Suðurlandi skipt í þrjú megin svæði í markaðssetningu ferðaþjónustu

 

Dagný Hulda Jóhannsdóttir veitir Markaðsstofu Suðurlands forstöðu. Hún segir að fólk í ferðaþjónustu á Suðurlandi sé mjög jákvætt að nýloknu ferðasumri. „Við horfum björt fram á veginn. Það er góður gangur í þessu öllu. Við erum nú að horfa fram á heils árs ferðaþjónustu mjög víða á Suðurlandi. Við hér hjá Markaðsstofu Suðurlands erum þó í sjálfu sér ekki að líta til markaðssetningar um sumartímann heldur horfum við til vetrarins. Við leggjum sömuleiðis meiri áherslu á gæði þeirrar þjónustu sem er í boði frekar en að einblína eingöngu á fjölda ferðamanna.“

Hekla

Flosagjá

Margir staðir enn vannýttir
Það er vart ofmælt að Suðurland sé sá landshluti sem notið hefur mestrar velgengni í ferðaþjónustu enda eru þar margar af þekktustu náttúruperlum landsins. Gullni hringurinn svokallaði með viðkomustöðunum Gullfossi og Geysi er vísast fjölfarnasta ferðamannaleið á Íslandi í dag. Dagný segir að þrátt fyrir að Suðurland sé vissulega fjölsótt þá sé landshlutinn alls ekki fullnýttur sem áfangastaður ferðamanna. „Hér eru ótal margir fallegir og áhugaverðir staðir sem ekki eru eins fjölsóttir og Gullni hringurinn. Þar má nefna Þjórsárdal og nágrenni. Það eru líka fagrar og svartar strendur víðar en við Vík, svo sem í grennd við Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri. Það er styttra frá borginni og landslag allt öðru vísi en ekki síðra og Atlantshafið beljandi þar eins og víðar við suðurströndina og allt Ísland ef því er að skipta. Á Suðurlandi eru fjölmörg dæmi um athyglisverða minna sótta staði sem við viljum draga frekar fram og vekja athygli á.“

Urriðafoss

Gjáin í Þjórsárdal

Hjálparfoss

Þrískiptur landshluti
Dagný segir að enn séu töluverð sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna á Suðurlandi. „Það eru til að mynda tækifæri í uppbyggingu á gistirými á austanverðu svæðinu frá Vík og austur að Höfn í Hornafirði. Gestafjöldinn fer vaxandi á því svæði.“
Suðurland er víðfeðmt og afar fjölbreytilegt. Þetta kallar á mismunandi áherslur þegar kemur að markaðssetningu. „Nú erum við hjá Markaðsstofunni í samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu að skoða áfangastaðinn Suðurland sem þrjú megin svæði til að heimsækja og dvelja á. Austasti hlutinn er þekktur sem „Ríki Vatnajökuls.“ Þar er áherslan á jöklana og jöklaafþreyingu og er að miklu leyti innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Miðsvæðið er svo Katla jarðvangur og Vestmannaeyjar. Þar er áherslan lögð á eldvirkni, jökla, fossa og hraun. Katla jarðvangur hefur vottun frá UNESCO – Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Á Vestursvæði Suðurlands er m.a. lögð áhersla á jarðhita og matvælaframleiðslu. Þar er matarkistan með gróðurhúsum og landbúnaði, auk metnaðarfullrar hestaafþreyingar. Svo má ekki gleyma menningunni. Með því að draga fram styrkleika hvers svæðis gerum við tilraun til að hafa áhrif á þá sem eru að skoða Suðurland sem áfangastað, að þeir líti á landshlutann sem stað til að staldra frekar við og dvelja á, þá helst á hverju svæði fyrir sig. Þannig reynum við að hafa áhrif á lengd dvalar á svæðinu.

Vilja halda í ferðamennina
Að sögn Dagnýjar Huldu Jóhannsdóttur þá nýtur áfangastaðurinn Suðurland tvímælalaust nálægðar við höfuðborgarsvæðið og Keflavíkurflugvöll. „Vegna góðra samgangna þá er aðgengið líka gott að hvorutveggja. Á sama tíma felur þetta líka í sér ákveðnar áskoranir. Þess vegna erum við sem sinnum markaðsmálum ferðaþjónustunnar að vinna í þá átt að skipta svæðinu í þessa þrjá hluta; austur-, mið- og vestursvæði. Það er gert svo að fólk líti ekki á Suðurland einvörðungu sem svæði fyrir dagsferðir, heldur dvelji hér lengur og skoði meira. Hér á Suðurlandi er mjög fjölbreytt afþreying og mikið í boði svo við segjum 1–2 dagar á Suðurlandi er engan veginn nóg til að upplifa svæðið í heild.“