HönnunarMars – sýningar í Hafnarborg

Miðvikudaginn 27. mars kl. 20 verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Hafnarborg í tilefni HönnunarMars. Það eru sýningarnar Fyrirvari, eftir Brynjar Sigurðarson og Veroniku Sedlmair, í aðalsal safnsins, og Teikningar/skissur í leir og textíl, eftir Kristínu Garðarsdóttur, í sýningarstjórn Brynhildar Pétursdóttur, í Sverrissal.

Sýning Brynjars Sigurðarsonar og Veroniku Sedlmair, Fyrirvari, miðar að því að þýða eða tengja saman „hluti“ í umhverfinu – þ.e.a.s. náttúru-, borgar- og menningarumhverfi – við hugmyndir og hugleiðingar að nýjum „hlutum“ en á sýningunni verður sköpunarferlið sjálft sýningarefnið. Vinna er séð sem eins konar röð möguleika og uppspretta fyrir nýja „hluti”. Hljóð verður kveikja að hlut og ljósmynd spinnur jafnvel af sér formæfingar í teikningu. Markmið sýningarinnar er að nýta og sýna öll þessi stig og miðla eða setja fram eins konar kortlagningu á tengingum milli mismunandi hluta og viðfangsefna, að leggja fram og myndgera ferli, hugmyndir og uppsprettur.

Sýning Kristínar Garðarsdóttur, Teikningar/skissur í leir og textíl, er óður til skissunnar, upphafsins og tilraunanna, þar sem hugmyndirnar eru frjálsar og flæða óhindrað úr einu í annað. Vinnan hefst með skissum og teikningum, sem síðan færast af blaði og yfir í önnur efni. Þetta ferli er áþreifanlegt í vinnu og verkum Kristínar. Skissur og teikningar sem voru unnar á áratugagamlan bókhaldspappír eru yfirfærðar í leir og textíl með ólíkum aðferðum, allt frá einföldum og frumstæðum yfir í hátæknilegar. Afrakstur þessa ferlis eru hlutir sem endurspegla handverk, þekkingu og tækni, þar sem notagildið er stundum skýrt en stundum óljóst. Sýningarstjóri er Brynhildur Pálsdóttir.

Brynjar Sigurðarson (f. 1986) og Veronika Sedlmair (f. 1985) hafa unnið saman síðan 2015 að rannsóknum, hugmyndum og verkefnum sem oft er erfitt að staðsetja á skalanum frá myndlist til hönnunar eða hönnunar til myndlistar. Brynjar og Veronika eru búsett í Suður-Frakklandi en saman standa þau að ís­lensk-þýsku hönn­un­ar­stof­unni Studio Brynj­ar & Veronika. Brynjar útskrifaðist með MA gráðu í vöruhönnun frá ECAL í Sviss 2011, eftir að hafa lokið BA prófi frá Listaháskóla Íslands, og Veronika stundaði nám í hönnun við TH Rosenheim og HFT Stuttgart á árunum 2005 til 2008. Verk þeirra taka á sig margar myndir og eru unnin í ólíka miðla, líkt og teikningar, ljósmyndun, myndbönd, hljóð og hluti, en samband mannsins við umhverfi sitt er jafnan sterkur þráður í þeirra verkum.

Brynjar og Veronika hafa unnið margvísleg verkefni fyrir fyrirtæki og gallerí, meðal annars Galerie Kréo í París, glerrannsóknarsetrið CIRVA í Marseille, þjóðlega postulínsframleiðanda Frakklands í Sèvres, París, framleiðslufyrirtækið PCM-Design, hönnunargalleríið og fyrirtækið Spark Design Space, skóframleiðandann Camper og kristals- og skartgripaframleiðandann Swarovski. Þá hafa þau hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir hönnunarstörf sín á síðustu árum, svo sem Torsten og Wanja Söderberg verðlaunin í Svíþjóð, Svissnesku hönnunarverðlaunin, Swarowski Designers of the Future verðlaunin, sem veitt eru á Design Miami/Basel hátíðinni, og viðurkenningu Hublot hönnunarverðlaunanna.

Kristín Garðarsdóttir (f. 1959) hefur dvalið um skeið í European Ceramic Workcenter (EKWC) í Hollandi síðan 2018 en þar hefur hún unnið að þróun verka í keramik, jafnframt því að vinna að vefnaði í TextielLab verkstæðinu í Textílsafninu í Tilburg. Þar fékk Kristín tækifæri til að gera fjölbreyttar tilraunir í bæði jarðleir og postulín, auk þess að nota ólíkar brennsluaðferðir, glerunga og tækni við mótun leirsins, en meginhluti verkanna á sýningunni er einmitt unnin í Hollandi. Kristín lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1997 og Danmarks designskole í Kaupmannahöfn 1999. Kristín hefur tekið þátt í fjölmörgum einka- og samsýningum bæði hér á landi og erlendis síðan 1995, auk þess að sinna kennslu við Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík.

Í aðdraganda opnunarinnar verður einnig hægt að heimsækja sýninguna Fyrirvara í formi opinnar vinnustofu, á meðan uppsetningu stendur. Geta gestir því fylgst með hönnuðunum að störfum á opnunartíma safnsins alla virka daga, nema þriðjudaga, fram að formlegri opnun. Þá er ferlið allt opnað og gestum gefst tækifæri til að skyggnast á bakvið tjöldin en á sýningunni er það sköpunarferlið sjálft sem er sýningarefnið, þar sem mismunandi stig hluta og hugmynda verða sýnd og opnuð almenningi til athugunar.

Sjá nánar um sýningarnar hér og hér.

 

Sjá fleiri greinar um myndlistamenn sjá hér

Sjá fleiri greinar um myndlistamenn sjá hér

Related Articles

  Sigurður Sigurðsson

  Sigurður Sigurðsson

  Sigurður Sigurðsson Sigurður ólst upp á Ísafirði og síðar á Sauðárkróki. Hann var stúdent frá MA 1937 og lauk cand. p...

  Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson

  Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson

  Hátíðartónleikar - Sigurður Guðmundsson & Sigríður Thorlacius Vegna fjölda áskorana hafa Sigríður Thorlacius ...

  Skrímslasetrið Bíldudal

  Skrímslasetrið Bíldudal

  Í Skrímslasetrinu er haldið utan um skrímslasögur sem lifað hafa með þjóðinni í gegnum aldirnar. Sagt er frá viðureignum...

  Listamenn Galleri

  Listamenn Galleri

  Listamenn-Galleri , listaverk , myndlist, innrömmun ...


iframe code

NEARBY SERVICES

 • Best of Iceland

  Best of Iceland