60 ára afmæli Árbæjarsafns fagnað helgina 11.-13. ágúst

Árbæjarsafn á 60 ára afmæli föstudaginn 11. ágúst og verður haldið upp á þau tímamót með veglegri dagskrá í safninu dagana 11.-13. ágúst og að sjálfsögðu verður ókeypis aðgangur alla helgina.

Dagskráin hefst föstudaginn 11. ágúst kl. 17 með rokkabillí tónlist að hætti Smutty Smiff, fataskiptamarkaði og „Pub Quiz“ spurningakeppni. Hátíðin verður síðan sett formlega á slaginu 19:57 af borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni. Að því loknu hefjast tónleikar í boði Ölgerðarinnar með tríóinu Sigríði Thorlacius, Tómasi R. Einarssyni og Gunnari Gunnarssyni. 60 ára Árbæjarsafn

Á laugardeginum verður boðið upp í dans en þá verður sýnt skemmtilegt dansmyndband sem gert var sérstaklega fyrir afmælið. Í myndbandinu sýna ungir dansarar sex mismunandi dansa, einn frá hverjum áratug frá því safnið var stofnað. En hver man ekki eftir tvistinu, diskóinu, tunglgöngunni, orminum, Stuðmannahoppinu, Macarena, Lady Gaga svo ekki sé talað um Gangnam Style. Gestir munu hafa nægt pláss í Landakotshúsi til að spreyta sig á öllum þessum ólíku dansstílum. Nýjustu fornleifarannsóknir í Árbæjarsafni verða kynntar og börn fá að sigta jarðveg í leit að forngripum. Börn á aldrinum 6-12 ára geta komið með lítinn dýrgrip, passlegan í ORA fiskibolludós, til að geyma á safninu til næstu 40 ára. Þá verður hægt að fylgjast með hefðbundnum bústörfum í bænum og gestir geta til dæmis hjálpað til við að þvo þvott og bera saltfisk.

Dagskrá sunnudagsins verður með svipuðu sniði og daginn áður nema þá eru gestir hvattir til að mæta í fatnaði í anda sjötta áratugsins og skrá sig til þátttöku í keppni um flottasta klæðnaðinn. Kl. 13 mun Eliza Reid forsetafrú ávarpa gesti safnsins og setja keppnina en vegleg verðlaun eru í boði fyrir efstu þrjú sætin. Í kjölfarið mun Skólahljómsveit Grafarvogs skemmta gestum eins og þeim einum er lagið. Klukkan tvö verður guðsþjónusta í Árbæjarsafnskirkju og á milli klukkan 13-16 munu félagar úr Fornbílaklúbbnum sýna nokkra fallega kagga.

Hinn 11. ágúst 1957 var fáni dreginn að húni við Árbæjarsafn í fyrsta sinn til marks um að gestir væru boðnir velkomnir í safnið. Árbær á sér langa og merka sögu, en nýjustu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu sýna mannvist allt frá landnámsöld. Óhætt er að segja að Árbæjarsafn skipar sérstakan sess í hugum borgarbúa og gesta hennar enda er safnið með sín sögulegu hús og fallega umhverfi sannkölluð vin í borgarlandslaginu sem höfðar til fólks á öllum aldri. Á safninu má auk Árbæjar finna yfir 20 hús frá ýmsum tímabilum og í þeim má fá sýn á líf og tilveru fólks í Reykjavík áður fyrr. Leiðsögumenn og handverksfólk glæðir söguna lífi með frásögnum og sýnikennslu og safnið stendur fyrir fjölda viðburða ár hvert. Gestum Árbæjarsafn hefur fjölgað mikið undanfarinn áratug en árið 2016 heimsóttu tæplega 50.000 gestir safnið.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á www.borgarsogusafn.is og á FB síðu Árbæjarsafns www.facebook.com/arbaejarsafn/