ÁTÖK VIÐ HAFIÐ
Íslendingar hafa sótt sjó frá fyrstu tíð. Sjósókn er grunnurinn að byggð á landinu en sjórinn er jafnframt miskunnarlaus og hefur tekið fjölmörg mannslíf.
Ég hef alla tíð dregist að sjónum og þeim djúpa náttúrukrafti sem í honum býr. Síðasta sumar var ég á strandveiðum fyrir vestan. Til að styrkja andann og tengsl mín við sjóinn og sjómennskuna fór ég að mála myndir sem fönguðu ímynd mína og upplifun – hafið og bátana sem á honum sigla.
Hver einasta sjóferð hefur reynst æfintýri. Suma daga gengur allt eins og í sögu. Báturinn gerður sjófær og veiðarfæri klár. Farið út fyrir allar aldir af stað með tóm fiskikör og von um gott veður og sjólag. Siglt á vænleg fiskimið úti fyrir Blakk og drepið á dísel knúinni vélinni. Skakað um stund í faðmi múkka og svartbaks með lágvært marr í færavindunum og notið stundarinnar við að losa fiska af önglum, gera að aflanum og sjá kerin fyllast. Á heimstíminu færist ró yfir. Aflanum landað og brakandi fersku eldsneyti bætt á tankinn.
Aðrir dagar ganga ekki svo auðveldlega fyrir sig og erfitt að játa sig sigraðan – til dæmis þegar vélin bilaði út á miðju ballarhafi og ég þurfti að óska eftir aðstoð við að komast aftur í höfn. Þakklætið til Steina á Mars sem dró mig að landi er seint metið að fullu.
Sjórinn er ólíkur frá einu augnabliki til þess næsta. Eina stundina er hann rennisléttur með mjúkar bárur. Augnabliki síðar koma hárfínar gárur eða hafið skiptir litum. Stundum eykst vindurinn með deginum og þá stækka öldurnar og verða stundum óþægilega krappar.
Hver bátur á sjónum er einstakur. Báturinn þarf að vera útbúinn til að geta tekist á við hafið í öllum sínum myndum. Eyfirðingur EA 91 er Seigur 870 hraðfiskibátur með Volvo Penta D4 vél ásamt tilheyrandi hældrifi með skrúfum, stýri og sjálfstýringu, siglingatæki, AIS kerfi, talstöð, björgunarbát, flotgalla og fleira og fleira.
Bátarnir sem ég mála eru líka einstakir. Ekki endilega málaðir eftir raunverulegri fyrirmynd, heldur frekar ímynd mín um bát sem flýtur á sjónum og fer sína eigin leið. Báturinn er að nokkru tákn míns eigin sjálfs en að nokkru tákn þjóðarskútunnar eða jafnvel mannkynsins í heild.
Sjórinn sem ég mála er oft úfinn og grár og dimmur og lítt árennilegur, en báturinn er traustur og siglir af öryggi á öldutoppunum. Litirnir í sjónum eru margbreytilegir og ráðast af drungalegum himninum. Landið er fjarri en stundum má greina fjöll og eyjar.
Himinn og haf renna gjarnan saman og sjóndeildarhringurinn óljós og ójafn. Hafið verður ekki sigrað af mannlegum mætti og við mannfólkið munum áfram sækja verðmæti í sjóinn.
Sýningin fjallar því um átök. Barátta báta við öldur. Samt ekki síst innri átök mín. Einnig eru önnur og stærri átök. Barátta himins og hafs. Barátta ljóss og myrkurs. Barátta sannleika við lygar. Barátta góðs og ills.
Vonandi sigrar hið góða að lokum!