Sýningaropnun:
Laugardaginn 13. janúar kl. 15.00 verður opnuð í A sal Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúsi, ný sýning með verkum Errós.
Sýningin ber yfirskriftina Valdatafl – Erró, skrásetjari samtímans og á henni má sjá með hvaða hætti listamaðurinn Erró (f. 1932) hefur alla tíð skrásett róstur eigin samtíma. Hann dregur valdhafa, harðstjóra og stríðsherra inn í myndheim sinn þar sem þeir mæta skrumskælingu, háði og skopstælingu.
Sýningarstjóri er Danielle Kvaran.
Sýningin hefur þegar vakið athygli erlendis og hefur hið þekkta tímarit
Art Review nú þegar valið sýninguna sem eina af áhugaverðustu sýningum janúarmánaðar 2024. Hér má lesa nánar um valið.
Í verkum sínum lítur Erró sögu heimsins gagnrýnum augum. Með því að blanda saman ólíkum og mótsagnakenndum myndbrotum leysir hann upp hefðbundna frásögn, snýr út úr orðræðu málafylgjumanna og grefur undan samfélagi sjónarspilsins. Upphafnar áróðursmyndir eru lagðar að jöfnu við niðrandi klisjur og öllu stigveldi snúið á haus. Sá heimur sem verk Errós endurspegla er eldfim blanda af ringulreið og mótsögnum, óhófi og ofbeldi.
Sýningin er samsett úr úrvali málverka, klippimynda, teikninga og þrykks þar sem Erró ber vitni um pólitískan veruleika síns tíma. Hún ber ennfremur með sér ógnvænlegan enduróm frá núverandi stríðsátökum í Úkraínu, fyrir botni Miðjarðarhafs og víðar þar sem óöld geisar í dag. Þá er undirliggjandi óttinn við þriðju heimstyrjöldina og stigmagnandi kjarnorkuvá.
„Mér finnst ég vera eins konar annálsritari, fréttamaður hjá stofnun sem geymir allar myndir heimsins og það er hlutverk mitt að fella þær saman.“ -Erró
Sýningin stendur til 12. maí 2024.