UM EINAR ÞORSTEIN ÁSGEIRSSON (1972-2015)


EÞÁ var í senn gæddur óvenjulegum listrænum hæfileikum og mikilli næmi fyrir verkfræði. Hann lauk arkitektúrnámi frá Hannover 1969 og starfaði síðan hjá Frei Otto, sem var frumkvöðull léttbygginga í heiminum. Hann lagði grunn að hinu gagnsæja tjaldi yfir ólympíuleikvanginn í Munchen 1972. Um líkt leiti kynntist Einar Buckminster Fuller sem hannaði skála USA í Montreal 1967 sem grindarkúlu. Einar varð smám saman mikill fræðimaður á þessum sviðum og byggði margar kúlu- og tjaldbyggingar á Íslandi og víðar.


Til að gerast skapandi hönnuður á þessum sviðum varð Einar að kafa djúpt ofan í ýmis lögmál náttúru og stærðfræði. Besta verkfæri hans var að gera líkön, sem líkjast kristöllum. Aðal fræðimaður í kristöllum var þá Linus Pauling sem fékk Nóbelsverðlaunin í efnafræði fyrir starf sitt á því sviði. Skrifaðist Einar á við hann um þessi mál. Einnig við Fuller, en Fuller kom þrisvar til Íslands til skoðanaskipta við Einar.


Árið 2000 flytur Einar til Berlínar og verður starfsmaður í Stúdíói Ólafs Elíassonar við hönnun myndverka Ólafs. Gerðu þeir fjölda skúlptúra saman, sem byggðu á rýmisrannsóknum Einars. Einar vann með Ólafi til 2012, en flytur þá heim.

Árið 2011 gekkst Hafnarborg fyrir sýningu um verk Einars. Frumkvæðið hafði Ólöf K. Sigurðardóttir, forstöðumaður. Hún réði Godd og Pétur Ármannsson sýningarstjóra, sem einnig sáu um gerð 96 síðna sýningarrits: „Hugvit“. Í formálanum segir Ólöf um Einar: „Verk hans endurspegla mikla þekkingu og einstaka sýn á lögmál náttúrunnar…“ Um starf sýningarstjóranna segir Ólöf: „Þeim hefur tekist að birta mynd af hönnuði og ekki síður hugsuði…“ (bls. 3). Í grein sinni í ritinu segir Pétur: „EÞÁ er án vafa einn merkasti og frumlegasti hugsuður sem íslenska þjóðin hefur alið af sér“. Og: „Hann er geimaldarmaðurinn í íslenskri byggingarlist…“ (bls. 15).
Trausti Valsson