Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og friðlönd í nágrenninu

 

Þjóðgarðurinn og
friðlönd í nágrenninu
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 28. júní árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Jafnframt er markmiðið að auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er vestast á Snæfellsnesi og flatarmál hans er um 170 km 2. Að sunnan liggja mörk hans um austurjaðar Háahrauns í landi Dagverðarár en að norðan á austurmörkum Gufuskálalands. Jökulhetta Snæfellsjökuls er innan þjóðgarðsins. Þjóðgarðurinn hefur þá sérstöðu meðal íslenskra þjóðgarða að vera sá eini sem nær í sjó fram. Tvö friðlönd og eitt náttúruvætti heyra undir stjórn þjóðgarðsins. Búðahraun er á sunnanverðu Snæfellsnesi og var austurhluti þess gerður að friðlandi árið 1977, alls rúmir 9 km² að flatarmáli. Hraunið er eitt fegursta gróðurlendi landsins þar sem um 130 tegundir háplantna hafa fundist, þ.á.m. 11 af þeim 16 tegundum burkna sem vaxa á Íslandi. Ströndin við Arnarstapa og Hellna var gerð að friðlandi árið 1979 og er friðlandið um 0,6 km² að stærð. Þar eru sérkennilegar klettamyndanir sem hafa mótast af briminu og óvíða er hægt að skoða ritu í jafnmiklu návígi og í gjám á Arnarstapa. Náttúruvættið Bárðarlaug er rétt ofan við Hellna. Bárðarlaug er forn gígur með tjörn í botni sem ísaldarjökullinn hefur sorfið. Þjóðgarðar og friðuð svæði eru þjóðareign sem frjálst er að fara um, en virða ber þær reglur sem þar gilda.
Landslag
Strönd Snæfellsness er fjölbreytileg þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar, með iðandi fuglalífi um varptímann. Láglendið innan þjóðgarðsins er að mestu hraun sem runnið hafa frá Snæfellsjökli eða eldvörpum á láglendi. Hraunin eru víðast þakin mosa en inn á milli má finna fallega, skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri. Láglendið á sunnanverðu Snæfellsnesi er forn sjávarbotn sem risið hefur síðan ísöld lauk. Hamrabeltin upp af láglendinu eru því gamlir sjávarhamrar. Snæfellsjökull gnæfir tignarlegur yfir umhverfinu og greinilega má sjá hvernig hraunstraumar og hraunfossar hafa runnið niður eftir hlíðum hans. Undirfjöll hans, svo sem Hreggnasi, Geldingafell og Svörtutindar, eru margbreytileg að lögun. Eysteinsdalur gengur upp frá láglendinu að norðanverðu og þar er komið í annað landslag, dal girtan fjöllum sem kalla á göngufúsa fætur. Ofar í landinu og nær Jökulhálsi eru vikurflákar og land sem er nýlega komið undan jökli. Norður af Búðum eru Mælifell og Axlarhyrna áberandi fjöll. Frá Arnarstapa og Hellnum blasir við sjónum Stapafellið sem er 526 m hátt móbergsfjall. Efst á því eru hamrar sem kallast Fellskross.
Nokkrir fallegir fossar eru á svæðinu. Bjarnarfoss fellur fram af hamrabeltinu í hlíðarbrúninni upp af Búðum. Í honum stendur fjallkona og falla úðaslæðurnar um herðar henni og barm. Hún sést best frá veginum, þaðan sem beygt er niður að Búðum, og ofan frá Fróðárheiði. Klukkufoss er við rætur Hreggnasa og er stuðlaberg allt um kring. Nokkru austar, í Blágili, falla tveir fossar í einn hyl og hafa þeir verið nefndir Þverfossar.
Jarðfræði
Jarðfræði Snæfellsness er afar fjölbreytt og þar eru jarðmyndanir frá nær öllum tímabilum í jarðsögu Íslands. Eldstöðvakerfið sem kennt er við Snæfellsjökul er sterk landslagsheild og sýnir menjar eftir einstæð eldsumbrot, bæði frá síðasta jökulskeiði og eftir að ísöld lauk. Kerfið er u.þ.b. 30 km langt og nær frá Mælifelli í austri að Öndverðarnesi í vestri og jafnvel lengra. Yfir 20 hraun tilheyra kerfinu. Lífæð eldstöðvakerfisins er kvikuþró sem liggur á nokkurra kílómetra dýpi undir jöklinum sjálfum. Mest ber á jarðmyndunum frá síðasta jökulskeiði og nútíma í og við þjóðgarðinn. Fjöllin norðan Snæfellsjökuls eru úr móbergi og hafa myndast við gos undir jökli eða í sjó. Svalþúfa er líklegast austurhluti gígs sem gosið hefur í sjó og Lóndrangar gígtappar. Hraun eru áberandi í landslagi þjóðgarðins, bæði úfin apalhraun og sléttari helluhraun. Stór hluti þeirra hefur runnið úr Snæfellsjökli, bæði úr toppgígnum og úr gígum í hlíðum fjallsins. Hraunmyndanir eru margbreytilegar og fallegar og er svæðið auðugt af hellum. Ferðamönnum er eindregið ráðið frá því að fara í þá nema í fylgd kunnugra. Á láglendi eru eldvörpin Purkhólar, Hólahólar, Saxhólar og Öndverðarneshólar og umhverfis eru hraun sem runnið hafa úr þeim. Búðahraun er nefnt Klettshraun í fornum heimildum og eldstöðin í miðju hrauninu heitir Búðaklettur. Búðaklettur er þó ekki klettur heldur 88 m hár gígur og úr honum rann hraunið fyrir 5000–8000 árum. Austurhluti Búðahrauns er helluhraun og þar hafa fundist nokkrir hellar, þekktastur þeirra er Búðahellir. Margar sögur eru til um hellinn, m.a. var talið að hann væri botnlaus og göng lægju úr honum undir Búðaklett og í sjó fram. Göngin áttu að liggja að Djúpaskeri en það er austur undan Búðahrauni. Hraunið stendur á sjávarbotni og leikur sjór um undirstöður þess. Sjór kemur jafnvel upp í dýpstu gjótum á stórstraumsflóði. Meðal jarðfræðinga er hraunið þekkt fyrir þrídílótt berg, gulgrænir dílar eru ólivín, hvítir plagíóklas og svartir dílar eru pýroxen. Nánast hreinn ólivínsandur finnst í fjörunni við Búðir, sem er sjaldgæft hér á landi. Hellnahraun nefnist hrauntungan ofan við Arnarstapa og Hellna. Það er talið vera um 4000 ára og rann úr gíg nærri Jökulhálsi sem nú er hulinn jökli.
Snæfellsjökull
Snæfellsjökull er 1446 m hár og hefur oft verið kallaður konungur íslenskra fjalla. Hann var lengi talinn hæsta fjall landsins. Eftir því sem best er vitað klifu Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson tindinn fyrstir manna, árið 1754 frá Ingjaldshóli. Fjallið er virk eldkeila sem hefur hlaðist upp í mörgum hraun- og sprengigosum á síðustu 800 þúsund árum. Toppgígurinn er um 200 metra djúpur fullur af ís og girtur íshömrum. Hæstu hlutar hans eru þrjár þúfur á barmi gígskálarinnar, kallaðar Jökulþúfur og er Miðþúfan þeirra hæst. Jökullinn hefur minnkað á undanförnum árum og er nú um 11 km 2  að flatarmáli. Hlíðar jökulsins eru einkar fallegar og víða fléttast hraunið í reipum niður hlíðarnar. Síðast gaus í jöklinum fyrir um 1800 árum og var það stórgos. Þá barst ljós aska yfir norðanvert Snæfellsnes og Vestfirði. Hraun rann niður suðurhlíðar fjallsins og er t.d. Háahraun úr því gosi. Sagt er frá því í Bárðar sögu Snæfellsáss að Bárður hafi gefist upp á samneyti við fólk og að lokum gengið í jökulinn. Upp frá því er Bárður af sumum talinn verndari svæðisins. Jökullinn hefur orðið bæði innlendum og erlendum skáldum og listamönnum að yrkisefni og veitt öðrum innblástur í gegnum tíðina. Sumir finna sterk áhrif frá jöklinum og telja að hann sé ein af sjö stærstu orkustöðvum jarðar.
Gróður
Jarðvegur á utanverðu Snæfellsnesi er víða gljúpur og heldur illa vatni en gróðurlendi er þó margbreytilegt, frá fjöru til fjalls. Strandgróðurinn er afar fjölskrúðugur og víða eru tærar tjarnir með litfögru þangi og þara. Mosinn er oft þykkur á hraunum og blómjurtir í bollum og gjótum. Trjágróður er takmarkaður, og engin há tré, en finna má birki- og reynihríslur í hraungjótum. Á meðal sjaldgæfra tegunda sem vaxa á svæðinu eru skrautpuntur og
ferlaufungur sem er friðlýst tegund. Lyngmóar eru útbreiddir á Snæfellsnesi og víða góð berjalönd. Búðahraun var friðað að stórum hluta vegna grósku og fjölbreytileika gróðursins. Meginástæða þessa mikla gróðurs er talin vera sú að sjór leikur um undirstöður hraunsins og er raki því mikill og loftskipti góð. Víða í hrauninu hafa myndast einkennilegir katlar, og í þeim og öðrum dældum er eitt furðulegasta gróðurskrúð sem fyrirfinnst hér á landi. Fundist hafa rúmlega 130 tegundir plantna í hrauninu og við fyrstu sýn vekja burknarnir oftast mesta athygli. Alls hafa fundist 16 tegundir burkna á Íslandi og af þeim vaxa 11 í Búðahrauni. Fjöllaufungur, dílaburkni og stóriburkni eru mest áberandi, enda stærstir, en tófugras er algengt og þrílaufungur og þríhyrnuburkni vaxa víða. Í hrauninu er einnig að finna blómlendi og vallendisbolla, lyngfláka, mosaþembur og klettagróður, birkirunna og stöku reynitré. Af tegundum sem ná mikilli hæð í hrauninu má nefna mjaðurt, blágresi og sóleyjar. Í sandinum má m.a. finna túnvingul og melgresi, tágamuru, klóelftingu, brennisóley, holurt, blóðberg, hvítmöðru, lambagras og túnfífil.
Fuglar
Eins og að líkum lætur eru sjófuglar mest áberandi á svæðinu og verpa þeir meðfram allri ströndinni. Má þar nefna langvíu, stuttnefju, álku, fýl, ritu og toppskarf. Toppskarfur er fimur kafari og gott er að sjá hann frá Arnarstapa. Hann verpir í þyrpingum á lágum klettum og hólmum en á varptímanum hafa fullorðnu fuglarnir fjaðurtopp á höfðinu. Á Arnarstapa er einnig auðvelt að komast í mikla nálægð við rituna þar sem hún liggur á. Egg ritunnar eru tvö og hreiðrið límir hún með munnvatni og driti á snasir og mjóar syllur sjávarklettanna. Teistur sjást helst við Malarrif og Lóndranga. Máfar verpa á víð og dreif. Af máfategundum eru svartbakur, silfurmáfur, hvítmáfur og sílamáfur algengir. Þúfubjarg og Saxhólsbjarg eru aðgengileg fuglabjörg en betra að fara að öllu með gát. Votlendisfuglar eru fáliðaðir og hvergi stór vörp. Í Beruvík eru fallegar tjarnir sem ýmsar tegundir fugla heimsækja. Oft má sjá óðinshana á tjörnunum ofan við Pumpu á Arnarstapa. Fuglinn er þekktur fyrir að hringsnúast við ætisleit. Söngur algengra fugla heyrist gjarnan, svo sem heiðlóu, spóa, þúfutittlings, sólskríkju og steindepils. Maríuerla, tjaldur, sandlóa, sendlingur, hrafn og rjúpa eru algeng. Skógarþröstur er í hraungjótum og nálægt byggð. Haförn varp í Lóndröngum fram yfir aldamótin 1900. Fálki og smyrill eru fágætir. Vor og haust æja fargestir, fuglar sem verpa norðar, eins og tildra, margæs og rauðbrystingur. Fleiri tegundir koma við, þótt í minna mæli sé. Æðarfugl er algengasta andategundin við ströndina. Stór kríuvörp eru á Arnarstapa og í Rifi sem er eitt stærsta kríuvarp Evrópu, en einnig verpir hún á Öndverðarnesi. Krían er einkennisfugl Snæfellsbæjar og heillandi á sinn hátt, fíngerður og tignarlegur fugl og dugleg að vernda unga sína. Margir verða hálfsmeykir við kríuna þar sem hún ræðst gegn óboðnum gestum og á það til að gogga þá í höfuðið. Þegar vetur er hér á landi heldur krían sig á suðurhveli jarðar, líklega við ísrönd Suðurskautslandsins. Til þess að njóta bjartra sumarnátta yfir varptímann hefur hún komið sér upp sérstakri flugtækni og getur langflug hennar numið allt að 40.000 km á ári.
Önnur dýr
Á gönguferð eftir ströndinni má búast við að sjá sel, bæði útsel og landsel. Ekki eru þó stór látur innan þjóðgarðsins. Oft er líflegt í pollum og gjótum á ströndinni, einkum þegar sjór er nýfallinn út. Kuðungar, marflær, krabbar, sprettfiskar og fleiri smádýr vekja þá áhuga athugulla gesta. Hvalir, t.d. háhyrningur, hrefna og hnísa, eru algengir við Snæfellsnes og er rétt að hafa augun vel opin því þeir sjást oft frá ströndinni. Dýpra undan halda sig stórhveli, s.s. búrhvalur. Talsvert er af ref í hrauninu og meðfram ströndinni. Minkur heldur sig í fjörunni þar sem æti er helst að hafa. Hagamýs eiga góða daga í hrauninu, og ef horft er eftir hinu smáa má sjá ýmis smádýr trítla um.
Sagan
Vestasta hluta Snæfellsness er ekki oft getið í fornritum en þá helst í tengslum við skreiðarflutninga undir Jökli. Bárðar saga Snæfellsáss er þekktasta sagan sem gerist á þessu svæði, en hún þykir full ævintýraleg og er ekki talin áreiðanleg. Vitað er um bæjarrústir frá landnámstíð, t.d. rústir bæjanna á Forna-Saxhóli, Berutóftir og Írskubúðir. Fyrir ofan Gufuskála er fjöldi fiskbyrgja sem enginn veit hverjir hlóðu en þau eru talin vera 500-700 ára gömul og elstu minjar um sjávarútgerð á Norðurlöndum. Önnur kenning um byrgin er sú að þau hafi verið bænastaðir írskra manna. Um miðja 13. öld fór að lifna yfir fiskveiðum við Ísland og er líklegt að þá hafi fólki tekið að fjölga undir Jökli. Kirkja var á Ingjaldshóli fyrir 1200 og ný kirkja var reist árið 1317 eða 1318. Kirkjan var snemma þriðja stærsta kirkja landsins á eftir dómkirkjunum á Hólum og í Skálholti. Ber það vitni um að fjölmennt hafi verið í byggðunum þar í kring, a.m.k. hluta úr árinu. Kirkjur voru einnig á Einarslóni og Saxhóli og bænhús á Öndverðarnesi fram á miðja 16.  öld. Útræði var víða undir Jökli fyrr á öldum og minjar frá þeim tíma eru vel aðgengilegar. Á mörgum stöðum er lending hættuleg og aðstaða erfið svo að þar lagðist sjósókn af þrátt fyrir nálægð við góð fiskimið. Útgerðin var árstíðabundin og því breytilegt hversu margir bjuggu í héraðinu. Líklega er Dritvík þekktasta verstöðin. Þar var um hríð stærsta vorútver landsins og reru þaðan oft 40 til 60 skip með 200 til 600 vermönnum. Á 19. öld lögðust útverin af vegna breyttra veiðihátta og verkunaraðferða. Með nýrri tækni í útgerð og breyttum lifnaðarháttum urðu aðstæður aðrar og vegur þorpanna jókst.  Þéttbýlisstaðirnir yst á Snæfellsnesi, Hellissandur, Rif og Ólafsvík, eru allir gamlir útgerðar- og verslunarstaðir. Enn þann dag í dag eru þetta miklir útgerðarstaðir og mannlíf þar blómlegt.
Búðakirkja
Búðarkirkja var fyrst reist árið 1703 af Bent Lárussyni kaupmanni á Búðum. Kirkjan grotnaði niður en var endurreist af Steinunni Sveinsdóttur árið 1848. Sagan segir að það hafi verið að bón Bents, sem hafi vitjað Steinunnar í draumi. Árið 1984 var kirkjan flutt í heilu lagi úr gamla kirkjugarðinum á núverandi grunn. Kirkjan var endurgerð í þeirri mynd sem hún var talin hafa verið 1848. Hún var endurvígð árið 1987 og er friðuð safnkirkja í eigu Þjóðminjasafns Íslands, en er í vörslu sóknarnefndar. Yfir Búðum og kirkjunni þykir hvíla rómantískur blær og er vinsælt að gifta sig þar.
Búðir
Búðir geyma mikilvægan kafla úr atvinnusögu Íslands. Í Eyrbyggju er talað um Hraunhafnarós (Búðaós) sem verslunarhöfn strax á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. All nokkurn spöl suður  með hraunjaðrinum, um þrjá kílómetra frá hótelinu, eru Frambúðir. Þaðan mun hafa verið útræði allt frá landnámsöld og áttu margar jarðir þar uppsátur fram eftir öldum. Þar má enn sjá rústir verbúðanna, sem Búðir draga nafn sitt af, auk fiskreita og grjótgarða, lýsis- og lifrargryfja og verslunarhúsa Brimakaupmanna. Verslunarhúsin voru seinna flutt austur fyrir ósinn og þar stóð verslunin um 130 ára skeið. Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði eitt hið ofsafengnasta veður sem sögur fara af. Hélst í hendur við rokið stórrigning, þrumur og eldingar, hafrót og sjávargangur. Í Staðarsveit gekk sjórinn 1500 faðma upp fyrir stórstraumsfjöru og tók nærri af Búðakaupstað. Aldamótaárið 1800 var verslunin því aftur flutt vestur fyrir ósinn. Samkvæmt manntali 1703 hafa kringum 100 manns verið til heimilis á Búðum og um langt skeið stóðu Búðir í nánu og beinu sambandi við afkomu fjölmennra sveita. Frá Hvítá í Borgarfirði og vestan frá Öndverðarnesi sótti fólk verslun að Búðum. Við rætur Axlarhyrnu er bærinn Öxl. Á þeim bæ, sem stóð til forna við gömlu þjóðleiðina Jaðargötu, bjó fjöldamorðinginn Axlar-Björn. Hann játaði á sig níu morð á ferðamönnum en sumir töldu hann þó hafa drepið 18 manns. Sagan segir að líkin hafi verið geymd í Iglutjörn sem liggur í hraunjaðrinum. Axlar-Björn var líflátinn árið 1596 og dysjaður í þrennu lagi á Laugarholtinu við Hellna. Þannig var komið í veg fyrir að hann gengi aftur.
Arnarstapi og Hellnar
Arnarstapi og Hellnar og örnefni í nágrenninu eru samofin Bárðar sögu Snæfellsáss sem var hálfur maður og hálfur tröll. Bárður gekk á land í Djúpalóni og baðaði sig í Bárðarlaug. Skammt frá gerði hann sér bæ stóran sem hann nefndi Laugarbrekku og bjó þar á meðan hann dvaldist meðal manna. Þorkell, bróðir Bárðar, bjó á Arnarstapa. Hann átti tvo syni, Rauðfeld og Sölva. Dætur Bárðar ólust upp á Laugarbrekku, miklar og ásjálegar. Helga var þeirra elst.Þorkelssynir og Bárðardætur léku sér saman og eitt sinn þegar hafís lá við land hratt Rauðfeldur Helgu út á sjó á ísjaka. Helgu rak til Grænlands og sakaði hana ekki en á Bárð rann ofsi. Hann hrinti Rauðfeldi í Rauðfeldargjá og Sölva fram af Sölvahamri. Eftir þetta hvarf Bárður í Jökulinn. Auðæfi hans eru sögð geymd í Bárðarkistu, kistulaga móbergsfjalli upp af Saxhólsdal. Margir trúa því að Bárður vaki yfir svæðinu undir Jökli. Hlaðin mynd af Bárði Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson stendur við ströndina á Arnarstapa. Mikil byggð var áður á Arnarstapa og bjuggu þar um 150 manns í byrjun 18. aldar en á Arnarstapa var ein af höfnum einokunarverslunarinnar. Fáar fjölskyldur búa nú á Arnarstapa allt árið um kring en á sumrin fyllist staðurinn jafnt af fuglalífi sem mannlífi, með smábátaútgerð og sumarhúsabyggð. Höfnin á Arnarstapa er umlukin stuðlabergsstöpum, gjám og skútum. Með vélbátaútgerð voru gerðar lendingarbætur á Arnarstapa um 1933 og er þar gott lægi fyrir smábáta. Gamalt vikurport er upp af höfninni og eru það merkar minjar úr iðnsögu slendinga. Á fjórða áratug 20. aldar hófst vinnsla á vikri úr Snæfellsjökli og stóð hún í rúm 30 ár. Vikurinn var unninn á Jökulhálsi og í byrjun var honum fleytt niður að Arnarstapa eftir trérennum sem enn sjást. Vikrinum var safnað í vikurportið og síðan fleytt um borð í skip sem flutti hann til Reykjavíkur en einnig til útlanda. Úr honum voru m. a. framleiddar vikurplötur sem voru notaðar til að einangra hús og í milliveggi. Upp af bryggjunni er Barnaþúfa og Barnaþúfubarð. Nokkru utar er stakur klettur úti í sjónum sem heitir Arnarklettur. Enn lengra er Kórsnef og þar fram af Pálsklettur. Milli Lendingarkletts og Arnarkletts er sérkennileg klettakví sem nefnist Kór. Vestur af Pálskletti skerst inn langur og þröngur vogur með malarfjöru. Hann nefnist Pumpa. Rétt vestan við vitann eru svonefndar Stapagjár. Þær eru miklir hellisskútar sem sjórinn hefur á löngum tíma brotið og sorfið í stuðlabergsklettana. Gjárnar eru þrjár og heita Eystrigjá, Miðgjá og Músargjá. Mikið er af fugli í gjánum, aðallega ritu.Hellnar voru um aldir ein af stærstu verstöðvunum undir Jökli. Í byrjun 18. aldar bjuggu þar um 200 manns, ýmist á grasbýlum eða í þurrabúðum. Margar fornminjar vitna um liðna tíma s.s. brunnar og hleðslur. Örnefnið Gróuhóll kemur fyrir í Bárðar sögu en neðan og undir hólnum er falleg fjara, þaðan  var róið. Austan við víkina teygist fram bergrani sem heitir Valasnös og þar er Baðstofa, einhver sérkennilegasti hellir hér á landi. Í klettunum upp af fjörunni er Sauðahellir, gamall fjárhellir sem opinn er í báða enda. Hellnakirkja var reist árið 1945 á fögru kirkjustæði, þar var fyrst reist kirkja árið 1883.
Gestastofa
Gestastofa þjóðgarðsins er á Hellnum. Hún var opnuð sumarið 2004 í fyrrverandi fjárhúsum. Gestastofan er opin alla daga yfir sumarið frá kl. 10 – 18 og eftir samkomulagi á öðrum árstímum. Þar má nálgast upplýsingar og fræðslu um svæðið undir Jökli hjá landvörðum sem þar starfa. Þemasýningarinnar í gestastofunni er vermaðurinn og náttúran og er leitast við að sýna hvernig vermenn nýttu náttúruna til að sjá sér farborða. Höfðað er til allra skilningarvita og eru gestir hvattir til að smakka, lykta og reyna. Hægt er að finna eitthvað skemmtilegt
fyrir fólk á öllum aldri í gestastofunni.

Aðkoma og þjónusta

Margt hefur breyst til hins betra í þjónustu við ferðamenn frá því að Axlar-Björn kom líkunum af þeim ferðamönnum sem hann myrti fyrir í Iglutjörn. Vegur 574, Útnesvegur, liggur að friðlöndunum og um þjóðgarðinn. Starfsmenn þjóðgarðsins eru reiðubúnir til aðstoða gesti eftir fremsta megni og veita þeim upplýsingar. Þeir bjóða upp á skipulagðar göngu- og fræðsluferðir og eru gestir hvattir til að kynna sér þær og taka þátt í þeim. Engin gisti- eða veitingaaðstaða er í þjóðgarðinum sjálfum. Tjaldsvæði eru hvorki innan hans né á Búðum en á Arnarstapa er tjaldsvæði. Göngu- og hjólreiðamenn mega tjalda til einnar nætur í þjóðgarðinum. Gisti- og veitingastaðir eru á Búðum, Arnarstapa  og Hellnum. Úrval gisti- og veitingahúsa auk
tjaldsvæða, er í nágrenni svæðanna og þjóðgarðsins. Sundlaugar eru í Ólafsvík, á Lýsuhóli, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Næstu matvöruverslanir eru á Hellissandi, Rifi og í Ólafsvík. Bensínafgreiðslur eru á sömu stöðum og einnig á Arnarstapa og Vegamótum.
Gönguleiðir
Margar og fjölbreyttar gönguleiðir eru í og við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og ættu allir að geta fundið leið við sitt hæfi. Sumar þeirra eru stikaðar eða merktar og flestar er auðvelt að rata. Hægt er að tengja gönguleiðirnar saman á ýmsan hátt. Vert er að hafa í huga að lítið er um drykkjarvatn í þjóðgarðinum og því nauðsynlegt að hafa með sér eitthvað að drekka þegar lagt er í göngu. Nánar er gönguleiðum lýst í gönguleiðabæklingi sem nálgast má hjá þjóðgarðinum og á heimasíðu hans.
Ágæti ferðamaður
Öllum er frjálst að ganga um land þjóðgarðsins og friðlandanna en ætlast er til að merktum gönguleiðum sé fylgt þar sem þær eru fyrir hendi. Akstur er leyfður á akvegum og merktum slóðum og hjólreiðar einnig. Hestaumferð er heimil á merktum reiðleiðum. Þeir sem hyggjast fara með hesta um þjóðgarðinn eru beðnir um að hafa áður samband við starfsmenn hans. Göngum vel um náttúruna og vinnum ekki spjöll á henni, svo sem með því að rífa upp gróður, raska jarðmyndunum eða trufla dýralíf. Kveikjum ekki eld á víðavangi og tökum allt sorp með
okkur. Höfum hunda og önnur gæludýr í bandi og þrífum eftir þau úrgang.

Tilgangur friðlýsingar er að vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar. Með friðun er tekið frá land fyrir eðlilega framvindu náttúrunnar, útivist og upplifun manna á náttúrunni. Aukin þekking og skilningur almennings og virk þátttaka í náttúruvernd eru grundvallaratriði til að ná fram þessum markmiðum.

Virðum reglur og rétt fólks til að njóta náttúrunnar.
Umhverfisstofnun
Suðurlandsbraut 24  –  108 Reykjavík
Sími: 591 2000  –  Fax: 591 2020
Sími þjóðgarðs: 436 6888 eða 436 6860
[email protected]  www.umhverfisstofnun.is

Texti: Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull Guðbjörg Gunnarsdóttir og Ragnhildur Sigurðardóttir
Ljósmyndir: Jóhann Óli Hilmarsson, Gunnar Óli Sigmarsson, Snævarr Guðmundsson, Guðbjörg Gunnarsdóttir og Linda Björk Hallgrímsdóttir . Kortagerð: Jón Örvar Geirsson Jónsson.
Kortin voru gerð samkvæmt gögnum frá Landmælingum Íslands.
Umbrot: Einar Guðmann. Prentun: GuðjónÓ – vistvæn prentsmiðja Útgáfunúmer:  UST-2009