Sjómenn á báti – Gunnlaugur Scheving

Myndina Sjómenn á báti málaði Gunnlaugur Scheving árið 1947.
Gunnlaugur Óskar Scheving 1904 – 1972.  Sjómenn á báti, 1947. LÍ 1056


Málverkið tilheyrir flokki sjávarlífsmynda Gunnlaugs Schevings. Í þeim myndum sýnir hann okkur gjarnan aðeins hluta af bátnum eða skipinu en ólgandi sjóndeildarhringurinn gerir það að verkum að áhorfandanum finnst hann vera um borð. Tveir sjómenn í stafni horfa til lands meðan vélstjórinn hugar að vélinni.
Svöl birtan umlykur sviðið og mjótorskellir kveða við. Ósjálfrátt stígum við ölduna og fáum seltubragð í munninn. Gunnlaugur var maður myndbyggingarinnar og formsins en í sjávarlífsmyndunum tekst honum einatt að gefa veðrið til kynna með litunum einum saman. Með því að skoða frumdrög stærri verka má sjá hvernig hann þróaði hin feiknastóru málverk sín út frá fjölda smá teiknina þar sem möguleikar myndbyggingarinnar eru skoðaðir til hlýtar.
Gunnlaugur var í forystu þeirra listamanna á fjórða áratugnum sem hvarf frá landslaginu og fjallaði um mannlíf og umhverfi fólks í verkum sínum. Hann hlaut menntun sína á þriðja áratugnum í Kaupmannahöfn og tilheyrir þeirri kynslóð íslenskra listamanna sem komu fram um og eftir 1930 og boðuðu róttæk viðhorf í íslenskri myndlist.
Expressíónisminn var hið eðlilega andsvar ungra listamanna á þessum tíma við þeirri akademísku hefð, sem í formfestu sinni og upphafningu hefðbundinna gilda var orðin ímynd stöðnunar og íhaldssemi. Í verkum Schevings er maðurinn alltaf í öndvegi. Hann vakti þegar athygli með málverkum sínum úr lífi íslenskra sjómanna sem átti eftir að verða eitt helsta viðfangsefni hans.
Gunnlaugur Scheving fæddist árið 1904 en lest 1972. Hann ólst upp á Seyðisfirði til 16 ára aldurs. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1920 og sótti þá einkatíma hjá Einari Jónssyni. Hann fór til Kaupmannahafnar 1923 og sóttimyndlistarnám veturlangt í einkaskóla, en komst fyrst á Konunglega listaakademíið árið 1925, og var þar við nám næstu fimm árin. Í list sinni leitaðist hann við að túlka hið einstaka og nákomna í lífi og umhverfi aþýðunnar í sköpun rismikilla mynda með sterkri formbyggingu.

Rakel

RELATED LOCAL SERVICES