jafnt sem frönskum.
Um þær mundir sem spítalinn var reistur komu árlega 150-200 frönsk skip á Íslandsmið, langflest skútur, og voru hér frá febrúar til ágústloka. Á þeim voru 4000-5000 sjómenn. Þau fengu góðan afla en urðu einnig fyrir tíðum skakkaföllum, sum strönduðu, önnur hurfu í sjó.
Frá 1825 til 1930 fórust um 400 franskar skútur hér við land og með þeim 4000 franskir sjómenn. Árið 1892 fórust til að mynda 12 skútur með 139 mönnum. Íslendingar björguðu fjölda sjómanna úr sjávarháska, oft við erfiðar aðstæður.
Veiðum Frakka lauk að mestu árið 1914. Spítalinn var þó rekinn áfram til 1927, síðustu árin á vegum Reykjavíkurbæjar. Síðan hefur húsið lengst af verið notað undir skólahald, 1935-1976 fyrir Gagnfræðaskólann í Reykjavík, Ingimarsskóla, og eftir 1977 undir Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Húsið var endurgert að utan árið 1988 og fært til upphaflegs útlits.
Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is